135. löggjafarþing — 121. fundur,  10. sept. 2008.

jarðgöng og vegagerð á sunnanverðum Vestfjörðum.

659. mál
[16:06]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Kristinn H. Gunnarsson) (Fl):

Virðulegi forseti. Ég hef leyft mér að flytja hér fyrirspurn um Dýrafjarðargöng og vegagerð á sunnanverðum Vestfjörðum, sem er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Hvenær verður gerð jarðganga milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar boðin út? Verður gerð nýs vegar um Dynjandisheiði boðin út samhliða?“

Ég minni á að á síðasta ári tilkynnti ríkisstjórnin að vegaframkvæmdum fyrir 6,5 milljarða kr. yrði flýtt til þess að mæta samdrætti í þorskveiðum sem þá hafði verið nýlega ákveðin. Meðal þess sem átti að flýta framkvæmdum á voru göng milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar.

Í fréttatilkynningu samgönguráðuneytisins segir um það mál, með leyfi forseta:

„Gert er ráð fyrir að flýta framkvæmdum þannig að göngum megi ljúka árið 2012 í stað 2014 og um leið verði ráðist í vegabætur á Dynjandisheiði. Gert var ráð fyrir 3,8 milljarða fjárveitingu árin 2011 til 2014 samkvæmt tillögu að langtímasamgönguáætlun en gert er hér ráð fyrir að einum milljarði króna verði veitt í verkið árin 2009 og 2010.“

Það er ekki hægt að skilja þessa fréttatilkynningu öðruvísi en að verkið sem talað er um sé annars vegar gerð jarðganganna og hins vegar vegagerðin um Dynjandisheiði sem eigi að fara fram á sama tíma.

Í skýrslu sem mig langar að minnast aðeins á og Rannsóknarstofnun Háskólans á Akureyri gerði og gefin var út í ágúst 2005 er einmitt farið yfir þetta mál og forsendur þess. Niðurstöður rannsóknarstofnunarinnar eru að göngin á milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar skili viðunandi arðsemi og hún ein og sér réttlæti gerð ganganna miðað við gefnar forsendur.

Í öðru lagi leiðir þessi athugun í ljós að arðsemi nýs vegar um heiðina sýni að líklega er arðsamt að gera hann eftir að Dýrafjarðargöng hafi verið opnuð.

Í þriðja lagi er niðurstaðan sú að einn helsti annmarki vegakerfisins á Vestfjörðum sé sá að ekki eru heilsárssamgöngur milli fjölmennustu svæða landshlutans, Ísafjarðarsýslna og Vestur-Barðastrandarsýslu, og þessi göng og vegagerð mundu bæta þar úr.

Loks vil ég geta þess sem einnig kemur fram í niðurstöðunni en það er að gerð þessara framkvæmda mundi ekki aðeins opna nýja leið á milli norður- og suðursvæða Vestfjarða heldur stytta leiðina milli Reykjavíkur (Forseti hringir.) og Ísafjarðar um a.m.k. 50 km frá þeirri leið sem opnast mun á næsta ári.