131. löggjafarþing — 121. fundur,  3. maí 2005.

Breyting á ýmsum lögum á orkusviði.

396. mál
[22:42]

Einar Már Sigurðarson (Sf):

Frú forseti. Það má segja að umræðan um breytingar á ýmsum lögum á orkusviði hafi orðið töluvert lengri og viðameiri en flestir gerðu ráð fyrir. En ástæða þess er auðvitað sú að hv. þm. Birkir J. Jónsson, formaður iðnaðarnefndar, hélt ræðu fyrr í dag þar sem farið var víða og skotið í allar áttir. Það er óhjákvæmilegt að mæta þeirri ræðu með viðeigandi hætti. Það kallar á að yfir málið sé farið nokkuð gaumgæfilega. Það er augljóst að hv. þingmaður, þrátt fyrir að vera formaður iðnaðarnefndar, hefur misskilið ýmislegt. Ég hef reyndar þá kenningu að það sem fram kom í ræðu hv. þingmanns hafi lýst því að hv. þingmanni sé ekki jafnrótt varðandi þessi mál og hann lét í skína. Ég skildi mál hans þannig að það væri mikill óróleiki og undirliggjandi óánægja með ýmislegt í framkvæmdinni og það hvernig að þessu öllu saman er staðið, sérstaklega hve hratt þessi mál eru keyrð í gegn og hve illa hefur verið að þeim staðið.

Frú forseti. Ég taldi líklegt að menn hefðu lært ýmislegt af raforkulögunum. Ýmislegt var sagt þegar þau voru keyrð í gegn og talið nauðsynlegt að drífa sig mjög við þá afgreiðslu. Það var gefið í skyn að þau þýddu ekki, þótt þau lög færu í gegn, að orkureikningar landsmanna mundu hækka. Raunin hefur orðið allt önnur og ýmislegt bendir til þess að varanlegar hækkanir séu mun meiri en menn hafa séð að undanförnu. Þetta töldu margir að yrði mönnum lexía þannig að næstu skref yrðu stigin varlega og vandað betur til verka.

Það kom hins vegar fram, m.a. hjá hv. þm. Birki J. Jónssyni, að allar þessar hækkanir væru til skoðunar og menn þyrftu því ekki að hafa af þeim miklar áhyggjur. Ég tel að margir þekki slíkt orðalag, að það þurfi að skoða hluti og ýmislegt hafi komið á óvart en síðan er auðvitað reynt að gleyma öllu saman.

Í ræðu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar kom m.a. fram að þeir reikningar sem almenningur hefði fengið að undanförnu gefi til kynna að um verulega hækkun sé að ræða og mun meiri en ýmsir vilja a.m.k. viðurkenna. Einu skýringarnar á því sem borist hafa inn í þingsal eru þær að orkufyrirtækin hafi tekið viðmið af þyngstu mánuðunum og framreiknað þá. Það er eiginlega með ólíkindum að árið 2005 skuli mönnum boðið upp á slíkar skýringar. Það hlýtur að vera einfalt mál að miða við annað en þyngstu mánuði ársins. Öll þessi orkufyrirtæki búa yfir þeirri þekkingu að það ætti ekki að vera mikill vandi að breyta þeim áætlununum miðað við það hvernig árið kemur út í heild sinni. Það má framreikna slíkar niðurstöður á marga vegu ef áhugi er til staðar og í raun er með ólíkindum að menn hafi ekki beitt sér fyrir því. Þess í stað nota menn orðalagið á borð við að þetta sé til skoðunar og almenningur eigi að bíða í rólegheitum eftir því hvernig hlutirnir koma út.

Það var fleira sem hv. þingmaður kom inn á í ræðu sinni. Til að byrja með voru helstu röksemdir fyrir því að keyra þyrfti í gegn það frumvarp sem er tengt því sem við erum hér að ræða, þ.e. breytingar á ýmsum lögum á orkusviði sem tengjast beint frumvarpinu um skattskyldu orkufyrirtækja. Meginskýringin sem formaður iðnaðarnefndar gaf á því var að það væru einkafyrirtæki í samkeppni við hin stóru orkufyrirtæki og það væru sérstaklega hinir litlu raforkubændur sem þyrfti að hugsa um í þessu samhengi. Þessu var svarað strax í andsvörum og hv. þingmaður hljóp þá í aðra vörn og var kominn svo langt í vörninni að þessi skattheimta væri nauðsynlegt til þess að verja velferðarkerfið og fullyrti í andsvari við, ef ég man rétt hv. þm. Ögmund Jónasson, að þeir hv. þingmenn báðir tilheyrðu flokkum sem vildu verja velferðarkerfið og þess vegna skildi hv. þingmaður ekki að hv. þm. Ögmundur Jónasson skyldi ekki einnig vera talsmaður þess að umrædd skattheimta á orkufyrirtækin næði fram að ganga, vegna þess að það væri nauðsynlegt til að verja velferðarkerfið. Þetta er eiginlega sú lengsta þrautarganga í vörn fyrir þessum málum sem ég hef heyrt og dæmir sig að sjálfsögðu sjálf.

Hvað með þá fyrstu skýringu að hér væri verið að verja samkeppni í orkuframleiðslu? Það væri þá lágmark að eingöngu væri verið að horfa til raforkuframleiðslunnar sem vissulega er í einstaka tilfellum rekin í samkeppni og einstaka einkafyrirtæki hafa verið að framleiða, en það er ekki látið staðar numið þar heldur er m.a. einnig verið að leggja skatta á framleiðslu á heitu vatni, þannig að hitaveiturnar eru ekki undanskildar. Varla eru þar miklir einkaaðilar eða smábændur að kljást við hin stóru fyrirtæki. Hér er því beintenging við hinn almenna borgara sem mun auðvitað að lokum borga reikninginn. Það hefur komið fram í umsögnum fjölda aðila að þetta mun að sjálfsögðu ekki þýða neitt annað en hærri raforkureikninga og ekki bara það, heldur mun þetta líka skerða verulega tekjur fjölmargra sveitarfélaga, þ.e. þeirra sveitarfélaga sem hafa verið að reka þessi orkufyrirtæki. Þau hafa flest hver getað borgað arð til eigenda sinna, þ.e. sveitarfélaganna, sem þar með hafa getað fært arðgreiðslur til samfélagsþjónustunnar sem þau hafa boðið upp á og þar af leiðandi getað staðið sig mun betur í þjónustunni við íbúa í sveitarfélögunum.

