131. löggjafarþing — 121. fundur,  3. maí 2005.

Fullnusta refsinga.

336. mál
[11:25]

Margrét Frímannsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég sé ástæðu til að koma hér upp og þakka fyrir góða vinnu og þær breytingar sem gerðar hafa verið á lögum um fullnustu refsinga sem áður voru lög um fangelsi og fangavist og ég tel að allar þær breytingar sem hér koma fram séu jákvæðar. Eins og hv. þingmenn muna var lagt fram frumvarp á síðasta þingi sem ekki varð fullrætt og því vísað í raun og veru til baka eða hæstv. dómsmálaráðherra tók það aftur til frekari vinnslu. Ég tel það mjög jákvæð vinnubrögð miðað við þá hörðu gagnrýni sem kom á það frumvarp, sem var afar fljótfærnislega unnið frumvarp og ekki í nokkru tekið tillit til þeirra óska sem fram höfðu komið, hvorki frá aðstandendum fanga, föngum sjálfum né öðrum þeim aðilum sem hafa fjallað um málefni fanga utan Fangelsismálastofnunar.

Hæstv. ráðherra kaus að taka það frumvarp til baka og láta leggja vinnu í að fara yfir þær umsagnir sem borist höfðu og þær athugasemdir sem höfðu verið gerðar og nýr forstöðumaður Fangelsismálastofnunar kom að vinnu þessa nýja frumvarps. Það verður að segja þeim til hróss að mikil breyting hefur orðið, ekki bara á þeim texta sem sést í frumvarpinu, heldur kemur fram ótvíræð viðhorfsbreyting fangelsismálayfirvalda til starfsemi fangelsanna frá því sem áður var. Það er einstaklega jákvætt.

Nefndin hefur líka, miðað við það nefndarálit sem hér liggur frammi og þau gögn sem að baki liggja, farið mjög vel yfir frumvarpið og unnið það sérstaklega vel.

En þetta er aðeins áfangi á leið til betri vegar vegna þess að þær breytingar sem lagðar eru til geta ekki að fullu komið til framkvæmda nema að tekið sé sérstaklega á húsnæðismálum fangelsanna. Það er alveg ljóst að Hegningarhúsið við Skólavörðustíg er orðið þannig að það er útilokað að nota það miklu lengur en gert hefur verið og í raun hefur það verið í notkun lengur en ég tel eðlilegt vera og er það á undanþágu núna sem var veitt í febrúar 2004, undanþágu til tveggja ára, og það er þriðja undanþágan til tveggja ára sem veitt er á undanförnum árum. Gerðar hafa verið alvarlegar athugasemdir við þetta húsnæði, bæði af innlendum aðilum, eftirlitsaðilum, heilbrigðiseftirliti, en ekki síður af þeim eftirlitsnefndum sem hafa komið t.d. frá Evrópuráðinu og skoðað fangelsið, og hafa verið gerðar mjög alvarlegar athugasemdir við aðbúnað fanga og vistarverur fanga en einnig varðandi vinnuaðstöðu þeirra sem þar starfa.

Það er ekkert sem segir í dag að það sé í raun og veru nokkur von til úrbóta vegna þess að við höfum ekki séð í fjárlögum neinar ákvarðanir varðandi uppbyggingu nýs fangelsis. Meðan það er ekki gert er haldið áfram að starfa í Hegningarhúsinu við Skólavörðustíg, sem er á undanþágum og hefur komið fram í svari hæstv. ráðherra við fyrirspurnum mínum að ekki sé mögulegt að tímasetja á nokkurn hátt hvenær hugsanlega því fangelsi verði lokað.

Hegningarhúsið á eingöngu að vera móttökufangelsi, en er það ekki í raun. Þar dvelja menn sex mánuði og jafnvel lengur. Þar er ekkert við að vera, engin afþreying, engin vinna og engin aðstaða til eins né neins. Það er lítil von til bata hjá einstaklingi sem gert er að dvelja í Hegningarhúsinu við Skólavörðustíg, allt að sex mánuði af afplánun sinni og jafnvel lengur, á meðan hann dvelur þar. Það eru engin meðferðarúrræði. Stór hluti fanga sem koma þar inn, eins og fram kom í svari hæstv. dómsmálaráðherra við fyrirspurn minni, eru háðir fíkniefnum, eiturlyfjum og áfengi. Það á við um langstærstan hluta þessara fanga. Í Hegningarhúsinu er enginn möguleiki til meðferðar.

