149. löggjafarþing — 121. fundur,  12. júní 2019.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

637. mál
[11:28]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Tryggingarsjóður innstæðueigenda stendur vel. Hann er margfalt á við það sem nýjar tilskipanir sem við munum sjálfsagt innleiða á komandi misserum gera ráð fyrir og því er eðlilegt að lækka iðgjöld í Tryggingarsjóðinn. Við teljum líka og verðum að hafa í huga að þetta er íþyngjandi fyrir fjármálafyrirtækin. 3–4% af rekstrarkostnaði eru fólgin iðgjöldunum. Fyrir litlu fjármálafyrirtækin, sparisjóðina, eru þetta 7–8% og þess vegna leggur meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar til þrepaskipt iðgjald sem sætir hins vegar gagnrýni og hefur sætt gagnrýni frá hendi stóru viðskiptabankanna eins og þingmenn geta kynnt sér. Þess vegna hef ég óskað eftir því að nefndin fjalli um og gefi þessum aðilum (Forseti hringir.) tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri milli 2. og 3. umr. En ég stend við það að skynsamlegt er að lækka iðgjaldið og það er skynsamlegt að stuðla að aukinni samkeppni með þrepaskiptu iðgjaldi, líkt og meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar leggur til.