150. löggjafarþing — 120. fundur,  18. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[16:50]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég vil í síðari ræðu minni um samgönguáætlun ræða um umferðaröryggismál og vegmerkingar. Auk þess vil ég koma aðeins inn á ferðamenn í umferðinni. Þó að þeir séu kannski ekki margir í dag mun þeim vonandi fjölga, en þeir voru fjölmargir áður en faraldurinn brast á. Því miður má finna mörg dæmi hér á landi um óviðunandi vegmerkingar og þó að vissulega hafi verið reynt að bæta úr því á undanförnum misserum þarf enn að bæta þær verulega. Virðist svo vera bæði hvað varðar skilti og yfirborðsmerkingar. Þær eru oft og tíðum ónákvæmar og orðnar óskýrar, eins og yfirborðsmerkingar eru gjarnan. Stundum virðist hreinlega ekki nægilega vandað til verks þegar vegmerkingar eru annars vegar og þær einhvern veginn látnar mæta afgangi. Um þetta var ágæt umfjöllun í Morgunblaðinu í grein um umferðaröryggismál og hefur t.d. oft dregist að mínum dómi allt of lengi að yfirborðsmerkja vegakafla sem nýlega er búið að malbika. Við þekkjum að þegar nýlega er búið að malbika veg er hann ansi dökkur, sérstaklega í myrkri eða þegar skammdegið fer að bresta á. Það er nauðsynlegt að hraða því að setja upp yfirborðsmerkingar þegar malbiksframkvæmdum er lokið. Félag íslenskra bifreiðaeigenda hefur bent á að dæmin sýni að ónákvæmar merkingar á þjóðvegum auki líkur á slysum, t.d. sé allt of algengt að kantlínur vanti eða að yfirborðsmerkingum sé illa haldið við þannig að þær verði ógreinilegar. Ég held að flestir sem hér eru þekki það.

Þegar kemur að erlendum ferðamönnum er afar mikilvægt að við höfum skýrar merkingar vegna þess að þeir eru margir hverjir ekki vanir að vera hér í umferðinni en ég kem nánar að því á eftir. Auk þess hefur hér verið rætt um einbreiðar brýr og mikilvægi þess að leggja þær af og tvöfalda brýr. Félag íslenskra bifreiðaeigenda hefur einmitt lagt áherslu á það og einnig merkingar þegar komið er að einbreiðum brúm. Þá er yfirleitt upphrópunarmerki og síðan þríhyrningur og skilti sem gefur til kynna að vegur þrengist. Við Íslendingar fylgjum yfirleitt þeirri reglu að sá sem kemur fyrr að brúnni hafi forgang. En slíkt tíðkast ekki erlendis og útlendingar þekkja ekki það fyrirkomulag. Þetta hefur Félag íslenskra bifreiðaeigenda bent réttilega á, þannig að betra væri að hafa merki sem tiltekur að bílar sem koma úr annarri áttinni eigi forgang á meðan bílar úr hinni áttinni þurfi að víkja.

Ég tók eftir því þegar ég fór um Suðurland fyrir skömmu að það eru þó komnar merkingar á ensku um að fram undan sé einbreið brú. Það er gott mál. Hins vegar vantar merkingar um hvor eigi forgang. Ég held að það sé nokkuð þarft, eins og var bent á m.a. af Félagi íslenskra bifreiðaeigenda. Ónákvæmni og ósamræmi í merkingum getur líka skapað slæma umferðarmenningu. Ef merkingar eru ekki nægilega skýrar læra ökumenn að reglurnar í umferðinni séu svolítið óljósar og kannski ekki ástæða til að hlíta þeim að fullu. Þetta vildi ég segja um mikilvægi þess að við tökum okkur á í vegmerkingum og yfirborðsmerkingum vega.

Ég vil aðeins koma inn á erlenda ferðamenn í umferðinni. Eins og ég sagði áðan er ekki mikið um þá hér og nú vegna veirufaraldursins, en þeim mun fjölga aftur. Fyrir faraldurinn voru hér ansi margir ferðamenn og mjög margir bílaleigubílar í umferðinni. Því miður er það staðreynd að ekki hefur dregið úr banaslysum og alvarlegri slysum erlendra ferðamanna á undanförnum árum hér á landi. Það er að sjálfsögðu mikið áhyggjuefni. Ferðaþjónustan leggur áherslu á auknar slysavarnir í þágu erlendra ferðamanna og margir í þjóðfélaginu líta á slys á erlendum ferðamönnum sem alvarlegt vandamál og því sé mjög mikilvægt að greina vandamálið ávallt þannig að menn viti hvar bera skuli niður hvað varðar forvarnir.