Það var mjög sárt að sjá í fréttatíma Sjónvarpsins viðtal sem tekið var við Bjarnþóru M. Pálsdóttur, sem er varaformaður Fangavarðafélags Íslands. Hún hefur mótmælt aðstöðunni í Hegningarhúsinu við Skólavörðustíg og segir að þeir fangar sem þangað komi og eigi við fíkniefnavanda að etja eigi litla batavon. Bjarnþóra Pálsdóttir, varaformaður Fangavarðafélagsins, segir, með leyfi forseta, í svari við spurningu fréttamanns:

„Og ef við tökum Hegningarhúsið sem dæmi, sem er móttökufangelsi. Hingað koma flestir fangar sem eru að mæta í úttekt. Þá koma þeir margir hverjir mjög illa á sig komnir líkamlega og andlega eftir langvarandi neyslu. Og af því að þeim er ekki boðið upp á neina almennilega meðferð við fíknarvandamálum sínum þá er í rauninni bara ástandinu viðhaldið með lyfjaneyslu … Og þeir náttúrulega koma þá bara alveg eins út aftur. Þeir eru í rauninni búnir að vera svona hálfpartinn í neyslu hérna inni því það er ekkert við að vera, það er enginn skóli. Þannig að dagurinn hjá þeim líður bara með því að þeir sofa … og reyna að úthugsa hvernig þeir geti smyglað fíkniefnum. Það er ekkert markmið með því að vakna á morgnana.“

Vistin í Hegningarhúsinu er ekki alltaf skammvinn. Um það segir Bjarnþóra, með leyfi forseta:

„Í raun þá eru einstaklingar hérna sem að vistast í upp undir sex mánuði og í dag“ — þegar þetta viðtal var tekið — „er einstaklingur sem er búinn að vera hérna síðan í haust. Þannig að reyndin er ekki sú að menn séu stutt hér.“

Þetta er algerlega óviðunandi, virðulegi forseti, að ekki sé tekið á því í fjárlögum íslenska ríkisins, að bæta húsnæðisþörf fangelsanna. Það er algerlega útilokað. Í mars fór heilbrigðiseftirlitið í Reykjavík og mældi koltvísýringsmengun í klefum í Hegningarhúsinu. Í sumum tilvikum var hún tvöfalt meiri en hún mátti vera þótt „fullkomin loftræsting“ væri á klefunum, þ.e. opinn gluggi alla nóttina. Þarna hafa verið gerðar alvarlegar athugasemdir um leið og undanþága til starfseminnar er veitt. Ég efa stórlega að heilbrigðiseftirlitinu sé stætt á því að endurnýja undanþáguna varðandi fangelsið í Hegningarhúsinu eftir ár þegar hún rennur út.

Hið sama má segja um kvennafangelsið, þ.e. fangelsið í Kópavogi sem reyndar er ekkert réttnefni að kalla kvennafangelsi. Þar eru vistuð bæði karlar og konur. Einnig má nefna fangelsið á Akureyri. Hvort tveggja eru byggingar sem þyrfti að loka og færa starfsemina annað. Þessu hefur fangelsismálastjóri, Valtýr Sigurðsson, lýst yfir aftur og aftur til að ítreka þörfina fyrir nýtt fangelsi en viðbrögðin eru lítil. Um leið og maður hlýtur að fagna nefndaráliti og niðurstöðum allsherjarnefndar og breyttum viðhorfum sem koma fram í nefndarálitinu, í frumvarpinu og í vinnunni við frumvarpið áður en það kom til umfjöllunar á Alþingi þá harmar maður það jafnhliða að engin merki sjáist um að hér rísi nýtt fangelsi. Enn erum við að tala um fjarlægan draum.

Þá kemur að atriði sem snýr kannski ekki að allsherjarnefnd og hæstv. dómsmálaráðherra. Það snýr a.m.k. að heilbrigðisráðherra, þ.e. heilbrigðisþjónustan í fangelsunum. Það hefur margítrekað verið bent á þörfina t.d. fyrir aukna geðheilbrigðisþjónustu í fangelsum. Þess eru dæmi að mjög veikum einstaklingum, sem hafa ítrekað reynt sjálfsvíg innan veggja fangelsa, hafi verið vísað frá geðdeildum, þeir hafi verið fluttir mjög veikir á geðdeild, geðdeild Landspítala – háskólasjúkrahúss, verið vísað þaðan klukkutíma síðar og lokaðir inni í öryggisgæslu fangelsis, þá fyrst og fremst til að gæta þeirra eigin öryggis en án þess þó að fá fullkomna þjónustu eða þá þjónustu sem þeir eiga rétt á samkvæmt lögum.

