131. löggjafarþing — 121. fundur,  3. maí 2005.

Lífeyrissjóður bænda.

696. mál
[12:48]

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Sveigjanleiki í hinum síðastnefnda skilningi er jákvæður, sveigjanleg starfslok er nokkuð sem samtök launafólks hafa rætt mikið um. Það er athyglisvert að í þeirri umræðu komu upp mismunandi viðhorf milli ungs fólks og eldra fólks. Unga fólkið vill gjarnan hafa lágan lífeyrisaldur en þegar komið er á þennan aldur leggur fólk áherslu á sveigjanleg starfslok og að það geti hætt síðar.

Varðandi sveigjanleika á vinnumarkaði þá vil ég nú ekki hafa hann of sveigjanlegan og ekki of mikla teygju í reglunum, a.m.k. þegar kemur að réttindum launafólksins. Þar má ekki verða meiri sveigja, t.d. eins og lagt var til fyrir ekki svo ýkja löngu, að hægt væri að segja fólki upp skýringalaust o.s.frv. Ég veit hins vegar að það er ekki það sem hv. þingmaður meinti, alls ekki.

Ég held að það sem skiptir máli á Íslandi sé að afstaðan til vinnunnar hefur verið mjög jákvæð. Ég tel mikilvægt að varðveita þann jákvæða anda. Þess vegna er dapurlegt að okkur takist ekki að ráða bót á atvinnuleysinu, útrýma atvinnuleysi. Ég held að skýringin á því að hlutfallslega færra fólk er öryrkjar hér á landi en t.d. á hinum Norðurlöndunum sé atvinnuþátttakan, að við höfum búið við góða atvinnuþátttöku og lítið atvinnuleysi í langan tíma. Þar með hafa fleiri rúmast á vinnumarkaði. Þetta samhengi allt þarf jafnan að hafa í huga.

Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágætar ábendingar.