149. löggjafarþing — 121. fundur,  12. júní 2019.

beiðni um frestun umræðu.

[13:19]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Forseti. Ég veit ekki hvernig ég á að orða þetta til að vera nógu málefnalegur fyrir minn smekk, en ég held að allir átti sig á því að mögulegir samningar um þinglok núna eru óvenjuerfiðir og flóknir. Í því að það sé erfitt að koma þeim saman er ekki fólginn neinn illvilji. Ég held að allir séu að reyna sitt besta í þeim efnum, í það minnsta er ég að leggja mig fram til að reyna að ná ásættanlegum lokum fyrir virðingu þingsins og okkur öll hér.

Ég veit ekki annað en að mál um fiskeldi hafi verið unnið í mikilli samvinnu milli stjórnar og stjórnarandstöðu, innan nefndar sem utan. Ég veit ekki hve marga fundi ég hef átt um þetta mál, bæði formlega og óformlega, til að upplýsa nákvæmlega hvar málið er statt. Ég hef heldur ekki skynjað annað en að allir vilji að málið í einhverju formi nái í gegn.

Nú er verið að æskja þess að mælt sé fyrir málinu og nýttur tíminn sem er núna. Auðvitað viljum við nýta hverja stund. (Forseti hringir.) Ef við erum klók í bústörfum þá viljum við nýta hverja stund þegar fáar eru til að koma okkur áfram, það sé mælt fyrir málinu (Forseti hringir.) og við hefjum umræðu. Það er enginn að tala um að ljúka henni núna.