131. löggjafarþing — 121. fundur,  3. maí 2005.

Breyting á ýmsum lögum á orkusviði.

396. mál
[17:36]

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Við erum að ræða mjög mikilvægar lagabreytingar. Þetta er angi af umræðu sem á sér stað um heim allan, markaðsvæðingu grunnþjónustu á borð við raforku, vatn og hita. Þetta er nokkuð sem tekist er á um nánast um alla heimsbyggðina og þar skiptast menn í fylkingar. Það er frjálshyggjuvængurinn annars vegar og félagshyggjuvængurinn hins vegar. Það sem kom mér svolítið á óvart við umræðuna fyrr í dag var hve talsmaður Framsóknarflokksins, hv. formaður iðnaðarnefndar, hv. þm. Birkir Jón Jónsson, kom afdráttarlaust fram í þessu máli og afdráttarlaust niður í málflutningi sínum á hægri vængnum, með frjálshyggjusjónarmiðum. Hann setti mál sitt upp í eins konar réttlætisformúlu. Við værum að koma á réttlæti í landinu. Það væri nefnilega þannig að sumir aðilar, einkaaðilar sem væru að hasla sér völl á sviði raforkumála í raforkuframleiðslu, eru skattlagðir ef þeir eru einkafyrirtæki, en opinberi reksturinn er undanþeginn skattlagningu. Úr þessu þarf að bæta með því að skattleggja alla jafnt. Þetta er vissulega það sem býr að baki þessum kerfisbreytingum og hugmyndum, þ.e. að færa þennan geira allan inn á samkeppnissvið og að sambærilegar reglur og gilda þar eigi við á þessu sviði.

Hitt atriðið sem hv. þingmaður vék að var um ágæti þessara kerfisbreytinga. Mig langar til í nokkrum orðum að fara um báða þessa þætti.

Fyrst að markaðsvæðingunni almennt og hvernig hún gerist og er smám saman að gerast á sífellt fleiri sviðum. Þetta gerist þannig að starfsemi sem hefur verið á vegum hins opinbera er endurskilgreind og færð úr einu lagaumhverfi í annað. Við skulum taka dæmi um hafnir. Hafnirnar á Íslandi heyrðu áður undir, nú man ég ekki alveg hvort ég fer rétt með, ætli það hafi ekki verið Siglingastofnun sem hefur haft umsjón og eftirlit með þeim, en síðan var gerð breyting á lögum um hafnir þar sem m.a. var heimilað að gera hafnir að hlutafélögum. Þá gerist það að hafnirnar færast jafnframt undir annan eftirlitsaðila. Hver skyldi það hafa verið annar en Samkeppnisstofnun? Ég minnist þess að hafa átt viðræður við hæstv. samgönguráðherra um það efni þegar ég sagðist óttast að þessi kerfisbreyting þegar fram liðu stundir — við þurfum að hugsa alla þessa kerfisbreytingar með langtímasjónarmið í huga — þegar til framtíðar væri litið teldi ég að erfiðara yrði um vik að koma til móts við þarfir hafna í fámennum byggðarlögum þar sem peningar væru ekki eins miklir og í þéttbýlinu, t.d. á suðvesturhorninu. Hæstv. ráðherra sagði að ég þyrfti ekkert að óttast þetta, það væri pólitískur vilji til að stuðla að byggðaþróun og menn mundu passa upp á hafnirnar.

Hinu gleymdi hann að með lagabreytingunum, kerfisbreytingunum, er honum og fjárveitingavaldinu settur ákveðnari rammi og reistar ákveðnari skorður. Reistar eru ákveðnar skorður við því hvað þeir geti gert. Hvernig gerist það? Jú, þegar ákveðið er að veita fjárstuðning til lítillar hafnar er hætt við því að stóra höfnin, ef hún er þannig sinnuð og vill fá pening sjálf, kæri fyrir Samkeppnisstofnun meint ójafnræði. Svona gerast hlutirnir. Þetta er að gerast smám saman á nánast öllum sviðum. Evrópusambandið hefur haft þann hátt á að setja ákveðnar grunnreglur og síðan er það að færast í vöxt að dómstólar úrskurði þessar reglur. Einstaklingar eða fyrirtæki kæra oft vegna meints brots á samkeppnisreglum, að ekki sé jafnræði með mönnum og þeim sé mismunað, síðan eru það dómstólarnir, oft og tíðum hægri sinnaðir dómstólar sem úrskurða markaðsöflunum í vil. Þetta er að gerast núna á fleiri og fleiri sviðum. Stöðugt er verið að sækja t.d. að Ríkisútvarpinu og ríkisútvarpsstofnunum víðs vegar í Evrópu. (Gripið fram í: Við stöndum vörð um það.) Við stöndum vörð um það, segir hv. þingmaður, þá samþykkjum við nú ekki það frumvarp sem liggur fyrir þinginu. Við þurfum að gefa okkur betri tíma til þess og eigum eftir að ræða það mikið og mjög ítarlega áður en yfir lýkur, það er alveg ljóst.

