154. löggjafarþing — 120. fundur,  11. júní 2024.

forvarnir og lýðheilsa þegar horft er til aukins aðgengis að áfengi.

[14:16]
Horfa

Dagbjört Hákonardóttir (Sf):

Forseti. Ég vil þakka hv. þm. Jódísi Skúladóttur fyrir þessa þörfu og tímabæru umræðu. Takk fyrir að vekja máls á henni. Einkasala hins opinbera á áfengi kann í hugum einhverra að vera gamaldags tugga, arfleifð bannáranna sem á kannski jafn mikið erindi við samtímann og bjórbannið. En staðreyndirnar tala sínu máli og hæstv. ráðherra hefur farið yfir þær sem og málshefjandi. Aukið aðgengi eykur neyslu. Ég endurtek: Aukið aðgengi að áfengi eykur neyslu á áfengi. Hún mun aukast hjá ungu fólki, hún mun aukast hjá eldra fólki, hún mun aukast á mánudögum, þriðjudögum, miðvikudögum. Hún mun lækka meðalaldur áfengisnotenda. Þetta er staðreynd. Fjarsala áfengis hefur ekki orðið til í neinu tómarúmi. Hún á sér ekki lagastoð. Ef einhver velkist í vafa um það hvort hún geti mögulega lifað góðu samlífi með forvörnum þá verð ég enn eina ferðina að vera boðberi slæmra frétta. Ríkisstjórnin leyfir hér stórum aðilum í netsölu að ráða ferðinni. Hér hafa þeir tekið fram fyrir hendurnar á okkur yfirvöldum. Nú gildir að hafa hugrekki þessu máli. Eða ætlum við kannski að vera passíf?

Forseti. Við komumst ekkert áfram í lýðheilsu og forvörnum ef frjáls netsala fær að viðgangast óhindrað. Frelsi þessara aðila mun koma niður á þeim sem minnst mega sín. Hér eru okkar viðkvæmustu hópum kastað fyrir borð á grundvelli mjög óljósra hagsmuna og það bólar ekkert á því að styrkja meðferðarúrræði til framtíðar samhliða þessu. Það eru hundruð manna biðlista á eftir áfengismeðferð á Vogi og foreldrar þúsund barna leggjast ár hvert inn á Vog og það endurspeglar ekki einu sinni í raun þörfina. (Forseti hringir.)

Virðulegur forseti. Áfengi er langstærsti fíknivandinn. Ég hvet hæstv. ráðherra (Forseti hringir.) sem og skoðanasystkini mín í ríkisstjórninni að fara fram með hugrekki í þessu máli.