150. löggjafarþing — 120. fundur,  18. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[15:56]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir áhugaverða ræðu, hún var nákvæm eins og honum er einum lagið. Það mætti gjarnan vera okkur hinum til eftirbreytni að vera nákvæmari stundum. Hv. þingmaður talaði um, ef ég heyrði rétt, að þegar búið væri að taka verkefni út úr samgönguáætlun, eins og þessi sex verkefni sem hann ræddi um, væri ekki hægt að setja þau aftur í forgang inn í samgönguáætlun. Þar af leiðandi væru þau verkefni læst í þessari framkvæmd eða í þeirri ráðstöfun sem þarna er um að ræða. Mér finnst þetta áhugavert og ef þingmaðurinn getur væri gott að fá upplýsingar um hvort það sé alveg staðfest að svo sé, því að ég man ekki eftir að hafa heyrt þetta.

Mig langar að spyrja hv. þingmann, ég kem greinilega ekki öllum spurningunum að núna: Hvers vegna velja menn þessar PPP-framkvæmdir? Hvers vegna er sú leið farin ef það er svona augljóst að það er hagkvæmara þegar upp er staðið að ríkissjóður borgi?