Spurningin er alltaf sú hvað við ráðum við. Við þurfum að sníða lög og lagarammann þannig að ekki þrengi að fjárveitingavaldinu, að lýðræðislegum ákvörðunum um það sem við viljum sameinast um að gera. Þess vegna fyrir hafnirnar, fyrir útvarpsstöðvarnar eða hver sem í hlut á.

Þetta er grunnurinn líka eða grunnþátturinn í deilunni um þjónustutilskipun Evrópusambandsins. Það er ekki bara upprunalandsreglan sem menn hafa svolítið einblínt á, heldur eru líka þættir sem snúa að þjónustunni, hvernig eigi að skilgreina hana og að hvaða marki hún eigi að fara yfir á markaðstorgið og þá hvort skilgreiningin eigi að taka til velferðarþjónustu eins og er í núgildandi drögum að þjónustutilskipuninni. Þetta skiptir nefnilega mjög miklu máli. Enn eitt sviðið sem menn eru að föndra við þessa hugsun alla, er náttúrlega Alþjóðaviðskiptastofnunin með sína GATS-samninga.

Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði höfum sett fram mjög ítarlegt þingmál, þingsályktunartillögu, í mörgum liðum um hvernig við Íslendingar eigum að snúa okkur í þessu máli. Við erum með ýmsar ábendingar, t.d. tillögu um að við berjumst fyrir breytingu á 1. gr. GATS-samningsins þar sem vikið er að skilgreiningum á þjónustu. Ég ætla að fara aðeins yfir þetta, vegna þess að þetta skiptir máli í samhengi við það sem hv. þm. Birkir Jón Jónsson sagði áðan um markaðsvæðingu raforkugeirans.

Í b-lið 3. mgr. 1. gr. GATS-samningsins er skýrt hvaða þjónusta er talin falla undir hann. Þar segir, með leyfi forseta:

„„Þjónusta“ á við þjónustu á öllum sviðum nema þjónustu sem opinber yfirvöld veita“.

Þarna er skilgreining í GATS-samningnum á þjónustu. Við fyrstu sýn, í fyrstu setningunni, má ætla að þetta taki ekki til opinberrar þjónustu, velferðarþjónustu eða annarrar samfélagslegrar þjónustu, því að hér segir, og ég endurtek, með leyfi forseta:

„„Þjónusta“ á við þjónustu á öllum sviðum nema þjónustu sem opinber yfirvöld veita“.

Á ensku, sem er eina tungumálið sem samningurinn hefur lagalegt gildi á, segir, með leyfi forseta:

„„Services“ includes any service in any sector except services supplied in the exercise of governmental authority.“

Í c-lið 3. mgr. I. gr. er þessi skilgreining skilyrt með eftirfarandi hætti, með leyfi forseta:

„„Þjónusta“ sem opinber yfirvöld veita er þjónusta sem hvorki er veitt á viðskiptalegum grunni né í samkeppni við einn eða fleiri þjónustuveitendur.“

Ég ætla ekki að þreyta menn með því að taka þetta upp á ensku en þarna er sem sagt sett niður almenn skilgreining, almenn regla, og síðan kemur viðbótin sem segir: Nema um sé að ræða að opinbera þjónustan eigi í samkeppni á þessu sviði við annan aðila.

