132. löggjafarþing — 121. fundur,  3. júní 2006.

atvinnuleysistryggingar.

742. mál
[00:43]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þau tvö frumvörp sem hér eru til umfjöllunar, annars vegar frumvarp um atvinnuleysisbætur og hins vegar frumvarp um vinnumarkaðsaðgerðir sem hafa verið í meðferð félagsmálanefndar nú um skeið. Ég vil byrja á því að þakka formanni nefndarinnar, hv. þm. Dagnýju Jónsdóttur, sem stýrt hefur starfi nefndarinnar afbragðsvel. Gerðar hafa verið breytingar á frumvarpinu frá því að það kom fyrst fram sem eru mjög til bóta. Eins og fram kom í máli hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur eru það ekki síst þær breytingar sem voru gerðar á lífeyrisréttindum fólks sem er á atvinnuleysisbótum.

Atvinnulaus einstaklingur hefur um það bil 93 þús. kr. á mánuði hverjum. Það eru litlir peningar. Það er mikill skellur fyrir fólk að fara úr launuðu starfi á atvinnuleysisbætur og það segir sig sjálft að því hærri sem launin eru þeim mun verri og harðari verður skellurinn. Þess vegna er stigið út á þá braut með þessum lagabreytingum að tekjutengja atvinnuleysisbætur. Þær hafa til þessa verið ótekjutengdar þannig að allir hafa setið við sama borð. Sannast sagna hefur það verið umdeilt innan verkalýðshreyfingarinnar hvort stíga eigi skref í þessa átt. Annars vegar hefur verið það sjónarmið að þegar allt komi til alls sé eðlilegt að allir sitji við sama borð og hafi sömu kjör og sömu réttindi úr opinberum sjóðum. Síðan er á hitt að líta, sem ég gat um, að einstaklingur sem verður fyrir mjög miklu tekjutapi á í mörgum tilvikum erfiðara um vik að fóta sig vegna skuldbindinga, lána og annars. Það sjónarmið varð því ofan á, bæði hjá Alþýðusambandi Íslands og hjá BSRB, að styðja þessa kerfisbreytingu. Tekjutengingunni er þannig háttað að greiðslur geta numið 70% af heildarlaunum einstaklingsins en þó ekki farið yfir tiltekið mark, 180 þús. kr. Þetta getur varað um þriggja mánaða tímabil. Síðan fer einstaklingurinn niður á grunnatvinnuleysisbæturnar. Þetta er skref í rétta átt og ég tel þetta til góðs og til þess fallið að draga úr þeim mikla skell sem ég gat um.

Ég ætla ekki að fara nánar í að rekja efni frumvarpsins eða þær breytingar sem gerðar hafa verið á því. Það er að finna í þessum lagabreytingum ýmsar breytingar á stjórnsýslunni. Úthlutunarnefndir eru þannig lagðar niður og sú starfsemi er færð undir Vinnumálastofnun. Það er atriði sem hefur verið nokkuð umdeilt á vettvangi verkalýðshreyfingarinnar. Ég skil þau sjónarmið sem hafa verið uppi hjá ýmsum verkalýðsfélögum sem hafa lagt áherslu á tengsl félagsins við atvinnulausa einstaklinga, og það er sjónarmið sem ber að virða. Á hitt er að líta að reyndin er að verða sú að greiðsla atvinnuleysisbóta er meira og minna orðin rafræn. Fólk sækir sína peninga með þeim hætti en fer ekki á viðkomandi skrifstofur þannig að umhverfið er að breytast að þessu leyti.

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að fara fleiri orðum um þetta mál en lýsa stuðningi við frumvarpið í heild sinni. Ég tel það skref í framfaraátt og þær breytingartillögur sem fyrir liggja frá hendi stjórnarandstöðunnar.