150. löggjafarþing — 120. fundur,  18. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[17:51]
Horfa

Vilhjálmur Bjarnason (S):

Virðulegi forseti. Þegar ég á kost á því að tala um samgöngumál ætla ég að notfæra mér það. Í fyrri setu minni á hinu háa Alþingi einbeitti ég mér öðrum málum. Hér eru til umfjöllunar annars vegar skammtímaáætlun til fjögurra ára og hins vegar áætlun til lengri tíma, til 15 ára, allt til 2034.

Á ferðum mínum um nágrenni borgarinnar sé ég að ýmislegt hefur áunnist á undanförnum árum, t.d. að verið er að tvöfalda Reykjanesbraut frá Hafnarfirði til Keflavíkur, þá vegabúta sem eftir eru. Það þyrfti reyndar að gera mun fleira, eða klára sunnanverðan kaflann. Það er sömuleiðis verið að vinna í samgöngubótum í Ölfusi, milli Hveragerðis og Selfoss, og sömuleiðis er tvöföldun Vesturlandsvegar á Kjalarnesi komin nærri framkvæmdastigi. Allt er þetta til bóta.

Ég held að á undanförnum árum og áratugum hafi menn vanmetið mjög þær lífskjarabætur sem verða af samgöngum. Því miður dettur mér oft í hug frásögn af forsetakosningum í Bandaríkjunum 1948 þegar varaforsetaefni Harrys S. Trumans kom á bæ en hann hafði barist fyrir vegarspotta frá þjóðvegi að bænum og fengið í gegn. Varaforsetaefnið bað bóndann um að kjósa sig nú í þetta skipti og sennilega í það síðasta. Bóndi sagði nei. Af hverju? spurði varaforsetaefnið. Bóndinn svaraði: Jú, það er vegna þess að þú hefur ekki gert neitt fyrir mig nýlega.

Vegabætur hafa stundum verið gerðar í atkvæðakaupum en því miður ekki í þéttbýli heldur á fámennari svæðum. Þannig hafa hin þéttbýlli svæði á Suðvesturlandi setið dálítið eftir. Mér sýnist á öllu að það sé aðeins verið að taka til hendinni þar og er það vel.

Ég ætla örlítið að fjalla um nokkuð sem mér virðist sem lítið sé fjallað um í þeim plöggum sem hér eru undir. Það er Keflavíkurflugvöllur. Það kann að vera að innan ekki allt of langs tíma þurfi að stækka aðstöðuna á Keflavíkurflugvelli. Þá á ég ekki bara við flugstöðina heldur ekki síður flugbrautir. Einhvern tíma kemur að því, miðað við ákveðna notkun, að það þurfi að tvöfalda flugbrautir, þ.e. að hafa samsíða brautir, nema þær flugvélar sem annast flutninga til og frá Íslandi stækki þeim mun meir. Ég vona að við endurskoðun á þessum áætlunum verði tekið tillit til þess að einhvern tímann þurfi að tryggja samsíða brautir, að það þurfi að fara að hugsa fyrir því, kannski ekki innan lengri tíma en upp undir tíu ára, að skipulag Keflavíkurflugvallar verði með þeim hætti að ekki verði útilokað að hægt sé að hafa samsíða brautir fyrir brottför og lendingar eins og er á mörgum stærri flugvöllum. En þeir eru vissulega komnir langt umfram þann farþegafjölda sem nú er um Keflavíkurflugvöll. Sömuleiðis þarf náttúrlega að tryggja að viðhald og uppbygging á flugvallarmannvirkjum í Keflavík sé með eðlilegum hætti. Þar kann að standa út af vandamál, þ.e. eignarhald á Keflavíkurflugvelli sem er nú um stundir á mannvirkjaskrá NATO. Vegna þess að völlurinn er á mannvirkjaskrá NATO kann að vera að ekkert megi gera vegna þess að þá er hann hernaðarmannvirki, þó að hann sé fyrst og fremst notaður í borgaralegum tilgangi. Að þessu þarf að huga.

Varðandi annað flug til og frá landinu, um aðra flugvelli, finnst mér oft og tíðum gæta mikillar bjartsýni í því að hægt sé að hefja víðtækt og reglubundið flug frá öðrum flugvöllum til og frá Íslandi. Ég held að það sé óþarflega mikil bjartsýni og ef menn vilja kosta miklu til þess þá er líka spurning hvort ekki sé öllu skárra, miðað við hitt, að kaupa þjónustu flugrekenda til að fljúga beint frá Keflavík á þessa staði. Þann hluta þarf að vega og meta. Það hefur verið reynt að reka áætlunarflug frá Keflavík til Akureyrar í tengslum við komur og brottfarir í Keflavík en það hefur ekki verið efnahagslega hagkvæmt enn sem komið er. Þetta tel ég að sé í sjónmáli þó að ekki sé allt of mikið fjallað um það í þeim plöggum sem hér eru undir.

Varðandi hugsanlegt samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir stöndum við og föllum með því að fyrir því fáist fjármagn. Í slíkri fjármögnun þarf að sýna fram á tekjur. Hér eru tiltekin sex verkefni og ég ætla rétt að vona að menn hafi hugsað það til enda. Samhliða þessu þarf að huga að því að koma verður á einhverju samræmdu og góðu kerfi til að hægt sé að koma á orkuskiptum því að einhver borgar. Hvort sem þetta er borgað beint eða borgað með bensíngjaldi, neytandinn borgar með einhverjum hætti.

Ég ætla að láta þessar hugleiðingar mínar duga og ljúka máli mínu en leggja áherslu á að samgöngubætur eru lífskjarabætur fyrir alla og hafa verið stórlega vanmetnar í gegnum tíðina. Ég hef lokið máli mínu, virðulegi forseti.