149. löggjafarþing — 121. fundur,  12. júní 2019.

fiskeldi.

647. mál
[14:08]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Já, það er rétt, kolefnissporið getur verið minna, sér í lagi ef fiskarnir eru fóðraðir með soja og ýmislegu svoleiðis. Það þarf að vísu að bæta einhverri olíu við en það er framtíðin. Kolefnissporið verður miklu minna af fiskeldi en veiddum fiski, sem er náttúrlega gott.

Varðandi hættur þá eru lög á Íslandi um umhverfisábyrgð. Þar er talað um að markmið laga þessara sé að tryggja eftirfarandi, með leyfi forseta:

„að sá sem ber ábyrgð á umhverfistjóni af völdum atvinnustarfsemi eða yfirvofandi hættu á slíku tjóni komi í veg fyrir tjón eða bæti úr tjóni ef það hefur orðið og beri kostnað af ráðstöfunum sem af því leiðir í samræmi við greiðslureglu umhverfisréttarins.“

Sá sem mengar greiðir.

Sporin hræða hvað þetta varðar. Það er búið að setja inn og hv. þingmaður hefur látið setja inn mikið af alls konar góðum varnöglum. En maður sér — og það er ástæðan fyrir því að ég get ekki verið með á nefndaráliti meiri hlutans — að kostnaðareglu er ekki fylgt að fullu, þ.e. að sá sem mengi borgi.

Við sjáum þetta ítrekað og sporin hræða, samanber að bílaleigur svindla o.s.frv. en nei, við ætlum ekki að taka af þeim starfsleyfið, ætlum ekki að láta þau gjalda fyrir að því marki sem manni myndi finnast sanngjarnt. (Forseti hringir.)

Það sama gildir um umhverfisáhrifin, fiskeldi. Það sleppur fullt af löxum og hvað er gert?

Þetta eru sporin sem hræða. Eftirlitshlutverkinu er ekki fylgt þannig að jafnvel þótt góðir hlutir séu til staðar munu aðilar sem menga ekki greiða.

Hvað segir þingmaðurinn um það?