Það er ekki aðeins að þær arðgreiðslur munu minnka og þar af leiðandi minnka tekjur sveitarfélaganna og veikja þau þar með. Þrátt fyrir að nú sé í gangi átak sem kallast efling sveitarstjórnarstigsins er samt sem áður farið svona bakdyramegin gagnvart sveitarfélögunum og tekjur þeirra hreinlega minnkaðar en ekki bara það, heldur liggur það ljóst fyrir að þegar orkureikningarnir hækka enn meir en þeir hafa þó gert nú þegar vegna þeirra laga sem væntanlega verða keyrð hér í gegn í vor, þá er augljóst mál að það takmarkar líka aðra tekjumöguleika sveitarfélaganna, vegna þess að allir eru þessir peningar sóttir í sömu vasana, þ.e. í vasa almennings. Það er eiginlega alveg með ólíkindum að þetta mál, í ljósi þess sem ég sagði áðan m.a. um raforkulögin, skuli vera svo illa undirbúið og illa unnið eins og kemur í ljós. Meðal annars hafa engar rannsóknir eða kannanir verið á því gerðar hvernig þetta muni koma út varðandi gjaldskrár orkufyrirtækjanna. Það er allt eins í málinu, undirbúningur allur í skötulíki og enginn vilji virðist vera til þess að standa almennilega að málinu.

Ekki nóg með að þessi skattur komi á almenning og ýmsir segja: Ja, það eru nú fleiri kaupendur orkunnar en almenningur. — Mikið rétt. Stærstu kaupendurnir eru stóriðjan, en stóriðjusamningarnir eru gerðir til langs tíma og eru ekki gerðir með neinum fyrirvara um slíka skattheimtu. Orkufyrirtækin eiga því enga möguleika á að leggja álag á þá taxta vegna skattheimtunnar. Þetta mun þar af leiðandi eingöngu leggjast á almenning. Eins og sumir umsagnaraðilar hafa bent á er þetta býsna harkalegt gagnvart þessum fyrirtækjum vegna þess að ýmsir samningar sem gerðir hafa verið hjá orkufyrirtækjunum hafa beinlínis verið gerðir með sérstakri hvatningu stjórnvalda. Stjórnvöld hafa aldrei á það minnst að von sé á því að fyrirtækin þurfi að borga skatta, þess vegna væri auðvitað eðlilegt að hafa slíkan fyrirvara í samningunum. En það er ekki til staðar. Undirbúningurinn að þessu leytinu til er því einnig afar undarlegur.

Hv. þm. Birkir J. Jónsson kom líka með það að menn þyrftu nú ekki að vera að hafa miklar áhyggjur af þessu, því það hefði komið fram hjá öllum stærstu orkufyrirtækjunum að næstu sjö til tíu árin mundu þau ekki greiða þessa skatta vegna þess að rekstrarlegt tap yrði þann tíma vegna stórframkvæmda og annars þess háttar. (Gripið fram í.) Það er auðvitað sérkennilegt að hv. þm. Birkir Jón Jónsson skuli nota þetta m.a. sem skýringu og ástæðu fyrir því að keyra málið hér í gegn vegna þess að ef þetta er ekki að skila af sér neinu næstu sjö til tíu árin hlýtur maður enn frekar að spyrja: Hvað liggur þá svona á ? Hvaða æðibunugangur er þetta? (LB: Það er ekki nokkur leið að fá svör við þessu nema ...) Það er rétt, hv. þingmaður, það er eiginlega óhjákvæmilegt að spyrja hæstv. forseta hvort a.m.k. framsögumaður nefndarinnar sé ekki hér í húsi. Það er eiginlega alveg lágmarkskrafa að framsögumaður sé til staðar, sem er nú reyndar einhver vara-varaframsögumaður, því ég sé það á nefndarálitinu að formaður nefndarinnar var ekki á fundi nefndarinnar og ef ég man rétt var hann staddur erlendis í opinberum erindagjörðum, það er ekkert við því að segja, en varaformaður nefndarinnar, hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson, keyrði þetta mál í gegn í nefndinni og er síðan skráður sem framsögumaður, en ég veit ekki betur en hann sé fjarri þingi og ef ég man rétt mælti hv. þm. Kjartan Ólafsson fyrir málinu, þ.e. vara-varaframsögumaður í nefndinni og sýnir hvernig ástandið er orðið hjá stjórnarliðum, að það eru mörg varadekkin sem þarf til þess að hér sé hægt að mæla fyrir málum.

Frú forseti. Er hægt að fá upplýsingar um hvort framsögumaður nefndarinnar er einhvers staðar í kallfæri? (LB: En iðnaðar- og viðskiptaráðherra.) Góðar fyrirspurnir koma héðan úr þingsal ...

(Forseti (JBjart): Forseti hefur þegar óskað eftir því að framsögumaður málsins, hv. þm. Kjartan Ólafsson, komi í þingsal.)

Eru þá góðar líkur á því að hv. þingmaður sé það nálægur að búast megi við honum á næstu mínútum?

