149. löggjafarþing — 121. fundur,  12. júní 2019.

fiskeldi.

647. mál
[15:50]
Horfa

Frsm. minni hluta atvinnuvn. (Albertína Friðbjörg Elíasdóttir) (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég þakka sömuleiðis hlý orð í minn garð frá hv. framsögumanni meiri hluta, Kolbeini Óttarssyni Proppé. Þetta er frábær spurning, enda kom ég ekki alveg nógu vel inn á það áðan og hefði átt að gera það þannig að ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir tækifærið til að skýra þetta betur.

Ástæða þess að við leggjum til að ráðherra ákveði þessa skiptingu eða auglýsi hana að fenginni tillögu frá Hafrannsóknastofnun er einfaldlega sú að við fengum ábendingu þegar við vorum að vinna tillöguna um að Hafró sé ekki stjórnsýslustofnun og þar af leiðandi væri óeðlilegt að Hafró fengi það hlutverk að auglýsa tillöguna, fá athugasemdir og meta þær. Ráðherra eða ráðuneytið væri betur til þess fallið í rauninni en Hafrannsóknastofnun. Það er í sjálfu sér ekki önnur hugsun að baki en að gæta að hlutverki Hafrannsóknastofnunar sem stofnunar í því öllu saman. Sömuleiðis held ég að það fari vel á því að gera þetta svona.

Ég hef góðan tíma hérna.

(Forseti (BN): Nei, þú hefur hann ekki.)

Ég held að þetta sé að mörgu leyti mikilvæg tillaga af því að höfum gagngert unnið að því í þinginu að tryggja aðkomu almennings að því hvernig strandsvæðin eru nýtt, hvernig firðirnir eru nýttir. Með þessu opnum við á það mikilvæga tækifæri fyrir almenning að hafa skoðun á því hvar fiskeldi er sett upp á svæðinu, sem ég held að sé mjög mikilvægt.