150. löggjafarþing — 120. fundur,  18. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[23:40]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Ég ætla í þessari ræðu að lesa upp úr umsögn frá Samtökum sveitarfélaga á Norðvesturlandi. Ég las í síðustu ræðu upp úr umsögn frá sveitarfélögum á Vesturlandi. Báðar þessar umsagnir eiga það sammerkt að í þeim er mikið lítillæti og hógværð. Það er í raun og veru bara beðið um lágmarks viðhaldsfjármagn til að geta keyrt um vegina án mikilla skakkafalla á meðan verið er að tala um 50 milljarða kr. framkvæmd í borgarlínu. En aðeins að þessari umsögn.

„Um nokkurt skeið hefur endurbygging Skagastrandarvegar verið inni á samgönguáætlun en með hverri nýrri áætlun verið ýtt aftar í framkvæmdaröðina. Hönnun var nýverið boðin út og stendur nú yfir. Í síðustu samgönguáætlun var gert ráð fyrir að vinna hæfist á árinu 2020 en í þeirri tillögu sem nú er fram komin er framkvæmdum frestað til ársins 2022. Við það geta íbúar landshlutans ekki unað. Vegurinn er með hættulegustu vegum landsins. Um hann fara miklir þungaflutningar og umferð ferðamanna hefur stóraukist. Vegurinn er ein þeirra framkvæmda sem sveitarstjórnir landshlutans alls setja í forgang í nýrri samgöngu- og innviðaáætlun. Það eru vonbrigði að aðgerðir þær sem gripið er til í því augnamiði að flýta samgönguframkvæmdum á landinu skili sér ekki á Norðurland vestra heldur sé brýnum framkvæmdum á svæðinu ýtt aftar í framkvæmdaröðina. Stjórn SSNV krefst þess að framkvæmdir við Skagastrandarvegi hefjist árið 2020.“

Og aðeins áfram hér, með leyfi forseta:

„Stjórn SSNV leggur á það áherslu að Alexandersflugvöllur verði á ný skilgreindur í grunnnet flugvalla og áætlunarflug um hann verði hluti af stuðningi ríkisins við innanlandsflug (skosku leiðinni). […]“

„Stjórn SSNV bendir á mikilvægi flugvallarins á Blönduósi og þess að farið verði í nauðsynlegt viðhald og endurbætur á honum svo hann megi gegna nauðsynlegu öryggishlutverki fyrir íbúa á Norðurlandi vestra og vegfarendur alla.

Í samgönguáætlun hækkar sameiginlegur pottur til tengivega lítillega, sem er vel.“ — Þetta kalla ég lítillæti, hæstv. forseti, lítillega, sem er vel. — „Miðað við það sem fram kemur í áætluninni fyrir árin 2020–2024 mun heildarfjármagnið á áætlunartímanum duga til að leggja slitlag á 130 km vega samtals. Á Norðurlandi vestra einu setja sveitarfélögin 225 km í forgang í fyrrnefndri samgöngu- og innviðaáætlun og því ljóst að þessir fjármunir duga engan veginn til ásættanlegra vegabóta. Bæta þarf verulega í þennan pott. Í áætluninni til áranna 2020–2034 er tilgreint að gera eigi átak í að leggja bundið slitlag á umferðarminni vegi þrátt fyrir að veghönnun sé að einhverju leiti ábótavant miðað við núgildandi reglur. Stjórn SSNV hefur í gegnum tíðina margoft lagt þetta til og telur að með þessu verklagi megi hraða uppbyggingu stofn- og tengivega mikið. Það er jafnframt mat umferðaröryggissérfræðinga að í flestum tilfellum myndu slíkar framkvæmdir ekki ógna öryggi enda erfitt að sjá hvernig vegir með bundnu slitlagi gætu verið hættulegri en þeir vegir sem íbúar og ferðamenn búa við í dag.

Stjórn SSNV bendir á að stórauka þurfi fjármagn til uppbyggingar og viðhalds tengivega til að hægt verði að ná upp ásættanlegum framkvæmdahraða. Jafnframt fagnar hún þeirri áherslu að slitlag verði lagt á fáfarnari vegi þó þeir uppfylli ekki ströngustu viðmið miðað við núverandi reglur. Tekið er fram í áætluninni til 2020–2024 að tengivegapotti skuli skipt eftir „umferð og lengd tengivega á hverju svæði án bundins slitlags.“

Og áfram heldur lítillætið:

„Stjórn SSNV bendir á að á Norðurlandi vestra er eitt hæsta hlutfall malarvega á landinu öllu. Jafnframt eru í landshlutanum einar lengstu skólaakstursleiðir landsins. Eðlilegt er að skýr viðmið ráði forgangsröðun vega en lengd og umferð ættu ekki að vera einu þættirnir sem gengið er út frá. Tegund umferðar ætti líka að vera hluti af þessum viðmiðum. Því leggur stjórn SSNV til að til viðbótar við framangreinda þætti í forgangsröðun verði vegir sem skólaakstur fer um skilgreindir sem forgangsvegir. Stjórn SSNV leggur til að auk lengdar tengivega innan svæðis og umferðar í skilgreiningu forgangs með tilliti til bundins slitlags verði vegir þar sem um fer skólaakstur einnig settir í forgang.“

Hæstv. forseti. Ég sé að tími minn er búinn. Ég óska þess að ég verði settur áfram á mælendaskrá.