Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 121. fundur,  8. júní 2023.

tæknifrjóvgun og notkun kynfrumna og fósturvísa manna til stofnfrumurannsókna.

939. mál
[20:18]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég vil bara endurtaka þakkir til hv. velferðarnefndar og til hæstv. ráðherra fyrir að leggja þetta mikilvæga mál fram. Ég var hér í eldhúsræðu í gær að tala um barnsfæðingar og mikilvægi þeirra og talaði um að við þyrftum að gera þjóðarátak í barnsfæðingum. Það er auðvitað þannig að það er ekki sjálfsagður hlutur að geta eignast barn og margir þurfa aðstoð við það. Hana eigum við að sjálfsögðu að veita og það er auðvitað þannig að við viljum alls ekki að lögin séu að hefta fólk. Þau eiga frekar að aðstoða fólk sem er í þeirri stöðu að geta ekki eignast barn nema með aðstoð. Þess vegna held ég að það sé ofboðslega mikilvægt að, eigum við að segja, nútímavæða þessi lög, horfa til breytts samfélagsmynsturs og fjölskyldumynsturs.

Mig langar að þakka nefndinni sérstaklega fyrir þessa breytingu sem hér er lögð til sem ég veit að hv. þm. Hildur Sverrisdóttir vakti sérstaklega athygli á, að það væri vond krafa sem upphaflega frumvarpið gerði, að þær konur sem myndu vilja nýta sér kynfrumur og fósturvísa í þeim tilvikum sem frumvarpið kveður á um yrðu að vera einhleypar. Í kjölfarið var mjög mikilvægt að því hafi verið breytt. Þannig að ég fagna því að það sé búið að fella niður þetta skilyrði og að konur megi þá nýta sameiginlega fósturvísa. Það er nefnilega ekki ríkisins að passa upp á að ákveða fyrir fólk hvernig þessir hlutir eigi að vera. Þannig að ég ítreka bara þakkir mínar. Ég held að þetta sé mikilvægt. Eins og hv. framsögumaður nefndi hér áðan, Líneik Anna Sævarsdóttir, gekk frumvarp hv. þm. Hildar Sverrisdóttur lengra þannig að ég lít svo á að hér séu stigin ákveðin skref en við þurfum jafnvel að stíga enn fleiri.