Nýverið var bætt við hálfri stöðu við fangelsið á Litla-Hrauni, þ.e. geðlæknisþjónustan var efld á Litla-Hrauni. í frétt um það mál frá 30. mars segir, með leyfi forseta:

„Ákveðið hefur verið að ráða geðlækni til starfa í fangelsið á Litla-Hrauni. Staðan verður auglýst á næstu dögum en einnig er stefnt að því að bæta geðþjónustu fyrir almenning á Suðurlandi sem hingað til hefur þurft að sækja slíka þjónustu til Reykjavíkur.

Mikið hefur verið fjallað um aðbúnað í íslenskum fangelsum í fjölmiðlum að undanförnu og um stöðu sakhæfra manna sem eiga við geðræn vandamál að stríða. Sex til átta fangar með geðræn vandamál afplána dóma í fangelsum hér að jafnaði og sagði forstjóri fangelsismálastofnunar í fréttum Sjónvarps á dögunum að sláandi skortur væri á aðstöðu fyrir fanga með geðræn vandamál.

Nú hefur heilbrigðisráðherra ákveðið að veita heilbrigðisstofnun Suðurlands fjárveitingu til þess að ráða geðlækni til starfa að Litla- Hrauni. Um er að ræða hálfa stöðu geðlæknis en áður var geðlæknir í 25% stöðu þar. Málið hefur að sögn Sveins Magnússonar, skrifstofustjóra í heilbrigðisráðuneytinu, verið á dagskrá þar í um tvö ár. Staðan verður auglýst á næstu dögum …“ Eftir því sem ég best veitt er umsóknarfrestur einmitt að renna út þessa dagana.

Eins og fram kemur í fréttinni eru sex til átta fangar mjög veikir og eiga við alvarleg geðræn vandamál að stríða, fyrir utan þá sem þurfa á geðlæknisþjónustu að halda en ekki eru taldir eins alvarlega veikir. Það hefur komið fram hjá landlækni að líklega væri besta lausnin, sem við þingmenn Suðurkjördæmis höfum reyndar oft bent á, að byggja upp legudeild við Sogn. Réttargeðdeildin á Sogni hýsir ósakhæfa geðveika afbrotamenn en hefur einnig tekið til sín um lengri eða skemmri tíma einstaka fanga sem eru sakhæfir en eiga við alvarleg geðræn vandamál að stríða.

Við höfum margoft bent á að fyrir liggja teikningar um stækkun og breytingu á húsnæðinu við Sogn. Þar væri um að ræða pláss þar sem hægt væri að hýsa a.m.k. þá sex eða átta einstaklinga sem veikastir eru hverju sinni. Kostnaðurinn við þessar breytingar var á sínum tíma metinn um 29 millj. kr. Þetta hefur komið fram í skýrslum sem gerðar hafa verið, sérstaklega eftir að fangelsismálastjóri og landlæknir höfðu ítrekað bent á þann vanda sem við væri að etja varðandi sakhæfa geðveika afbrotamenn og einnig þá sem eru á götum úti en hafa verið í fangelsi um lengri eða skemmri tíma. Sumir eru komnir á götuna og eiga við alvarleg geðræn vandamál að stríða og er hvergi hægt að hýsa. Á þetta hefur ítrekað verið bent og á það er bent í lokaskýrslu nefndar sem fjallaði um málið en þar var talað um Sogn sem vænlegan kost. Engu að síður var tekin ákvörðun um það að byggja upp á Kleppi en nýta ekki þá möguleikana á Sogni og það verður að segjast eins og er, að það vantar gífurlegt fjármagn í viðhald á byggingum á Sogni.

Á Sogni er sérþekking og þar starfar mjög gott fagfólk sem hefur langa reynslu af meðferð ósakhæfra afbrotamanna og jafnframt sakhæfra sem eru geðveikir. Ég tel því eðlilegt að hið fyrsta verði farið í að byggja þar upp þannig að ekki þurfi að koma til þess sem fram kemur hjá forstöðumanni Fangelsismálastofnunar, Valtý Sigurðssyni. Í bréfi til heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis sem sent var síðasta sumar rekur Valtýr sögu fanga sem hafði síðasta sumar verið í miklum geðsveiflum og ítrekað reynt sjálfsvíg. Að mati læknis taldist ástand hans orðið mjög ótryggt og var hann því sendur á bráðageðdeild Landspítalans. Klukkutíma síðar var fanginn sendur í Hegningarhúsið og vistaður í einangrunarklefa af öryggisástæðum. Hann var síðan sendur á réttargeðdeildina á Sogni.

