149. löggjafarþing — 120. fundur,  11. júní 2019.

loftslagsmál.

758. mál
[16:51]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Rósa Björk Brynjólfsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og áhugaverðan vinkil þegar kemur að flugferðum og mengandi flugstarfsemi. Við vitum að flugið er eitt af því sem mengar hvað mest. Við vitum líka að við erum í svolítið erfiðri landfræðilegri stöðu sem eyja norður í Atlantshafi sem treystir mikið á flugsamgöngur. Hvernig í ósköpunum eigum við að draga úr flugi?

Ég er ein af þeim sem hafa um nokkurra ára skeið talið að flugfargjöld væru í raun allt of lág. Ef mér skjöplast ekki fljúga hingað fram og til baka á bilinu 15–25 flugfélög. Það er vel og það er gott að fólk er að ferðast og sjá heiminn. En það er alveg þess virði að staldra aðeins við og velta fyrir sér þegar flugfargjöld til Póllands kosta 8.000 kr. hvort við séum á réttri leið, hvort við séum þá í raun og veru að liðka fyrir flugferðum á þann veg að þær eru hvorki hagkvæmar né umhverfisvænar.

Ég velti líka fyrir mér hvort hv. þingmaður deili þeirri skoðun með mér, af því að hann nefndi gjaldþrot WOW og setti það í áhugaverðan búning þegar kemur að umhverfismálunum, að flugfargjöld hafi verið of lág um nokkurra ára skeið og það hafi komið niður á veikari rekstrargrunni flugfélaga, sem við sjáum ekki aðeins hjá WOW heldur líka hjá Norwegian air og öðrum lágfargjaldaflugfélögum í Evrópu, og svo umhverfisþættinum þegar kemur að því.

Hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson nefndi(Forseti hringir.) hvort það væri möguleiki að taka upp einhvers konar stýringu og átti þá væntanlega (Forseti hringir.) við gjöld og skatta. Ég er mjög mikil talskona (Forseti hringir.) þess að nota skattkerfið til stýringar og það væri áhugavert að heyra hv. þingmann deila þeirri skoðun með mér.

(Forseti (ÞorS): Forseti minnir einnig á tímamörk. )