Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 121. fundur,  8. júní 2023.

tæknifrjóvgun og notkun kynfrumna og fósturvísa manna til stofnfrumurannsókna.

939. mál
[20:05]
Horfa

Frsm. velfn. (Líneik Anna Sævarsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Hér mæli ég fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingu á lögum um tæknifrjóvgun og notkun kynfrumna og fósturvísa manna til stofnfrumurannsókna, nr. 55/1996, um geymslu og nýtingu fósturvísa og kynfrumna. Þetta er nefndarálit frá hv. velferðarnefnd.

Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um tæknifrjóvgun þannig að í stað skyldu til að eyða kynfrumum eða fósturvísum ef annar þeirra sem stendur að tæknifrjóvgun andast eða hjúskap eða sambúð er slitið verði einstaklingum gert heimilt að veita vottað og skriflegt samþykki fyrir notkun kynfrumna og fósturvísa til tæknifrjóvgunar á eftirlifandi maka eða fyrrverandi maka þrátt fyrir skilnað eða sambúðarslit. Gerð er krafa um að sá sem vilji nýta kynfrumur eða fósturvísa á þennan hátt sé einhleypur þegar að tæknifrjóvgun kemur og geti notað kynfrumurnar eða fósturvísi í eigin líkama. Þá eru samhliða framangreindum breytingum lagðar til breytingar á barnalögum um að þeir einstaklingar sem standa saman að ákvörðun, þ.e. leghafi sem óskar eftir tæknifrjóvgun og fyrrverandi maki sem samþykkt hefur notkun leghafans á kynfrumum eða fósturvísi eftir andlát, skilnað eða sambúðarslit, verði foreldrar barns sem þannig er getið.

Þetta var um efni málsins en nefndin fjallaði um málið og fékk á sinn fund gesti og henni bárust umsagnir. Gerð er grein fyrir gestakomum og umsögnum í nefndaráliti sem liggur frammi.

Í kjölfar umfjöllunar nefndarinnar um málið vill nefndin árétta sérstaklega að við meðferð málsins í nefndinni var rætt um ýmis álitaefni sem tengjast breytingum á lögum um tæknifrjóvgun og tengdum breytingum á barnalögum, m.a. um réttarstöðu barna. Í umsögnum sem nefndinni bárust er að finna ábendingar um að ekki sé þörf á að setja það sem skilyrði að einstaklingar sem vilji nýta fósturvísa í kjölfar skilnaðar, sambúðarslita eða andláts annars aðilans séu einhleypir. Bent var á að tímabært væri að afnema nafnleynd kynfrumugjafa og að leggja þurfi sérstakt mat á áhrif frumvarpsins á börn. Jafnframt var fjallað um skráningu á foreldrastöðu og breytingar á skráningu á foreldrastöðu.

Þá vill nefndin geta þess að fyrr á þessum þingvetri var lagt fram frumvarp á þskj. 8 sem hv. þm. Hildur Sverrisdóttir lagði fram. Í því frumvarpi er gengið lengra en í frumvarpinu sem hér er til umfjöllunar. Þar er m.a. lagt til að gjöf fósturvísa verði heimiluð og að sambúð eða hjúskapur verði ekki lengur skilyrði fyrir því að einstaklingar geti staðið saman að tæknifrjóvgun í þeim tilgangi að búa til barn. Nefndin tekur fram að vanda þurfi til verka við breytingar á lögum um tæknifrjóvgun sem og við samsvarandi breytingar á barnalögum. Skoða þarf ákvörðunarrétt einstaklinga sem leitast eftir tæknifrjóvgun í samhengi við réttarstöðu barns sem verður til við þær aðstæður.

Í 4. kafla í greinargerð með frumvarpinu er að finna upptalningu á þeim ákvæðum stjórnarskrár, laga og alþjóðasamninga sem vernda hagsmuni barna. Í 6. kafla er svo að finna mat á áhrifum frumvarpsins á þau sem geyma kynfrumur, pör sem geyma fósturvísa, fyrirtæki sem annast tæknifrjóvgunarferli og áhrifum á Þjóðskrá Íslands. Nefndin telur ástæðu til að brýna fyrir heilbrigðisráðuneyti að við breytingar á lögum um tæknifrjóvgun og barnalögum þurfi að leggja fyrir sjálfstætt mat á áhrifum breytinganna á réttindi og stöðu barna sem verða til með þessum hætti en skv. 3. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sem lögfestur var með lögum nr. 19/2013, ber að hafa bestu hagsmuni barns að leiðarljósi þegar stjórnvöld gera ráðstafanir sem varða börn. Í því felst m.a. að leggja mat á áhrif frumvarpa á réttindi og hagsmuni barna með hliðsjón af ákvæðum laga og alþjóðasamninga sem gilda um þau réttindi.