Valtýr segir einnig að dæmi séu um að föngum sem sendir hafi verið á geðdeild hafi verið snúið við á tröppunum eða þeir sendir aftur í fangelsið eftir nokkra klukkustundir. Hver er réttur veikra einstaklinga í fangelsum? Hver er réttur þeirra innan heilbrigðiskerfisins? Hann á að vera tryggður samkvæmt lögum en þetta er samt sem áður niðurstaðan. Valtýr Sigurðsson fangelsismálastjóri hefur starfað í rúmt ár við Fangelsismálastofnun og eins og fram hefur komið í umræðunum hafa orðið verulegar úrbætur í fangelsismálum á þessum stutta tíma og viðhorfin breyst. En það er alveg ljóst að forstöðumaður Fangelsismálastofnunar Íslands fer ekki í fjölmiðla með setningar eins og þessar og ritar ekki bréf til hæstv. heilbrigðisráðherra án þess að fyrir liggi ríkar ástæður. Á meðan enn bólar ekkert á nýju fangelsi þar sem gæti risið meðferðardeild, á meðan enn bólar ekki á því að settar séu fjárveitingar í uppbyggingu á legudeild fyrir geðsjúka, sakhæfa einstaklinga, þá mun þetta ástand vera viðvarandi. Þá munu geðsjúkir einstaklingar áfram verða vistaðir í kvennafangelsinu í Kópavogi þar sem ekki er heldur nokkur aðstaða til að sinna þeim. Það hefur samt verið gert.

Nýlegt dæmi er um að eina úrræðið með mjög veika konu sem þar dvaldi var að senda hana til vistunar í fangelsið á Litla-Hrauni. Kannski er það framtíðin, að hægt sé að bæta aðstöðuna þar þannig að hægt sé að hafa bæði kynin á Litla-Hrauni og jafnframt skapa aðstöðu til þess að þau geti stundað vinnu, nám og fengið viðunandi heilbrigðisþjónustu. En sú aðstaða er ekki fyrir hendi í dag þannig að þar er um neyðarúrræði að ræða sem gerðar hafa verið miklar athugasemdir við af skyldfólki hennar.

Hér er stigið stórt skref en aðeins eitt af mörgum sem þarf að taka til að raunverulegar úrbætur í fangelsismálum verði að veruleika. Jafnhliða þessu þarf að tryggja í lögum aðkomu heilbrigðis- og tryggingaráðuneytis og ráðherra að málefnum fanga og tryggja að staðið sé vel að málum. Þótt úrbætur hafi verið einhverjar á undanförnum mánuðum þá eru þær ekki nærri nógu miklar. Þessi staða sem á að koma á við fangelsið á Litla-Hrauni uppfyllir engan veginn þær þarfir sem þar eru til staðar. Eðlilegt væri að starfandi væru a.m.k. 2–3 geðlæknar í fullu starfi sem sinntu fangelsunum á Litla-Hrauni og á Sogni. Það hlýtur að þurfa að berjast fyrir því að bæta þar við enn frekar.

Uppbygging fangelsanna, ný fangelsisbygging, er líka forgangsmál. Ég treysti því að þeir einstaklingar sem hafa unnið jafn vel og raun ber vitni í allsherjarnefnd með þetta frumvarp og núverandi hæstv. dómsmálaráðherra beiti sér fyrir því við undirbúning fjárlaga fyrir næsta ár að farið verði af stað við uppbyggingu fangelsis. Góður lagabókstafur eins og hér er verður ekki að neinu ef aðstaðan til framkvæmdanna er ekki fyrir hendi. Það þýðir ekkert að segja að fangar eigi rétt á vinnu, námi og rétt til að stunda tómstundir meðan á afplánun stendur, að afplánun eigi að vera betrun og eigi að leiða til betrunar fyrst og fremst. Það þýðir ekki að setja slíkt fram í frumvarpi eða samþykkja slík lög ef ekki er aðstaða fyrir hendi til að framfylgja lögunum.