149. löggjafarþing — 120. fundur,  11. júní 2019.

þjóðgarðurinn á Þingvöllum.

802. mál
[22:46]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka svarið. Ég held að það leiki enginn vafi á því og ég geri ráð fyrir að þingmenn allir séu sammála um verndarmarkmið laga um þjóðgarðinn á Þingvöllum og þau markmið sem við viljum mögulega bæta við varðandi vernd svæðisins sem er gríðarlega mikilvæg og ég held að við hljótum öll að vera sammála um að mikilvægt er að halda því.

Það er annað sem mig langar að velta upp. Ég sá það að sveitarfélaginu Bláskógabyggð var send beiðni um umsögn en sveitarfélagið virðist ekki hafa skilað inn umsögn. Ég hef velt því upp í ræðu hvort þetta frumvarp væri gert með einhvers konar vitund eða í sátt við sveitarfélagið vegna þess að það kemur fram í frumvarpinu um leyfisveitinguna að tekið sé fram í þjóðlendulögum o.s.frv. að ekki sé gert ráð fyrir að leita þurfi til sveitarfélagsins. Mér finnst mjög mikilvægt að við höldum þessu stjórnsýslustigi á lofti. Þetta er mjög mikilvægt stjórnsýslustig og ekki síður mikilvægara í rauninni en ríkisapparatið þar sem verið er að sinna íbúunum af meiri nálægð en við kannski sjáum hér sem við erum á landsmálasviðinu.

En ég spurði áðan um almennu regluna. Ástæðan fyrir því að ég spurði hvort það væri betra að hafa almennar reglur er að það er frumvarp í umhverfis- og samgöngunefnd, held ég að sé, um stofnun Þjóðgarðastofnunar sem mér finnst, og það er persónuleg skoðun mín, það hefur ekki verið rætt í Miðflokknum sérstaklega, algerlega galin hugmynd í sjálfu sér, að vera sé að bæta við enn einni ríkisstofnuninni til að sjá um þjóðgarðana. Væri ekki nær að setja almennar reglur og mögulega ef menn vilja draga þetta einhvern veginn saman á einn stað, væri þá ekki betra að það væri gert í einhverju ráðuneytinu?