132. löggjafarþing — 121. fundur,  2. júní 2006.

Veiðimálastofnun.

612. mál
[23:59]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Við 1. umr. lýsti ég miklum efasemdum mínum um þetta frumvarp. Ég er ekki hrifinn af því að stofnunum eins og Veiðimálastofnun, sem er rannsóknastofnun og eftirlitsstofnun í eigu ríkisins, sé í reynd skapaður ákveðinn sess á samkeppnismarkaði. Ég hef barist fyrir því ásamt ýmsum þingmönnum í ýmsum flokkum, ekki síst Sjálfstæðisflokknum þar sem ég hef átt skoðanasystkin í þessum efnum, að reynt yrði að hrinda í framkvæmd breytingum sem gerðu mögulegt fyrir sjálfstætt starfandi fræðimenn að taka að sér verkefni á opnum markaði.

Það er a.m.k. algjört lágmark að samkeppni sé ekki niðurgreidd með ríkisfé. Það á hins vegar að gera með þessu frumvarpi. Að vísu er stigið svolítið skref í áttina að því að draga úr þessu með breytingartillögu nefndarinnar þar sem lagt er til að 4. mgr. 5. gr., um stjórnskipulag Veiðimálastofnunar, sé felld brott. Sú heimild átti að gefa Veiðimálastofnun möguleika á að eiga aðild að því að stofna fyrirtæki sem stæði væntanlega í samkeppni við önnur fyrirtæki sem sjálfstætt starfandi vísindamenn hefðu komið á legg. Ég hef verið þeirrar skoðunar að ríkið ætti frekar að reyna að koma verkefnum af þessu tagi út á markað til að ýta undir möguleika ungra vísindamanna sem koma heim frá námi til að taka að sér svona verkefni.

Mér finnst undarlegt að Sjálfstæðisflokkurinn skuli gera að sérstöku verkefni sínu að koma í gegn lögum sem Framsóknarflokkurinn er eðlilega ákaflega hrifinn af og hefur alltaf verið. Ég hélt að það væri aðall Sjálfstæðisflokksins að taka undir með þeim sem vilja reyna að þróa umhverfi sem gerir ungu vísindafólki kleift að taka að sér þjónustu, ekki síst á vegum hins opinbera, til að stuðla að umhverfi fyrir smáfyrirtæki á vísindasviðinu. Það er framtíðin og það sem við höfum oft talað um.

En mér þykir heldur skörin færast upp í bekkinn þegar það kemur beinlínis fram í næstu grein, sem hv. formaður nefndarinnar hefur ekki lesið í samhengi við þá málsgrein sem hún er að fella úr 5. gr., að þar er Veiðimálastofnun beinlínis veitt lögbundin heimild til að starfa í samkeppni við slík fyrirtæki með því að taka að sér rannsóknir, ekki bara fyrir hið opinbera heldur og fyrir einstaklinga og félög. Hvers vegna á opinber stofnun að standa í slíkri samkeppni við fyrirtæki á markaði sem eru að verða til? Hvers vegna á opinber stofnun að hafa lögbundinn rétt til að kæfa í fæðingu vísi að nýjum fyrirtækjum á þessu sviði?

Þetta voru spurningar sem ég bar fram við 1. umr. og fékk lítil svör. Ég er ekki ánægður með þetta. Ég er á móti þessu og tel þetta algjörlega í andstöðu við margvísleg ákvæði í lögum sem eiga að ýta undir samkeppni og möguleika til samkeppni og ryðja burt samkeppnishindrunum. Það kemur að vísu fram í þessu frumvarpi að reisa eigi brunaveggi á milli þess sem kalla má samkeppnisrekstur og þess sem fellur beinlínis undir stofnanareksturinn sjálfan. Slíkir brunaveggir halda aldrei.

Ég er á móti þessu og gæti haldið ákaflega langa og ástríðuþrungna ræðu um það. Þetta er mér hjartans mál. Ég er þessarar skoðunar varðandi Veiðimálastofnun, varðandi Hafrannsóknastofnun og ýmsar fleiri stofnanir. Það er ástæðan fyrir því að ég styð frumvarpið um matvælastofnun ríkisins, Matvælarannsóknir hf. Ég tel að þetta sé einmitt verkefni sem hægt er að skilgreina með þeim hætti að í lagi sé að flytja það yfir á markaðinn, andstætt ýmsum vondum frumvörpum sem við höfum góðu heilli borið gæfu til að sameinast um, ég og hv. formaður landbúnaðarnefndarinnar, að hrinda fyrir ætternisstapa, t.d. frumvarpinu illræmda um háeffun RÚV. Þar erum við algjörlega sammála, (Gripið fram í.) þ.e. við töldum fráleitt að nýta þetta þing til að samþykkja slíka vitleysu. Það er auðvitað hróss vert.

En þetta frumvarp er þannig, þótt ýmsir af ágætum þingmönnum mínum hafi aðra skoðun á þessu og hafi samþykkt þetta, að ég er á móti því. Ég ætla ekki að samþykkja þetta af þeim ástæðum sem ég hef reynt að færa nokkur rök fyrir. En ég vil ekki gera hæstv. forseta gramt í geði með því að halda langa ræðu um þetta og sýni minn einlæga samkomulagsvilja almennt til að greiða fyrir þingstörfum með því að halda ekki lengri ræðu um þetta.