154. löggjafarþing — 120. fundur,  11. júní 2024.

störf þingsins.

[13:40]
Horfa

Katrín Sif Árnadóttir (Flf):

Virðulegur forseti. Mig langar að ræða aðeins um eftirlits- og björgunarflugvél Landhelgisgæslunnar, TF-SIF. Flugvélin kom hingað til lands árið 2009 og var koma hennar bylting í öryggislöggæslu og eftirliti sem og leit og björgun á vegum Landhelgisgæslunnar. Því miður hefur hlutverk hennar við Ísland lotið í lægra haldi fyrir öðrum verkefnum. Það er nefnilega svo að vélin er leigð út til starfa við Miðjarðarhafið stóran hluta ársins. Þar er hún í verkefnum fyrir Frontex, landamærastofnun Evrópu. Úthald TF-Sifjar í Frontex-verkefnum hefur að jafnaði numið þremur til fimm mánuðum á ári. Að teknu tilliti til orlofs áhafna og viðhalds hefur vélin því ekki verið til taks nema takmarkaðan hluta úr ári hér á landi. Það er miður að við getum ekki treyst á það að til taks sé eftirlits- og björgunarvél nema lítinn hluta ársins. Hér er um að ræða ranga forgangsröðun og svo sannarlega er þetta ekki í þágu sjómannastéttarinnar.

Þá gegnir flugvélin fleiri mikilvægum hlutverkum. Hún hefur eftirlit með ferð skipa og báta um landhelgina sem getur haft mikla þýðingu í baráttunni gegn fíkniefnainnflutningi og einnig til að vernda okkur gegn því að aðilar veiði fisk innan landhelginnar án tilskilinna heimilda. Svo er hún jafnframt okkar besti kostur til að hafa eftirlit með sæstrengjum sem tengja okkur við umheiminn, sem er afar mikilvægt á þessum tímum, enda eru það sæstrengirnir sem færa okkur internetið, lífæð nútímasamfélags.

Hafið er harður húsbóndi og það getur skipt sköpum við leitar- og björgunarstörf að hafa flugvél á borð við TF-SIF tiltæka þegar og ef illa fer. Mér finnst persónulega að við eigum ekki að leigja frá okkur svo mikilvæg björgunartæki. Hvað fyndist okkur t.d. um það ef við leigðum frá okkur skurðlækna í verkefni víðs vegar um Evrópu? Þetta er alveg fráleitt og við eigum að sjá til þess að þessi mikilvæga eftirlits- og björgunarflugvél sé við störf allan ársins hring hér heima á Íslandi.