150. löggjafarþing — 120. fundur,  18. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[16:35]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður talaði um lengstu röð sem hann hefði nokkurn tímann lent í, að vera fastur á eftir snjóruðningstæki. Ég hef þurft að fara allnokkrar slíkar ferðir, sérstaklega þegar ég bjó úti á landi. Ein sú lengsta var, held ég, einmitt á Grundarfjörð í rútu á eftir snjóruðningstæki þegar vegirnir voru mun verri en þeir eru í dag. Ég man ekki alveg klukkutímana, ég var ekki það gamall, eitthvað í kringum tíu klukkutíma. Meiri hlutinn af því var bara yfir Kerlingarskarðið og inn til Grundarfjarðar þegar allt kom til alls. Þetta eru vandamálin sem við glímum tvímælalaust við á þessum löngu fjallvegum á ýmsum stöðum úti á landi. Ástandið hefur orðið betra á undanförnum áratugum, sem betur fer, þó að enn sé langt í land.

Á hinn bóginn erum við með umferðarteppur sem myndast hér í bænum. Ég bjó í Bandaríkjunum þegar ég var í námi. Þar eru borgir byggðar upp án þess að almenningssamgöngur séu hafðar í huga. Umferðarteppur þar eru gríðarlegar, svo vægt sé til orða tekið. Það kaldhæðnislega við það er að þegar ég var úti í umferðinni þar var ég mjög afslappaður af því að ég vissi af teppunum og bjóst við þeim. Það var ekkert tiltökumál af því að það var bara hinn heilagi sannleikur, það var ekkert annað í boði. En hér erum við að venjast breyttri umferðarmenningu vegna þess að borgin er orðin það stór og nálgast einmitt þennan massa sem hefur t.d. verið í borgum í Bandaríkjunum. Þá reynir maður að bera aðeins saman: Hverjar eru hinar ólíku áherslur sem við þurfum að leggja annars vegar í borginni og hins vegar úti á landi og hvernig myndum við sjá fyrir okkur hið (Forseti hringir.) fullkomna samgöngukerfi? Af hverju erum við ekki með það fyrir framan okkur hvernig það væri sem best?