Rétt er að upplýsa hv. þm. Lúðvík Bergvinsson, sem kallaði hér fram í, um það að ræðumaður sem var næstur á undan mér, hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, óskaði einmitt sérstaklega eftir því að kannað væri með hæstv. iðnaðarráðherra og hæstv. fjármálaráðherra, hvort það væri ekki tryggt þegar málið um skattskyldu orkufyrirtækja, sem er á dagskrá, kæmi á dagskrá, þá yrðu hæstv. ráðherrar örugglega mættir, því hv. þingmaður rifjaði það upp að 2. umr. um málið hefði farið fram án þess að hæstv. iðnaðarráðherra væri viðstaddur. Ég tel því víst að frú forseti tryggi það að þegar það mál kemur fyrir verði hæstv. ráðherrar hér.

Frú forseti. Ég fagna því að hv. þm. Kjartan Ólafsson, sem er í forsvari fyrir nefndina í þessu máli, er nú kominn í salinn. Eins og komið hefur fram í máli mínu hefur þetta mál farið töluvert víðar í umræðunni en gert var kannski ráð fyrir í upphafi, ekki vegna þess að hv. þingmaður hafi í framsöguræðu sinni út af fyrir sig kallað á það, heldur gerðist það hins vegar skömmu síðar í umræðunni að hv. þm. Birkir J. Jónsson, formaður iðnaðarnefndar, sem eins og ég sagði áðan gat ekki verið á þeim fundi nefndarinnar þegar nefndarálitið var afgreitt, fór hér mikinn og kallaði á það að málið yrði rætt nokkuð gaumgæfilega og ýmislegt upplýst í því sem ég hugsa að flestir hv. þingmenn hafi talið að margir vissu en kom síðar í ljós að formaður nefndarinnar hafði eitthvað misskilið.

Ég var þar staddur í ræðu minni þegar ábending kom til mín utan úr sal um að eðlilegt væri að einhver sem hugsanlega gæti svarað spurningum væri viðstaddur. Ég þarf því að endurtaka spurningu mína sem var afskaplega einföld og var um það hvað lægi á í þessu máli öllu saman. Það hafði nefnilega komið fram m.a. í ræðu hv. þm. Birkis J. Jónssonar, formanns iðnaðarnefndar, að samkvæmt upplýsingum sem komu fram á sameiginlegum fundi með iðnaðarnefnd og efnahags- og viðskiptanefnd, þá töldu stærstu orkufyrirtækin að þau mundu ekki fara að greiða þessa skatta fyrr en í fyrsta lagi eftir sjö til tíu ár, þ.e. miðað við stöðu þeirra í dag, burt séð frá þeim framkvæmdum sem hugsanlega verða síðan ákveðnar á þeim árum, en bara miðað við það sem búið væri að ákveða í dag væri framkvæmdastaðan þannig að væntanlega yrði halli á þessum fyrirtækjum þennan tíma og þau mundu þar af leiðandi ekki greiða þennan skatt fyrr en í fyrsta lagi eftir sjö til tíu ár. Þess vegna er eðlilegt að maður spyrji ef þetta er nú ein af vörnunum í málinu: Hvað liggur þá á? Hver er ástæðan fyrir því að ekki er hægt að vinna frumvörp almennilega, í fyrsta lagi ekki af ráðuneyti og í öðru lagi ekki af þingnefndum? Æðibunugangurinn er slíkur að t.d. liggur það fyrir að engin vinna hefur verið lögð í að kanna hvaða þýðingu þetta frumvarp eða þessi lög ef þau verða samþykkt hafa á t.d. gjaldskrár orkufyrirtækja. Ekkert slíkt liggur fyrir. Menn verða því að geta sér til um hvernig þetta verður.

Orkufyrirtækin hafa svarað því afskaplega skýrt: Þetta þýðir ekkert annað en hærri reikninga til fólksins. Það er eina leiðin fyrir fyrirtækin til að borga þennan skatt, það er að hækka gjöldin á neytendur, þ.e. almenning, ekki alla neytendur, ekki alla sem fá orku frá fyrirtækjunum. Nei, vegna þess að fyrir liggja samningar við stærstu kaupendur til mjög langs tíma, þar sem enginn fyrirvari er á því að hækka megi þá samninga vegna skattheimtu. Þetta er ekki haft í samningunum vegna þess m.a. eins og komið hefur fram frá fyrirtækjunum, að þeir samningar hafa flestir verið gerðir vegna hvatningar frá stjórnvöldum. Stjórnvöld hafa aldrei á það bent að líkur séu á því að á þessu tímabili muni síðan verða komið aftan að fyrirtækjunum og skattheimtan aukin. Þetta mun því að sjálfsögðu leggjast af fullum þunga á hinn almenna notanda. Það er önnur hliðin í þessu.

Einnig er ástæða til að hv. þm. Kjartan Ólafsson, framsögumaður iðnaðarnefndar, svari því hvernig þetta kemur heim og saman við það metnaðarfulla átak hæstv. félagsmálaráðherra um að efla sveitarstjórnarstigið, þegar einnig er komið aftan að sveitarfélögunum og arðgreiðslur sem þau hafa fengið, þ.e. tekjur sem þau hafa fengið af orkufyrirtækjum sínum, munu augljóslega minnka. Tekjur sveitarfélaganna minnka þar með og um leið minnka möguleikar þeirra á því að sækja meiri tekjur til hins almenna notanda vegna þess að orkureikningarnir verða hækkaðir.

Frú forseti. Fram kemur í ágætu nefndaráliti frá 2. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar að það sé sérkennileg tilviljun að þegar þessi skattur er reiknaður út frá þeim tölum sem til eru um útkomu nokkurra veitufyrirtækja sveitarfélaga árin 2002 og 2003 og 18% skatturinn reiknaður á það, þá virðist hann gefa rúmlega milljarð eða tæplega 1,1 milljarð.

