131. löggjafarþing — 121. fundur,  3. maí 2005.

Breyting á ýmsum lögum á orkusviði.

396. mál
[23:35]

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég er ekki hissa á því að hv. þingmanni sé nokkuð órótt. Það er auðvitað eðlilegt. Hv. þingmaður hefur farið mikinn, m.a. gefið til kynna að þau mistök sem gerð voru með raforkulögunum og allar þær hækkanir sem fylgdu þeim, sérstaklega í kringum heimabyggð hans á Vestfjörðum, verði auðvitað ekki liðin og þetta muni allt saman verða lagfært, en það bólar nú ekkert á því.

Ég er hér með merka úrklippu úr viðtali við hv. þingmann þar sem þetta kemur allt mjög glögglega fram. Hann gefur auðvitað til kynna að þetta verði ekki liðið og þessu verði öllu breytt. Viðtalið er frá 25. janúar árið 2005. Það er komið fram í maímánuð og ekkert bólar á einu eða neinu. Það er því afskaplega skiljanlegt að hv. þingmaður vilji dreifa þessu máli í allt aðrar áttir og að menn fjalli ekki um það sem meginmáli skiptir.

Það er rétt hjá hv. þingmanni að við hv. þingmenn, ég og Jóhann Ársælsson, skrifum undir frumvarpið sem hér er til umræðu með fyrirvara. Hv. þm. Jóhann Ársælsson gerði ágætlega grein fyrir því fyrr í dag. Ég gerði hins vegar grein fyrir því í byrjun ræðu minnar af hverju nauðsynlegt væri að fara örlítið víðar en eingöngu um þetta frumvarp. Fyrirvari okkar var auðvitað sá að ef svo ólíklega vildi til að frumvarpið um lög um skattheimtu orkufyrirtækja færi í gegn — við treystum því hins vegar að ýmsir galvaskir hv. þingmenn af landsbyggðinni sem vakið hafa sérstaka athygli á því hve illa hefur farið á ýmsum sviðum mundu kannski reyna að koma í veg fyrir það — en ef svo ólíklega vill til verður auðvitað að samþykkja hitt frumvarpið, þannig að fyrirvari okkar var afskaplega einfaldur. Hv. þingmaður, formaður iðnaðarnefndar, gaf ástæðu til þess að við færum svolítið víðar yfir þetta mál og gerð var fyllilega grein fyrir því í inngangi ræðu minnar hvernig á því stæði að menn þyrftu að taka þetta svið allt saman fyrir. (Forseti hringir.) En óróleiki hv. þingmanns er mér ekkert undrunarefni.