Ef beina skal sjónum að notendum vegakerfisins eru mörg atriði sem koma til álita, svo sem umferðarmenning viðkomandi landa og menntun ökumanna. Fjölmargar Asíuþjóðir heimsækja okkur og nota vegakerfið jafnt sumar sem vetur, en þar er umferðarmenningin með öðrum hætti. Sérstaklega er menntun ökumanna mun slakari en við eigum að venjast. Einföld atriði, eins og merkingar og skilti, eru ekki samræmd milli Evrópulanda og hvað þá Asíulanda. Síðan höfum við kröfuna um menntun ökumanna sem ekki er samræmd og þannig mætti lengi telja. Það eru allt áhættuþættir sem við þurfum að bregðast við með auknum forvörnum. Rannsóknasjóður Vegagerðarinnar lét gera skýrslu um umferðaröryggi erlendra ferðamanna á Íslandi fyrir þremur árum og margt athyglisvert kemur þar fram. Við athugun á tegundum slysa meðal erlendra ferðamanna í umferðinni kemur í ljós að tvær algengustu tegundirnar eru útafakstur af beinum vegi hægra eða vinstra megin. Ég endurtek: Beinum vegi. Erlendir ökumenn lenda hlutfallslega oftar í árekstrum við umferð sem kemur á móti á beinum vegi. Þetta tengist mjög sennilega því að þeir hafa ekki vanist því að aka á svo mjóum vegum í heimalandi sínu. Við þekkjum það víða úti á landi, t.d. á Mýrdalssandi, á Suðurlandinu og fleiri stöðum, að vegir eru óþægilega mjóir. Ökutækjaveltur eru því miður of algengar meðal ferðamanna. Sennilega er það afleiðing þess að ekið er of hratt miðað við aðstæður þannig að menn missa stjórn á bifreið sinni.

Í skýrslunni er athyglisverð greining á því hvernig slys dreifast á þær þjóðir sem sækja okkur heim. Bandaríkjamenn og Bretar eru tíðir gestir hjá okkur, en tíðni slasaðra er hlutfallslega lág hjá þessum þjóðum. Bretar vekja athygli fyrir það að tíðni slysa hjá þeim er lág þrátt fyrir að þeir búi við vinstri umferð í heimalandi sínu. Annað sem vekur athygli er hátt hlutfall Suður-Evrópubúa, þjóða eins og Ítala og Spánverja og hefur m.a. verið vakin athygli á því af tryggingafélögunum, sem beindu þeim upplýsingum til bílaleiga að fræða sérstaklega ökumenn frá þeim löndum um þær hættur sem geta verið í umferðinni. Þá er hlutfallið frá Kína hátt, en orðrómur er um að ökunám Kínverja sé ekki á háu stigi. Það þarf sem sagt að fylgjast grannt með þjóðerni slasaðra erlendra ferðamanna og haga forvörnum í samræmi við það. Bílaleigur hafa bent á að merkingarkerfi á vegum sé ábótavant og þyrfti að vara við hættu tímanlega eins og gert er erlendis. Merkingar þurfa að vera á erlendum tungumálum og vara þarf við hættunni með nægilegum fyrirvara.

Herra forseti. Við þurfum að móta hér stefnu um notkun erlends texta á umferðar- og þjónustuskiltum. Ég held að það sé óhjákvæmilegt, einfaldlega vegna þess að öryggið er ofar öllu. Niðurstaða þessarar ágætu skýrslu er í stuttu máli sú að slysum á erlendum ferðamönnum fer fjölgandi. Einnig lýsa menn áhyggjum af meintum þekkingarskorti ferðamanna á íslenskum aðstæðum og hefur sérstaklega verið bent á síðasta þáttinn varðandi asíska ferðamenn. Vegakerfið hefur verið rætt í þessu sambandi, t.d. einbreiðar brýr og skortur á vegöxlum og útskotum. Þá hefur hraðakstur einnig verið í umræðunni.

Þetta er innlegg mitt í síðari umræðu um samgönguáætlun vegna þess að það er brýnt að bæta umferðaröryggismálin og huga sérstaklega að forvörnum og þá sérstaklega hvað varðar akstur erlendra ferðamanna hér á landi.