Það vill svo til, eins og segir í þessu ágæta nefndaráliti, með leyfi forseta:

„Í ljósi nýgerðs samkomulag ríkis og sveitarfélaga um aukin framlög ríkisins til sveitarfélaga sem nemur rúmum milljarði króna á ári árin 2006–2008 er ljóst að þessi breyting hefði veruleg áhrif á fjármál sveitarfélaganna.“

Hér er því um sambærilega tölu að ræða. Þegar nýbúið er að gera samning við sveitarfélögin um að bæta örlítið fjárhagsstöðu þeirra vegna þess að það er sameiginlegt mat ríkisvaldsins og sveitarfélaganna að það þurfi að gera vegna erfiðrar stöðu sveitarfélaganna er bara mætt næsta dag með eitt lítið frumvarp sem kippir öllu til baka jafnharðan. Það er ekki skrýtið þó það sé ekki mikið traust á milli sveitarfélaganna og ríkisvaldsins, enda hefur það komið fram í máli og umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga að þau telji breytingarnar fela í sér meiri háttar breytingar á fjármálalegum samskiptum ríkis og sveitarfélaga. Reyndar fór sambandið fram á sérstakar formlegar viðræður um málið við fulltrúa ríkisins. En svo mikið liggur á að það er ekki einu sinni tími til þess að ræða við fulltrúa sveitarfélaganna um breytingarnar. Sveitarfélögunum er því enn einu sinni gefið langt nef. Þau eru ekki virt viðlits. Nei, það er gerður samningur einn daginn og sama upphæð svo tekin til baka örfáum dögum síðar með einu litlu frumvarpi sem á að keyra í gegn á miklum hraða. Það virðist því algjörlega ljóst að því miður er málið ekki tilbúið til afgreiðslu. Það er vonandi að stjórnarmeirihlutinn átti sig á því áður en þingi lýkur í vor og fresti málinu, þó ekki væri nema fram á haust þannig að tími gæfist til að fara yfir málið, átta sig á því hvað það þýðir, ég tala ekki um að sveitarfélögunum væri sýnd sú virðing m.a. í ljósi þess að það er í gangi hið merka átak um eflingu sveitarstjórnarstigsins og nýbúið að ganga frá fjármálalegum samningi um fjármálaleg samskipti ríkis og sveitarfélaga. Þó sumarið væri ekki nýtt til nema þeirra þátta væri það töluvert skref.

Frú forseti. Það er rétt að minna á það af því ég nefndi það áðan að flestir væntu þess að raforkulögin væru örlítið víti til að varast, þ.e. að menn mundu læra af því hvernig ætti að umgangast þennan markað sem er býsna stór og viðkvæmur og að menn mundu vanda sig miklu meira. Ég tala ekki um í ljósi reynslu ýmissa annarra þjóða, að það tekur nokkurn tíma fyrir raforkumarkaðinn að ná jafnvægi að nýju eftir slíkar breytingar sem gerðar hafa verið og við erum nú að ganga í gegnum. Það er því hægt að sækja reynslu til annarra þjóða. Þess vegna hlýtur það að blasa við að það er óráðlegt að ráðast í aðrar umfangsmiklar breytingar á sama umhverfi orkufyrirtækjanna án þess að öll áhrifin séu komin í ljós og hægt sé að mæta þeim, en ekki sé verið að flækja ástandið með enn fleiri breytingum á meðan þetta gengur yfir og markaðurinn á engan hátt búinn að ná jafnvægi.

Ég sagði áðan að breytingarnar mundu væntanlega hafa þær afleiðingar að allar hitaveitur yrðu skattskyldar, svo og vatnsveitur sem reknar eru á vegum fyrirtækis með sameiginlegan annan rekstur rafveitna, hitaveitna og vatnsveitna, svo sem Hitaveita Suðurnesja og Norðurorka. Þau fyrirtæki lenda í þessu og ljóst hvaða afleiðingar það hefur.

Þess vegna endurtek ég að það er algjörlega með ólíkindum að ekki skuli hafa verið lögð vinna í að kanna hvaða áhrif breytingin hefur á gjaldskrár fyrirtækjanna. Eins og ég sagði einnig áðan hafa orkufyrirtækin bent á þá einföldu staðreynd að þetta hefur hrein og klár áhrif í þá átt að gjaldskráin mun hækka og eingöngu hjá hinum almenna borgara.

Frú forseti. Það er nauðsynlegt að fara einnig yfir nokkrar umsagnir sem bárust í tengslum við frumvarp til laga um afnám undanþágu orkufyrirtækja frá greiðslu tekjuskatts og eignarskatts sem liggur til grundvallar því frumvarpi sem við ræðum nú. Fyrsta umsögn sem ég ber niður í er umsögn Alþýðusambands Íslands. Síðan koma hér umsagnir hver af annarri en fyrstu umsagnirnar eru frá Alþýðusambandi Íslands og BSRB, þ.e. frá langstærstu samtökum launafólks, sem eru þar af leiðandi fulltrúar hins almenna borgara, fulltrúar þeirra sem munu þurfa að greiða reikninginn þegar upp er staðið. Ég leyfi mér að vitna orðrétt í umsögn Alþýðusambands Íslands. Þar segir, með leyfi forseta:

„Í kjölfar síðustu breytinga á raforkumarkaði, sem tóku gildi um síðustu áramót þegar flutningur og dreifing á raforku var aðskilin, urðu miklar hækkanir á raforku. Orkufyrirtækin rökstuddu hækkanirnar með auknum kostnaði sem þau hefðu orðið fyrir við kerfisbreytinguna á raforkumarkaði.“

Það er rétt í þessu samhengi, frú forseti, að rifja það upp að þegar raforkulögin fóru í gegn var almennur rökstuðningur stjórnarmeirihlutans að af þeim breytingum mundi enginn sérstakur kostnaður verða og þar af leiðandi væri alger óþarfi að hækka reikninga til almennings, það mundi ekki gerast. Niðurstaðan varð samt sem áður sú sem sýnir auðvitað hversu illa var staðið að málinu og hve undirbúningurinn var lítill. Enn einu sinni er svo farið af stað og undirbúningurinn sambærilegur, jafnslakur og stjórnarliðar vita ekkert hverjar afleiðingar verða.

