150. löggjafarþing — 120. fundur,  18. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[22:51]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Ég ræddi áðan aðeins um mismunandi nálgun í almenningssamgöngum hér og í Álaborg í Danmörku, þar sem borg af svipaðri stærð og Reykjavík, með svona svipað land undir, íhugaði að fara í léttlestakerfi en hætti við út af kostnaði. Þar er heldur ekki neitt sem líkist því sem hér hafa verið birtar myndir af, því sem hefur verið nefnt borgarlína. Þeir vagnar sem helst líkjast því sem hér hefur verið lýst sem borgarlínu eru vagnar sem maður hefur séð í borgum eins og Kaupmannahöfn, París og jafnvel Berlín og það eru náttúrlega borgir sem eru mörgum sinnum fólksfleiri en Reykjavík.

Smátt og smátt kemur upp úr kafinu hvernig menn ætla sér að leggja þessa svokölluðu borgarlínu. Það er mjög eftirtektarvert, og það er á bls. 72 í langtímaáætluninni, að birtar eru myndir af legu borgarlínunnar, þ.e. af áfanga tvö sem nær suður í Hafnarfjörð eða eitthvað slíkt og upp í Mosfellsbæ hins vegar. Það skarast hvergi þannig að ekki virðist vera um neins konar miðstöð að ræða samkvæmt því sem hér birtist. En það kemur líka ýmislegt fram sem er nýtt. Við vitum að til að fjármagna hlut ríkisins í borgarlínu á að selja helsta djásn höfuðborgarinnar í byggingarlandi sem er Keldnalandið, sem er eina landið sem eftir er eftir að tíu mánaða fjármálaráðherra seldi Veðurstofureitinn og Vífilsstaði og öllum til tjóns nema náttúrlega þeim sem fá að kaupa. Það voru fjárplógsmenn sem keyptu í Reykjavík en Garðabær keypti Vífilsstaði með því fororði, herra forseti, að bærinn myndi allra náðarsamlegast selja ríkinu til baka hugsanlega lóð undir sjúkrahús ef þess yrði æskt einhvern tímann seinna í ferlinu. Fyrst átti sem sagt að selja þetta í burtu og síðan átti að kaupa þetta til baka aftur.

Ég rek augun í það hér á bls. 72 að í öðrum áfanga borgarlínu á að beina henni í gegnum Keldnalandið sem á jafnframt að byggja upp. Það er greinilegt að hún á líka að fara í gegnum Blikastaðalandið sem er úrvalsbyggingarland í Mosfellsbæ. Ef þetta apparat þarf eins mikið pláss og lítur út fyrir á myndum þá veltir maður því fyrir sér að þarna er verið að leggja nýjar brautir, það á ekki að nýta þær sem fyrir eru. Það á að leggja nýjar brautir en í hinu orðinu er talað um að leggja eigi rauða dregla meðfram því sem við erum að gera í dag og þar eigi þessi svokallaða borgarlína að fara um. Ég verð að segja, herra forseti, að það er orðið yfirgengilega ruglingslegt hvað menn ætla sér að gera. Það virðist ekki vera sama hver tekur til máls, hvernig sagt er frá.

Verandi gamall Kópavogsbúi þá verð ég að segja að mér brá nokkuð í brún þegar ég sá, á þessari mynd á bls. 72, að gert er ráð fyrir því að einhver angi borgarlínunnar svokallaðrar fari um svæði Háskólans í Reykjavík yfir brú yfir Fossvoginn sem einu sinni átti að vera brú fyrir gangandi og hjólandi. Nú á hún að vera fyrir gangandi, hjólandi og borgarlínu. Hreinasti lúxus, herra forseti, að vera þarna gangandi eða á hjóli og fá sótið frá þessum 600 hestafla bílum beint í andlitið. En það er ekki nóg því að eins og myndir af þessu fyrirbæri birtast nú, að þetta séu kannski þríliða vagnar, mjög stórir, þá eiga þeir að aka götu í Kópavogi sem heitir Borgarholtsbraut, 60 ára gamalt hverfi að uppistöðu til, húsahverfi, íbúðahverfi. Þarna eiga þessi ferlíki að fara um og það eru barnaskólar beggja megin brautarinnar.

Ég verð að spyrja, herra forseti: Er mönnum ekki sjálfrátt? Ég verð að halda áfram ef ég fæ orðið aftur, sem ég bið um. Mér duga ekki þessar fimm mínútur til að tala um akkúrat þetta.