150. löggjafarþing — 120. fundur,  19. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[01:15]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Herra forseti. Þegar við fjöllum um samgönguáætlun, þar sem mikilvægur þáttur er auðvitað framkvæmdir hér á höfuðborgarsvæðinu og tengist náttúrlega hinum svonefnda samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins, þá er málið þannig vaxið að það tengist ríkisfjármálum og ábyrgri meðferð á ríkisfé. Ég hef, og fleiri hv. þingmenn, fjallað hér um áform um að láta tugi milljarða úr ríkissjóði í svokallaða borgarlínu, sem hefur markmið sem eru góð, að greiða fyrir almenningssamgöngum á svæðinu. En uppi eru alvarlegar spurningar um það hvort ekki sé hægt að ná sömu markmiðum með lægri tilkostnaði og hefur verið bent á grein á vefriti eftir kunnáttumann í samgöngufræðum, verkfræðing og rekstrarhagfræðing. Hann heldur því fram að hægt sé að ná þessum markmiðum með því að verja til verkefnisins nokkrum milljónum á meðan kostnaðaráætlun, þegar síðast fréttist, var upp á 80 milljarða og hafði hækkað um 14,3% frá árinu áður. Við erum að tala um árin 2018 og 2019. Í ljósi reynslunnar varðandi framkvæmdir, ekki síst af hálfu borgaryfirvalda, er þess vegna ekki fráleitt að gera því skóna að framkvæmdakostnaður gæti verið a.m.k. vel á annað hundrað milljarðar.

Ég leyfi mér að vitna hér til, herra forseti, nefndarálits 2. minni hluta umhverfis- og samgöngunefndar. Þann minni hluta skipa hv. þingmenn Miðflokksins, Karl Gauti Hjaltason og Bergþór Ólason. Þeir fjalla um þessa þætti í áliti sínu og þar kemur fram að minni hlutinn geri athugasemdir við fyrirhuguð fjárframlög vegna samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins. Rifjað er upp að samkomulagið er á milli ríkisstjórnarinnar og sex sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um skipulag og fjármögnun uppbyggingar á samgönguinnviðum og almenningssamgöngum á höfuðborgarsvæðinu til 15 ára. Í álitinu segir að ekki séu gerðar athugasemdir við þann hluta samkomulagsins sem snýr að afar tímabærri uppbyggingu stofnbrauta á svæðinu, gerð göngu- og hjólastíga og átaki í umferðarstýringu.

Herra forseti. Það er naumast einleikið, framkvæmdastoppið sem hefur ríkt í höfuðborginni sérstaklega, og það er ekki vansalaust, herra forseti, að það skuli ekki vera hægt að komast hindrunarlaust eftir Miklubrautinni, hinni miklu æð sem tengir austur- og vesturhluta borgarinnar. Það hefur kveðið svo rammt að framkvæmdastoppinu að til að mynda hefur ekki verið séð til þess að gangandi fólk komist yfir götuna með öruggum hætti. Ekki hafa verið útbúnar brýr eða göng þannig að gangandi vegfarendur stöðva með því að ýta á einn hnapp kannski tugi eða hundruð bifreiða með tilheyrandi orkusóun og loftslagsmengun.

Herra forseti. Annar minni hluti nefnir svokallaða borgarlínu og vísar til þess að um það verkefni allt ríkir veruleg óvissa, t.d. að því er snertir fjárfestingarþörf, þokukenndar áætlanir, þá staðreynd að engar rekstraráætlanir liggja fyrir, bindingu fjármagns til langrar framtíðar, óljósar útfærslur á þrengingu að annarri umferð og sömuleiðis er fjallað þarna um það sem kallað er viðvarandi ofáætlun um notkun á þessum samgöngukosti. Þess hefur verið vitnað til og talað um það í því sambandi og þarf ekki að endurtaka það. (Forseti hringir.) Ég á eftir að fjalla um ýmis mál og bið hæstv. forseta um að setja mig að nýju á mælendaskrá.