Frú forseti. Í umsögn Alþýðusambands Íslands segir einnig, með leyfi forseta:

„Reynsla annarra þjóða sýnir að það muni taka raforkumarkaðinn allnokkurn tíma að ná nýju jafnvægi. Því er óráðlegt að ráðast í aðrar umfangsmiklar breytingar á umhverfi orkufyrirtækja án þess að áhrif nýrra raforkulaga verði komin í ljós.“

Hér eru aðvörunarorð afskaplega kurteis, en skýr. Það gengur auðvitað ekki að trekk í trekk skuli sömu stjórnvöld koma með frumvörp sem keyrð eru í gegn með miklum hraða, svo miklum hraða að í fyrsta lagi ná ráðuneytin ekki að undirbúa málin fyllilega áður en þau eru lögð fram og í öðru lagi er nefndum ekki gefinn nægilegur tími til að fara yfir ýmsar hliðar málsins til að átta sig m.a. á því hvaða áhrif þetta hefur á gjaldskrá orkufyrirtækja.

Að lokum segir í umsögn Alþýðusambands Íslands, með leyfi forseta:

„Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að erfitt er að leggja mat á áhrif þessara breytinga á raforkuverð og arðsemi orkufyrirtækja. Alþýðusambandið telur það óásættanlegt að ráðist verði í frekari umbreytingar á orkumarkaði án þess að lagt verði mat á áhrif þeirra fyrir neytendur.

Alþýðusambandið leggur því til að frumvarpið verði ekki samþykkt.“

Stærstu samtök launafólks hafa farið yfir málið og áttað sig á því hverjir þurfa að borga reikningana. Niðurstaðan er því einföld: Það á ekki að samþykkja frumvarpið.

Umsögn BSRB er á margan hátt svipuð. Þar segir, með leyfi forseta:

„Þá er rétt að nefna að orkuveitur eru margar í eigu sveitarfélaga sem hafa af þeim arð. Skattlagning orkugeirans eins og frumvarpið gerir ráð fyrir mun veita fjármuni í ríkissjóð.“

Fjármunirnir fara því frá sveitarfélögunum í ríkissjóð. Í kjölfar þess að gerður er samningur við sveitarfélögin um að bæta örlítið fjárhagslega stöðu þeirra eru fjármunirnir teknir til baka á öðrum vettvangi, eins og ég hef áður bent á.

Áfram segir í umsögn BSRB, með leyfi forseta:

„Afleiðingarnar munu verða þær að möguleikar sveitarfélaganna til að beina fjármagni úr orkustofnunum sínum inn í aðra samneyslu á vegum sveitarfélagsins verða minni fyrir vikið.“

Þetta er auðvitað skýrt. Þetta er einfalt. Auðvitað hljóta þeir sem frumvarpið sömdu og þeir sem vilja keyra það í gegn að átta sig á því að þær afleiðingar blasa við, þó svo að vinna sé ekki lögð í að reikna út hversu mikið þetta er, eins og eðlilegt hefði verið, blasir þessi staðreynd auðvitað við.

Þess vegna segir í lok umsagnar BSRB, með leyfi forseta:

„Í samræmi við þetta leggst BSRB gegn samþykkt þessa frumvarps.“

Ég hef vitnað til umsagna stærstu samtaka launafólks, stærstu umbjóðenda þeirra, almennings, sem mun greiða reikninginn. Þau komast að þeirri einföldu en skýru niðurstöðu að það eigi ekki að samþykkja frumvarpið um skattskyldu orkufyrirtækja.

Ekki er hægt að segja að þau samtök séu almennt á móti skattheimtu eða á móti því að ríkisvaldið hafi tekjur og að sveitarfélögin hafi tekjur, vegna þess að þessi samtök leggja líka mjög mikla áherslu á að efla og styrkja velferðarkerfið og vita að sjálfsögðu að til þess þarf fjármagn, en telja eðlilegra að aðrar leiðir séu farnar til þess.

Herra forseti. Ég benti á það áðan að rökstuðningur hv. þm. Birkis J. Jónssonar um að sérstaklega væri verið að hugsa um raforkubændur með allri þessari frumvarpssmíð ætti sér enga stoð. Þetta ætti þá sannarlega ekki við í hitaveitunum ef við gæfum okkur að þetta væri rétt hjá hv. þingmanni og að við værum ekki að kljást við raforkuna. Það hefði því átt að undanskilja þær. En það er ekki aldeilis verið að því. Þetta kemur auðvitað mjög skýrt fram í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga, sem eru rekstraraðilar hitaveitnanna og hafa eðlilega verulegar áhyggjur af því hvernig málið er að þróast, en því miður — fulltrúar sveitarfélaganna voru ekki virtir viðlits, það var ekkert við þá talað þrátt fyrir að þeir hafi farið fram á að við þá væri rætt til að yfirfara stöðuna í hinum fjárhagslegu samskiptum ríkis og sveitarfélaga því það var ekki svo lítið sem sumir hæstv. ráðherrar hreyktu sér af í þingsal að nú væri enn einu sinni búið að mæta sveitarfélögunum og nú væri framtíðin björt og glæsileg hjá þeim í fjárhagslegu tilliti. (Gripið fram í.) Já. Nei, það er einfalt, það er bara komið með frumvarp skömmu síðar og öllu kippt til baka. Þegar sveitarfélögin vekja athygli á því er enginn tími til þess að ræða við þau einu sinni. Nei, nei, það þarf ekkert við þau að ræða, það liggur svo mikið á að klára málið. Það þarf ekki að reikna neitt út. Það þarf ekki að rökstyðja eitt eða neitt. Nei, það skal bara keyrt áfram veginn greiða án þess að taka tillit til eins eða neins. (Gripið fram í: … bíða í sjö ár …) Það var býsna magnað að hv. þingmaður notaði það sem rökstuðning.