Við umfjöllun nefndarinnar kom fram að fyrirhuguð sé heildarendurskoðun barnalaga og laga um tæknifrjóvgun þar sem m.a. eigi að skoða nafnleynd kynfrumugjafa. Þar mun því gefast tækifæri til að kanna ábendingar sem fram komu í umsögnum um málið. Nefndin leggur áherslu á að við þá heildarendurskoðun verði sérstaklega litið til barnasáttmálans um rétt barns til að njóta foreldra og til að þekkja uppruna sinn.

Þá að breytingartillögum nefndarinnar. Nefndin leggur til breytingar á frumvarpinu sem rétt er að gera grein fyrir. Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að samkvæmt ákvæðum barnalaga geti barn einungis átt tvo foreldra. Með hliðsjón af því þyki rök standa til þess að gerð sé krafa um að sá sem gengur með barn sé einhleypur þegar tæknifrjóvgun eigi sér stað, þ.e. sá sem gengur með barn og er í þeirri stöðu sem gerð er grein fyrir í frumvarpinu, þ.e. að annar aðili sem stendur að tæknifrjóvguninni sé látinn eða skilnaður hafi orðið. Jafnvel þó að lögin gætu mælt fyrir um foreldrastöðu án þess að gera kröfu um að leghafi sé einhleypur sé hætt við að sú staða geti skapað árekstra mismunandi væntinga og hagsmuna og með því skapað togstreitu og álag fyrir barnið. Þá segir einnig í greinargerðinni að nýr maki þess sem undirgengist hefur tæknifrjóvgun í samræmi við skilyrði tillagna frumvarpsins geti eftir atvikum farið með forsjá barnsins eða stjúpættleitt barn.

Í umsögnum sem bárust nefndinni eru gerðar athugasemdir við þann áskilnað að einstaklingur þurfi að vera einhleypur ætli hann sér að nýta fósturvísa eða kynfrumur í kjölfar skilnaðar, sambúðarslita eða andláts annars aðilans. Í minnisblaði ráðuneytisins sem barst nefndinni kemur fram að ráðuneytið leggist ekki gegn slíkri breytingu sem gerð yrði í framhaldi af þessari ábendingu, svo framarlega sem það yrði áréttað og skýrt í barnalögum hverjir eigi að teljast foreldrar barnsins. Með hliðsjón af þeim sjónarmiðum telur nefndin rétt að leggja til breytingartillögu þess efnis að áskilnaður um að einstaklingur sé einhleypur falli brott, enda komi skýrt fram í barnalögum hverjir eigi að teljast foreldrar barnsins, það er annars vegar sá sem gengst undir tæknifrjóvgun og hins vegar sá sem samþykkt hefur að tæknifrjóvgun fari fram á eftirlifandi maka eða fyrrverandi maka. Þá eru lagðar til minni háttar eða lagatæknilegar breytingar sem þarfnast ekki sérstakrar umfjöllunar. Vísast að öðru leyti til ítarlegri umfjöllunar um breytingartillögur í nefndarálitinu.

Að framansögðu virtu leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem gerð hefur verið grein fyrir. Undir nefndarálitið rita, auk þeirrar sem hér stendur, hv. þingmenn Ásmundur Friðriksson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Guðrún Hafsteinsdóttir, Halldóra Mogensen, Jódís Skúladóttir, Oddný G. Harðardóttir og Óli Björn Kárason.

Ég vil þakka nefndinni fyrir gott samstarf við vinnslu málsins og að lokum, virðulegi forseti, vil ég ítreka að við breytingu á lögum um tæknifrjóvgun og samsvarandi breytingar á barnalögum þarf að vanda til verka. Ég álít einmitt að þetta frumvarp sé vandað og vel ígrundað sem og þær breytingartillögur sem nefndin leggur til.