150. löggjafarþing — 120. fundur,  18. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[22:24]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég vil halda aðeins áfram þar sem frá var horfið í síðustu ræðu minni sökum þess að tíminn er mjög knappur eins og komið hefur fram. Ég var að fjalla hér um umhverfismat á vegaframkvæmdum og ósamræmi í ákvörðunum Skipulagsstofnunar um matsskyldu þegar um sambærilegar framkvæmdir er að ræða. Ég nefndi áðan í ræðu minni Kjalveg annars vegar, mjög brýna framkvæmd, og Þingvallaveg hins vegar. Kjalvegur þarf að fara í umhverfismat en Þingvallavegur, sem er innan þjóðgarðsins, á viðkvæmu svæði og nýtur sérstakrar verndar samkvæmt lögum, þarf ekki að fara í umhverfismat. Það er dæmi um þetta ósamræmi sem er með öllu ólíðandi. Umhverfismat er vissulega mikilvægt í sumum framkvæmdum en í tilfelli sem þessu er verið að tefja mikilvægar framkvæmdir sem þarf að fara í og það veldur því að menn missa tiltrúna á þessu kerfi þegar menn sjá að um augljóst misræmi er að ræða. Sveitarfélagið Bláskógabyggð hefur ályktað um þetta og sendi inn umsögn til umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis og nefnir sérstaklega að ótækt sé að ítrekað skuli nauðsynlegar vegabætur á svæðinu, framkvæmdir við viðhald vega sem lagðir voru fyrir áratugum síðan, lenda í gíslingu af þessu tagi. Ég verð að taka heils hugar undir það. Höfum það í huga að eins og með Kjalveg er þarna vegur fyrir. Það er ekki verið að leggja nýjan veg. Maður getur kannski skilið það í ákveðnum tilfellum að eðlilegt sé að fara í umhverfismat þegar á að leggja veg yfir ósnortið land þar sem aldrei hefur verið vegur áður en í þessu tilfelli, eins og með Kjalveg, hefur verið vegur þarna í áratugi.

Hægt er að nefna annað dæmi. Skipulagsstofnun ákvað að breikkun Vesturlandsvegar í 2+1 veg eigi að fara í umhverfismat og þar er heldur ekki um nýjan veg að ræða heldur breikkun á fyrirliggjandi vegi, þ.e. 2+1 ásamt hliðarvegum, hringtorgum, göngu-, hjóla- og reiðstígum. Landið sem raskast við þá framkvæmd hefur þegar orðið fyrir röskun og þarna sjáum við að er ósamræmi og í raun verið að tefja mikilvæga framkvæmd sem varðar m.a. öryggismál. Eins og við þekkjum eru hættulegir vegkaflar á Vesturlandsvegi. Ef menn nýta sér þessar kæruleiðir til hins ýtrasta þá er hægt að tefja mikilvægar framkvæmdir mjög mikið og það finnst mér óeðlilegt, herra forseti.

Tvöföldun Reykjanesbrautar í Hvassahrauni, frá Lónakoti í Hvassahrauni til Krýsuvíkurafleggjara í Hafnarfirði, þarf að fara í umhverfismat og þar er ekki hægt að hefja framkvæmdir. Nú á í sérstöku fjárfestingarátaki ríkisstjórnarinnar að klára þann veg loksins og ég fagna að sjálfsögðu tvöföldun Reykjanesbrautar. Þar er ekki hægt að hefja framkvæmdir fyrr en eftir tvö ár vegna þess að það þarf að fara í umhverfismat og auk þess er hönnun í gangi. En ef einhverjir myndu ákveða að nýta sér kæruleiðir varðandi þann vegarkafla, og áttum okkur á því að hann liggur við hliðina á vegi sem þegar hefur verið lagður, þá er hægt að tefja það mál enn frekar. Það er að mínum dómi algerlega óásættanlegt, þegar það er svo mikilvægt að bæta öryggi með þessum hætti, að menn geti endalaust tafið svo mikilvægt verkefni þegar til staðar er vegur á svæðinu og maður myndi ætla að umhverfisáhrif væru með minnsta móti í ljósi þess. Ég held að við verðum að fara yfir þessi mál þegar kemur að umhverfismati (Forseti hringir.) vegaframkvæmda vegna þess að ég held að við séum komin í ákveðnar ógöngur hvað það varðar. Það sannar (Forseti hringir.) bara þetta ósamræmi sem er í sambærilegum framkvæmdum þegar kemur að því að ákveða að vegarkafli eigi að fara í mat á umhverfisáhrifum.