Ég vænti þess að hv. þm. Kjartan Ólafsson muni svara því skilmerkilega á eftir hvers vegna það liggur svona mikið á þrátt fyrir að það virðast ekki koma neinar greiðslur í ríkissjóði, að það reyni ekkert á skattheimtuna miðað við upplýsingar hv. þingmanns, formanns iðnaðarnefndar, fyrr en eftir sjö til tíu ár. (Gripið fram í: Forseti getur …) Já, hv. þingmaður, það er aldrei að vita hvaða upplýsingar leynast á forsetastóli, en það er býsna erfitt að ætlast til þess að framsögumaður iðnaðarnefndar þurfi að vísa til þess hv. þingmanns sem gegnir nú virðulegri stöðu hæstv. forseta til að bjarga sér, en ef svo er bendi ég hv. þm. Kjartani Ólafssyni á það að ég mun ekki gera við það neinar athugasemdir þó hv. þingmaður laumist á bak við mig og hvíslist á við hæstv. forseta ef einhverjar upplýsingar eru þar sem ekki eru fyrir hendi hjá hv. þingmanni og framsögumanni iðnaðarnefndar. Ef hv. þingmaður telur sig þurfa að nálgast upplýsingar til að geta svarað þeim örfáu einföldu spurningum sem ég hef spurt er auðvitað rétt að vekja athygli hv. þingmanns á því að væntanlega eru ýmsar upplýsingar til staðar á forsetastóli.

En ég var að ræða um hitaveitur. Í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga er frekari rökstuðningur fyrir því sem ég sagði. Þar segir, með leyfi forseta:

„Undir gildissvið laganna falla því ekki aðeins raforkufyrirtæki heldur einnig hitaveitur.“

Það er algjörlega nauðsynlegt að formaður iðnaðarnefndar átti sig á þessu svo okkur verði ekki boðið upp á að hlusta frekar á rökstuðning eins og þann sem við fengum að heyra fyrr í dag um að fyrst og fremst væri verið að jafna samkeppnisstöðu raforkubænda við hin stóru orkufyrirtæki.

Einnig segir í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga, með leyfi forseta:

„Sambandið leggst hins vegar alfarið gegn þeirri fyrirætlan sem fram kemur í frumvarpinu að hitaveitur verði skattskyldar með sama hætti og raforkufyrirtæki.“

Síðar segir, með leyfi forseta:

„Heitt vatn til húshitunar er almennt það mikið hagkvæmari lausn en aðrir orkugjafar að í reynd verður ekki rætt um samkeppni á þessu sviði.“ — Rökstuðningurinn um að verið sé að jafna samkeppni á því ekki við hér. — „Vegna tiltekinna eðlisþátta, svo sem einkaleyfa og einnig vegna takmarkana sem möguleikar á dreifingu á heitu vatni fela í sér er einnig mjög fjarlægt að hugsa sér samkeppni milli hitaveitna innbyrðis.“ — Það er auðvitað mjög fjarlægt og ógjörningur á flestum svæðum landsins. — „Skattlagning á starfsemi hitaveitna þjónar því engum tilgangi, hvorki samkeppnislegum né öðrum.“

Skattlagningin þjónar engum tilgangi. Þetta er því algjörlega óskiljanlegt og ekki hægt að skilja þetta á neinn annan hátt en að því miður séu vinnubrögðin svo óvönduð að menn hafi ekki skoðað allar hliðar málsins þegar menn bitu það í sig að það þyrfti að drífa þetta í gegn.

Að lokum segir í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga, með leyfi forseta:

„Að lokum vill sambandið vekja athygli Alþingis á því að breyting á skattalegri stöðu hitaveitna, sem ekki verður séð að styðjist við nein efnisleg rök, felur í raun í sér meiri háttar breytingu á fjárhagslegum samskiptum ríkis og sveitarfélaga. Slíkar breytingar þarfnast ítarlegri umræðu við sveitarfélögin en farið hefur fram til þessa.“

Herra forseti. Ef maður á að gera einhverjar athugasemdir við orðalagið, þá er það allt of kurteisislegt. Það er verið að ganga þvert á það samkomulag sem nýlega er búið að gera og sveitarfélögin eru enn einu sinni ekki virt viðlits þegar verið er að hafa veruleg áhrif á fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga.

Það er ánægjulegt að sjá að í dyragættina kemur mikill áhugamaður um samskipti ríkis og sveitarfélaga, sérstaklega í fjárhagslegu tilliti, og sérstakur áhugamaður um eflingu sveitarstjórnarstigsins. (Gripið fram í: Að austan.) Að sjálfsögðu er hv. þingmaður ættaður að austan en búsettur í Vestmannaeyjum og hefur stundum látið í sér heyra um að það sé til skammar hvernig að þessum málum er staðið. Hv. þingmaður gerði ýmsar athugasemdir einmitt við nýjasta samkomulagið sem gert var á milli ríkis og sveitarfélaga, þ.e. sem klínt var faktískt upp á sveitarfélögin því þau höfðu lítið um það að segja, það var bara sagt: Þið fáið þetta eða ekki neitt. Hv. þingmaður ætti að gefa sér tíma á þessum vordögum til að fara nákvæmlega yfir þetta mál og átta sig á því að verið er að gefa sveitarfélögunum kinnhest, stóran og mikinn. Verið er að gera verulega breytingu á fjárhagslegum samskiptum ríkis og sveitarfélaga og verið að taka allt það til baka sem þó var rétt til sveitarfélaganna í síðasta samningi.