Sem sagt, ég endurtek:

„„Þjónusta“ sem opinber yfirvöld veita er þjónusta sem hvorki er veitt á viðskiptalegum grunni né í samkeppni við einn eða fleiri þjónustuveitendur.“

Bæði í Evrópusambandinu og einnig Alþjóðaviðskiptastofnuninni í GATS-samningunum er verið að takast á um þessar skilgreiningar. Fleiri alþjóðastofnanir hafa farið inn á þessa braut, eins og OECD með svokölluðum MAI-samningum, Multilateral Agreement on Investment, sem var slátrað vegna mikillar andstöðu verkalýðshreyfingarinnar, það var í kringum aldamótin sem það kom fram. Menn eru því sífellt að færa starfsemi innan úr grunnþjónustunni út á markað og kalla síðan á réttlæti, að sömu reglur gildi og hafa síðan lagalegan grunn eða samningsbundinn grunn til að fylgja kröfum sínum eftir. Síðan eru kórar réttlætisraddanna. Við heyrðum eina áðan, hv. þm. Birkir J. Jónsson, fulltrúi Framsóknarflokksins við umræðuna sem kallar … (Gripið fram í.) Nei, þetta voru ekki félagshyggjusjónarmið vegna þess að hér er verið að kalla á réttlæti á mjög vafasömum forsendum vegna þess að með þessu er verið að grafa undan almannaþjónustunni. Það sem fram kemur í álitsgerðum frá verkalýðshreyfingunni og frá almannasamtökum er einmitt þetta, að menn segja að þetta sé grunnþjónusta í samfélaginu og það eigi ekki að líta á hana sem hverja aðra verslunarvöru, hvort sem það er rafmagn, vatn eða hiti, það eigi einfaldlega að fara öðruvísi með.

Síðan koma náttúrlega margvísleg önnur sjónarmið til viðbótar. Menn benda á að það sé afskaplega vafasamt að skattleggja heita vatnið t.d., það sé ekki samkeppni á milli heits vatns og rafmagns. Þar búi mismunandi landsvæði við mjög ólík skilyrði eins og við þekkjum. Vatnið er svo miklu ódýrari og betri kostur en hinn, raforkan, að það er ekki nein samkeppni sem verður þar á milli. Stóra spurningin er svo: Verður hér einhver samkeppni? Vegna þess að þegar bent er á verðhækkanir á rafmagni hafa menn sagt: Ja, bíðið við, við skulum sjá, þetta á eftir að jafna sig, þetta mun lagast síðar. Forsenda þess að það gengi eftir, að sá yrði veruleikinn er sú að hér verði það mikil samkeppni að það komi til með að færa verðlagið niður. Ég hef reyndar alltaf haft efasemdir um að samkeppnin á öllum sviðum skili okkur þessu vegna þess að menn gleyma oft að reikna tilkostnað við samkeppnina; tvö símafyrirtæki, tvö stjórnkerfi, tvær yfirbyggingar, auglýsingakostnaður og annað af því tagi. Þetta eru hlutir sem menn gleyma iðulega að reikna inn í tilkostnaðinn af samkeppninni.

Það er náttúrlega mikil hörmungarsaga að rifja þetta upp allt saman. Við fórum í gegnum umræðuna um raforkulögin sl. haust og þá komu fram mjög eindregin andmæli frá okkur í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði þar sem við vöruðum við þessu. Bæði erum við í grunninn ósammála því að færa grunnþjónustuna yfir á markaðssvið, að markaðsvæða hana. Síðan bentum við einfaldlega á annmarkana sem væru á því líka í framkvæmd. Í þriðja lagi héldum við því fram að hér mundi ekki myndast samkeppnismarkaður heldur mundu einokunarfyrirtæki skipta með sér markaðnum.

Þetta var allt sem kunnugt er gert á forsendum tilskipunar Evrópusambandsins sem fyrirskipaði úr miðstöð sinni í Brussel að um alla heimsbyggðina, um allt Evrópusambandið skyldi sami háttur hafður á, að sundurgreina í bókhaldi fyrirtækjanna framleiðslu, dreifingu og sölu á rafmagni og það gilti einu hvort menn væru í Munchen eða á Vestfjörðum. Það er bara sama regla alls staðar óháð aðstæðum og vilja fólks, þar gilti reglustikuhugsun eins og fyrri daginn.

