154. löggjafarþing — 120. fundur,  11. júní 2024.

forvarnir og lýðheilsa þegar horft er til aukins aðgengis að áfengi.

[14:47]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka þessa umræðu og hv. þm. Jódísi Skúladóttur málshefjanda. Ég tek með mér úr þessari umræðu, sem kemur mér ekki á óvart, að það standa allir hv. þingmenn sem hér hafa talað — og auðvitað vísaði ég til þess að allir hv. þingmenn hefðu greitt atkvæði með lýðheilsustefnu hér í júní 2021 sem gildir til 2030 þannig að við stöndum öll með lýðheilsunni. En það eru eðlilega ólík sjónarmið um nálgun og leiðir og það er að finna í hæstv. ríkisstjórn, eins og hér hefur komið fram, og í flokkum jafnvel eins og í þessari umræðu. Við hins vegar stöndum á ákveðnum tímamótum og við getum alveg kallað það lýðheilsuógn þegar við sjáum netsölu aukast í slíkum mæli og þegar ein stærsta verslunarkeðja þjóðarinnar hefur lýst því yfir að hún ætli að opna netsölu þá verðum við auðvitað að láta reyna á lögin og ég tek undir með hv. þingmönnum sem komu inn á lagaumhverfið hér. Þess vegna sá ég tilefni til að senda erindi á hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra sem fer með rekstur Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins sem starfar eftir lögum og fer með þessa einkasölu, sem er mikilvægt fyrirkomulag. Við erum hvött til af öllum, öllum heilbrigðisstéttum, alþjóðasamtökum, heilbrigðisyfirvöldum að halda í það fyrirkomulag vegna þess að í því er forvörn út af fyrir sig. Út frá því lagaumhverfi sem við höfum sett, út frá lýðheilsustefnunni sem við höfum öll samþykkt hér á Alþingi er algerlega nauðsynlegt, hæstv. forseti, að við látum reyna á lögmæti netsölu og ákveðum í hvaða átt við viljum fara með lýðheilsu þjóðarinnar.