Herra forseti. Margar fleiri umsagnir hafa borist vegna málsins. Ég hef farið yfir umsagnir annars vegar hinna fjölmennu samtaka launafólks, fulltrúa neytendanna. Fulltrúar rekstraraðilanna, þ.e. sveitarfélögin sem verða auðvitað fyrir gífurlegri skerðingu hafa gert mjög sterkar og alvarlegar athugasemdir. Ég á eftir einn hóp, orkufyrirtækin. Þau gera einnig gífurlegar athugasemdir. (Gripið fram í: En Verslunarráð?) Það er athyglisvert, hv. þingmenn, að ég er ekki með umsögn frá þeim. (Gripið fram í: Þeir eru fylgjandi málinu.) Ég held að það sé rétt hjá hv. þingmanni að Verslunarráð sé býsna ánægt með þessa skattheimtu, þó að það ágæta ráð virðist almennt vera afskaplega óánægt með skattheimtu er eins og þessi skattheimta sé þeim eitthvað sérstaklega hugleikin. Væntanlega er það byggt á þeim rökum að verið sé að jafna samkeppni, eins og hv. þm. Birkir J. Jónsson hefur haldið fram.

Ég vek athygli á því sem fram kom í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga að það er býsna langsótt og flókið og væri fróðlegt að fá Verslunarráð í lið með hv. þm. Birki J. Jónssyni að færa rök fyrir því að það sé myljandi samkeppni í hitaveitum landsins. Það væri gaman að átta sig á því hvar hún á sér stað. (Gripið fram í: … reknar með einkaleyfum.) Þær eru reknar með einkaleyfum og reknar af sveitarfélögunum þannig að þetta er auðvitað býsna langsótt og sérkennilegt. Ég get því eiginlega ekki afsakað þetta á annan hátt en ég hef áður gert, að flumbruhátturinn sé svo mikill að aðilar hafi ekki haft tíma til að fara almennilega yfir málið og átta sig á stærð þess og hvaða afleiðingar það hefur. Enda hefur það komið fram að það hefur ekki verið farið yfir það hvað þetta þýðir í fjármálalegu tilliti og hvaða álögur er verið að leggja á fólk til að standa undir þessu og hversu miklar tekjur sveitarfélögin eru að missa örlítið fram í tímann. Það er ekki ónýtt fyrir menn þegar þeir eru að gera slíkar breytingar að hugsa kannski örlítið meira en bara um gærdaginn, horfa kannski eitthvað fram í tímann. Þessi ákafi er auðvitað (Gripið fram í.) já, sérkennilegur þegar það liggur fyrir í upplýsingum frá formanni iðnaðarnefndar að ekki sé gert ráð fyrir neinum tekjum fyrr en eftir 7–10 ár.

Herra forseti. Ég ætla að víkja örlítið, stuttlega þó, að umsögnum orkufyrirtækja. Hér eru tvær ágætar umsagnir, annars vegar frá Orkuveitu Reykjavíkur og hins vegar frá Hitaveitu Suðurnesja. Ég hef valið kafla úr þeim þannig að það séu engar endurtekningar heldur sitt hvort sviðið.

Í umsögn Orkuveitu Reykjavíkur segir að þeir hafi komið frá sér athugasemdum þar sem orkuveitan hafi lýst sig andvíga markmiðum frumvarpsins og mun ég geta nokkurra þeirra. Það er rétt að geta þess að einnig hefur borist umsögn frá Reykjavíkurborg þar sem hún lýsir yfir stuðningi við umsögn Orkuveitu Reykjavíkur, þannig að umsögn Orkuveitu Reykjavíkur er í raun einnig umsögn Reykjavíkurborgar. Athugasemdirnar sem orkuveitan gerir þegar hún er að lýsa sig andvíga markmiðum frumvarpsins eru m.a. þessar, með leyfi forseta:

„Skattlagning á orkufyrirtæki mun óhjákvæmilega leiða til hækkunar verðs þar sem í núverandi gjaldskrá gerir ekki ráð fyrir greiðslu tekju- og eignarskatta. Í athugasemdum við frumvarpið kemur ekki fram hvaða áhrif þessi skattlagning hefur á orkufyrirtækin og ekki kemur fram hvaða breytingar verða á gjaldskrám fyrirtækjanna verði frumvarpið að lögum.“

Athugasemdirnar eru, mér liggur við að segja háðulegar, að það þurfi að koma fram í umsögnum að frumvarpinu fylgi í raun engar upplýsingar um það hvaða áhrif það muni hafa, verði það að lögum.

En áfram segir í umsögn Orkuveitu Reykjavíkur, með leyfi forseta:

„Orkuveita Reykjavíkur er með samninga um orkusölu til stóriðju sem gilda í 20 ár. Samningar þessir hafa verið gerðir fyrir hvatningu ríkisins og engir fyrirvarar af þess hálfu um að gera þurfi ráð fyrir skattlagningu til framtíðar. Arðsemisútreikningar sem gerðir hafa verið í góðri trú vegna stórframkvæmda hafa ekki gert ráð fyrir greiðslu þessara skatta. Forsendur gerðra samninga og arðsemi þeirra raskast verulega verði frumvarp þetta að lögum.“

Hér kemur því mjög skýrt fram frá þessu stóra fyrirtæki að samningarnir sem gerðir hafa verið m.a. um stóriðju gilda í 20 ár, samningar gerðir með sérstökum áhuga og hvatningu ríkisins án þess að látið sé í það skína að hugsanlega muni verða lagður skattur á allt saman.

