150. löggjafarþing — 120. fundur,  18. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[23:55]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Frú forseti. Þegar fjallað er um samgöngumál á höfuðborgarsvæðinu verður ekki hjá því komist að fjalla um borgarlínu, ekki síst vegna þess að fyrirsjáanlegt er að hún mun soga til sín óhemjufé. Síðasta kostnaðaráætlun sem sögur fara af er upp á 80 milljarða. Gert er ráð fyrir því í öðru frumvarpi sem er hér til umræðu að ríkissjóður muni leggja þar til 50 milljarða. Miðað við reynslu af kostnaðaráætlunum er fjarri því fráleitt að gera því skóna að framkvæmdin geti kostað a.m.k. vel á annað hundrað milljarða. Gagnstætt þessu stendur álit umferðarverkfræðings sem ég hef leyft mér að vitna til í umræðunni fyrr í kvöld. Þórarinn Hjaltason skrifar í Kjarnann í mars 2019 og rekur að hægt væri að ná sömu markmiðum og borgarlínu er ætlað með því að verja til þess verkefnis nokkrum milljörðum í stað nokkurra tuga milljarða og það er ekki annað að sjá en að hann hafi sams konar skilgreiningu á borgarlínu og hefur nú verið kastað fram hér í þessum sal, að þetta væri rauður dregill fyrir strætó. Vandamálið er að þarna eru önnur verkefni sem sitja á hakanum. Sérstaklega verður Sundabraut fyrir barðinu á þessari stefnu.

Síðan er dálítið sérkennileg umræða sem spinnst í kringum svokallaðan einkabíl sem almennt er nú kannski réttara að kenna við fjölskyldu, hann er farartæki fjölskyldunnar. Síðan er hann auðvitað atvinnutæki og mér verður hugsað til þess að fólk fer af mörgum ástæðum á milli húsa vegna vinnu sinnar. Nú er mikil atvinnustarfsemi í kringum heimaþjónustu aldraðra og margir eru mikið á ferð um höfuðborgarsvæðið og ég nefni sem dæmi hjúkrunarfræðinga, sjúkraþjálfara og fólk sem sinnir því að heimsækja eldri borgara sem eru heima hjá sér. Svo eru matarsendingar, hreingerningarþjónusta og annað af því tagi. Maður spyr sig: Á allt þetta fólk sem fer vegna atvinnu sinnar á milli staða að ferðast með borgarlínu? Er ástæða til að uppnefna samgöngutæki þeirra, sem auðvitað hlýtur að vera bifreið, einhvern einkabíl og tala um einhvern svokallaðan einkabílisma? Það er afar sérkennilegt og það hefur ekkert verið fjallað um þann þátt af hálfu þeirra sem leggja mikla áherslu á borgarlínu.

Síðan eru fjölmargir aðrir þættir af sama toga. Annað sem er áberandi er að borgarstjórnarmeirihlutinn í Reykjavík hefur að því er virðist lagt sig fram um að torvelda umferð. Ég hef nefnt í þessari umræðu Hofsvallagötu og Birkimel, það má nefna Snorrabraut og fram hefur komið að í þeim efnum hefur, a.m.k. sums staðar, verið farið gegn ráðum lögreglu og sjúkraflutningamanna sem er auðvitað nauðsynlegt að fái greiða leið. Það kemur fram í þessari tilvitnuðu grein í Kjarnanum að það hafi verið hafður uppi einhliða áróður og málflutningur hafi ekki verið að öllu leyti heiðarlegur og bent í því sambandi m.a. á vefsíðuna borgarlínan.is. Mér gefst ekki tími til að rekja þau dæmi sem eru tekin í greininni. Þau eru nokkur og ég bendi á hana fyrir þá sem áhuga kynnu að hafa á því efni.