150. löggjafarþing — 120. fundur,  18. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[18:48]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Oddnýju Harðardóttur fyrir andsvarið. Hv. þingmaður gat þess að hún hefði komið inn í ræðu mína miðja og það kann að skýra af hverju hún áttaði sig ekki á því hvernig ég hagaði uppbyggingu ræðunnar og hvernig ég kom að einstökum málefnum. Ég skýrði það í upphafi máls míns, vék reyndar að því einu sinni eða tvisvar, að þegar við erum að tala um samgönguáætlun þá birtist hún í vissu tilliti borgarbúum og íbúum á höfuðborgarsvæðinu í gegnum áform um þetta opinbera hlutafélag. Þar er fjallað um stofnbrautir, borgarlínu, ljósastýringu o.s.frv. Nei, þessi ræða var ekki um vitlaust mál. Hún var um samgönguáætlun í þeim skilningi að samgönguáætlunin var sett í samhengi við hið opinbera hlutafélag sem ráðgert er að stofna rétt eins og eðlilegt er að gera þegar um þetta mál er réttilega fjallað.

Hv. þingmaður sagðist ósammála mér um borgarlínu. Hún tiltók ekki hvaða atriði það væru varðandi borgarlínuna sem hún væri ósammála mér um. Auðvitað er það hún sem er að spyrja mig hér en ekki ég hana en ég ætlaði að leyfa mér að segja að ég hefði áhuga á því að vita hvaða atriði það eru sem hún er ósammála mér um. Ég lýsti mig fylgjandi almenningssamgöngum, sagðist hafa skilning á þeim, lýsti reynslu minni af almenningssamgöngum, allt frá ungum aldri og fram á virðulegan aldur. En ég lýsti því hins vegar að ég áttaði mig ekki á þessari forgangsröðun sem meiri hlutinn í borgarstjórn hefði sett upp með því að víkja (Forseti hringir.) Sundabraut til hliðar fyrir borgarlínu og lýsti undrun minni á því (Forseti hringir.) af hverju Sjálfstæðisflokkurinn væri að fjármagna það.