En áfram heldur umsögn Orkuveitu Reykjavíkur, með leyfi forseta:

„Orkuveita Reykjavíkur er í eigu fjögurra sveitarfélaga sem hafa haft af henni arð. Möguleikar Orkuveitunnar til arðgreiðslna til eigenda sinna skerðast verulega ef til skattgreiðslna kemur. Ljóst er að sveitarfélögin eru ekki undir þann tekjumissi búin.“

Enn einu sinni eru færð rök fyrir því sem ég hef verið að segja, að sveitarfélögin eru skilin eftir með tekjumissi og það í kjölfar þess að staðið var í samningagerð í hátt á annað ár á milli ríkisins og sveitarfélaga til að bæta örlítið fjárhagslega stöðu sveitarfélaganna. Nei, sú litla lagfæring skal tekin til baka í frumvarpi í kjölfarið. Og þegar sveitarfélögin óska eftir viðræðum um að fara yfir málið berst ekki einu sinni svar. Við þau skal ekki rætt.

Þá kemur að síðustu umsögn sem ég ætla að gera að umtalsefni í ræðu minni í kvöld frá Hitaveitu Suðurnesja. Hún fjallar m.a. um fyrningu á tapi og kem ég þá aftur að hinni mögnuðu röksemd formanns iðnaðarnefndar um að orkufyrirtækin stóru hefðu sagt að miðað við stöðuna í dag mundu þau væntanlega ekki borga skattinn fyrr en eftir 7–10 ár.

Hitaveita Suðurnesja fer örlítið ofan í það mál og segir, með leyfi forseta:

„Samkvæmt lögum um tekju- og eignarskatt er heimilt að flytja skattalegt tap á milli rekstrarára, þó með þeirri takmörkun að það fyrnist á 10 árum. Mikil sveifla er í afkomu orkufyrirtækja sem oft á tíðum orsakast af miklum gengissveiflum og háum fjármagnskostnaði við byggingu nýrra orkuvera. Við teljum því mikilvægt að skattalegt tap fyrnist ekki.“

Herra forseti. Hér kemur enn ein athugasemdin. Engin rök voru færð fyrir því, a.m.k. ekki á þeim sameiginlega fundi sem við í iðnaðarnefnd sátum með efnahags- og viðskiptanefnd, af hverju ekki væri tekið tillit til þessara óska. Með þeim skýringum sem hér koma fram virðast vera færð nokkuð sterk rök fyrir því að fyrirtækin geti fært þetta á milli vegna þess að það eru svo miklar sveiflur bæði í rekstri og ýmsum viðmiðunum hjá fyrirtækjunum.

Herra forseti. Í lok umsagnar Hitaveitu Suðurnesja, sem verður síðasta tilvitnun mín í kvöld, segir, með leyfi forseta:

„Nokkuð ljóst er að þau gera ákveðnar arðsemiskröfur til fyrirtækisins.“ — þ.e. sveitarfélögin sem eiga Orkuveitu Suðurnesja — „Til að mæta auknum álögum er líklegt að hækka þurfi orkuverð. Að þessu framansögðu er rétt að benda á að Hitaveita Suðurnesja hf. hefur gert samninga um orkusölu til stóriðju til allt að 20 ára. Þegar þeir samningar voru gerðir var ekki gert ráð fyrir í arðsemisútreikningum að breytingar yrðu á skattalegu umhverfi orkufyrirtækja. Af því leiðir að álögur á aðra notendur munu að líkindum aukast og vill Hitaveita Suðurnesja hf. benda á að með nýjum raforkulögum er nýlega búið að auka álögur verulega sem á aðlögunartíma hafa leitt til um 15% hækkunar raforkuverðs og enn meira þegar fram líða stundir.“

Herra forseti. Hér er enn einu sinni bent á að verið er að auka álögur á almenning með öllum þeim breytingum sem gerðar hafa verið og boðaðar eru. Allt fellur þetta því að því sama, þessir merkilegu stjórnarflokkar sem mynda meiri hluta á Alþingi og guma af því að þeir séu sérstakir skattalækkunarflokkar og hafa boðað það í aðdraganda kosninga, hafa komið reglulega inn í þingsali með frumvörp um ákveðnar breytingar á sköttum og hafa eiginlega aldrei vakið athygli nema á annarri hlið þeirra mála, þ.e. þegar þeir hafa boðað einhverjar lækkanir hafa þeir ætíð fylgt því eftir með hækkunum á víð og dreif. Ekki nóg með það, herra forseti, heldur hefur verið á það bent og ég geri ráð fyrir að ekki verði erfitt að benda á það á þessu ári að enn eru hækkanirnar miklu meiri en lækkanirnar. Þessi hækkun nú mun auðvitað bætast í það mikla safn. Þeir stjórnmálaflokkar sem hér mynda meiri hluta og gera ítrekaðar tilraunir til að koma þeim skilaboðum til almennings að þeir séu sérstakir skattalækkunarflokkar, sem þeir eru að vísu til ákveðinna hópa og hafa staðið sig býsna vel í að lækka skatta á þeim sem hafa það hvað best í samfélaginu, eru óvart skattahækkunarflokkar og það er auðvitað sérstaklega athyglisvert í ljósi margra loforða sem gefin voru fyrir síðustu alþingiskosningar.

Herra forseti. Það hefur nokkrum sinnum verið farið yfir þau mál í þingsal og ég geri ráð fyrir að endurtaka þurfi þau áður en þetta ár er úti. Ég ætla ekki að taka þann kafla í kvöld en verði ástæða til þess er auðvitað hægt að gera það í þessari umræðu því að enn á ég eftir aðra ræðu og enn eigum við eftir að ræða frumvarp til laga um skattskyldu orkufyrirtækja. Það gefst því væntanlega tækifæri til að fara betur yfir málið, verði ástæða til þess.

Ég vona, herra forseti, og það verða lokaorð mín, að sú umræða sem átt hefur sér stað eftir að hv. þingmaður, formaður iðnaðarnefndar, mælti hér fyrr í dag verði þó til þess að a.m.k. sá hv. þingmaður hafi fengið töluvert af upplýsingum í umræðunni þannig að væntanlega verða röksemdir hans öðruvísi en þær voru í dag.