150. löggjafarþing — 120. fundur,  18. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[18:50]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Nú vildi ég að ég gæti sagt við hv. þingmann: Takk fyrir svarið. En það get ég ekki vegna þess að það kom ekki svar við spurningu minni heldur viðbragð við yfirlýsingu minni. Ég verð því að ítreka spurninguna en þar var ég að vísa í þekkingu hv. þingmanns á efnahagsmálum. Þegar hv. þingmaður horfir á vegakerfið og sér að það er á mjög mörgum stöðum, á allt of mörgum stöðum, hreinlega að molna undan okkur, og það hefur ekki gerst á nokkrum mánuðum heldur á löngum tíma, er hann þá ekki sammála mér um það að ríkisstjórnin, þar sem flokkur hans hélt um stjórnartaumana á árunum 2013–2016, hefði átt að fara í fjárfestingarátak og nýta þann slaka sem var í hagkerfinu á þeim tíma um leið og við vorum að fara upp í hagsveiflunni, nýta stöðu ríkisfjármála og stöðuna í efnahagsmálum til að fara í fjárfestingarverkefni og innviðaframkvæmdir. Var það ekki rétti tíminn?

Síðan vil ég spyrja, af því að ég á smátíma eftir, hvort hv. þingmaður sé ekki sammála mér í því að ekki sé nægilega mikil áhersla lögð á umhverfismál í samgönguáætluninni, hvort sem er til fimm ára eða til lengri tíma. Lítið er fjallað um orkuskipti í samgöngum og þau verkefni sem ættu að ýta undir þau orkuskipti og koma þeim fljótt á koppinn. Þyrfti ekki, að mati hv. þingmanns, að vera aukin áhersla á umhverfismál í samgönguáætlun?