Þetta var gert þvert á vilja manna og eftir á kom hver maðurinn á fætur öðrum og óskaði þess að við hefðum reynt að leita eftir undanþágu. Ég tók eftir því í umræðu ekki alls fyrir löngu að hæstv. forsætisráðherra sagði að slíkt hefði verið gert. Ég hefði gaman af að sjá staðfestingu á því eða skjalfestingu, einhverjar sönnur færðar á það. Ég hef fylgst mjög vel með þessum málum, átti í senn sæti í EFTA-nefnd þingsins, tók þátt í umræðu þegar tilskipunin kom hingað inn í formi þingsályktunar fyrst. Við gagnrýndum þá þessar breytingar og óskuðum eftir því að leitað yrði eftir undanþágu. Það voru ekki nokkur einustu viðbrögð nema menn séu bara núna svona seint að komast að raun um hvað þeir hugsanlega hugsuðu þá. Það er náttúrlega ekki nógu gott, þetta þarf að vera til í bókum eða einhverjum yfirlýsingum ef menn ætla að láta taka sig alvarlega að þessu leyti.

Þegar raforkulögin, sá pakki var til umræðu í þinginu var hæstv. iðnaðarráðherra, Valgerður Sverrisdóttir, síður en svo hnuggin yfir þeirri staðreynd eða því sem henni hafði verið sagt, hvað sundurliðun fyrirtækjanna og arðsemiskröfur einstakra eininga mundu hafa í för með sér. Hæstv. ráðherra sagði m.a. þetta við umræður um málið, með leyfi forseta:

„Þótt þetta sé mikil vinna er þetta ekki einhver óvinnandi vegur. Í rauninni finnst mér hafa verið skemmtilegt að fást við þetta mál og ég er alltaf jafnsannfærð um að það eigi fullan rétt á sér og það verði til þess að bæta raforkukerfi okkar. Nú verða hlutirnir miklu meira uppi á borðinu. Við aðgreinum rekstrarþætti og ég leyfi mér að segja að mjög margt í þessu kerfi hefur verið dálítið ósýnilegt og kannski ekki alveg skilvirkt fram til þessa.“

Þetta var tilvitnun í hæstv. iðnaðarráðherra, Valgerði Sverrisdóttur, í umræðu um þessi mál.

Þetta er allt að verða mjög sýnilegt núna, alla vega þeim sem fá rafmagnsreikningana, og það hlýtur að vera óskaplega skemmtilegt fyrir fólk að fá að greiða reikninga úr hinu skilvirka kerfi hæstv. iðnaðarráðherra, Valgerðar Sverrisdóttur. Rarik hækkaði gjaldskrá sína um 3,5% um áramótin og síðan um 6%, samanlagt jafngildir það 9,71% hækkun. Hækkunin bliknar hins vegar í samanburði við það sem hefur gerst sums staðar annars staðar eins og t.d. á Vestfjörðum þar sem hækkunin er talin í tugum prósenta, sums staðar 40% frá því sem áður var.

Stundum hefur hæstv. iðnaðarráðherra sagt að þetta hafi allt verið fyrirsjáanlegt og svo næsta dag er sagt að þetta hafi ekki verið fyrirsjáanlegt og óskiljanlegt að orkufyrirtækin séu að hækka reikningana. Innst inni held ég að ráðherrann hafi séð vitleysuna og í hvaða ógöngur ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks hefur tekist að koma raforkumálum landsmanna með náttúrlega dyggri aðstoð Evrópusambandsins. Hæstv. ráðherra var ekkert að leyna því við umræður 26. nóvember á síðasta þingi að margir hefðu reynt að hafa vit fyrir ríkisstjórninni. Hæstv. iðnaðarráðherra landsins, Valgerður Sverrisdóttir, sagði þá m.a., með leyfi forseta:

„Það er heldur ekkert launungarmál að það voru ekkert óskaplega margir aðdáendur frumvarpsins hér á landi þegar það kom fyrst fram. Það er eiginlega alveg stórmerkilegt að það skuli þó hafa náð að verða að lögum og vera komið á þann stað í stjórnsýslunni sem raun ber vitni. Ég er þó alltaf jafnhamingjusöm með frumvarpið og lögin og ég held að það hljóti að segja sína sögu.“

Já, það segir náttúrlega mikla sögu. En hvort sú saga fjallar um frumvarpið eða hæstv. ráðherra er svo annað mál. (Gripið fram í: Þú verður að segja okkur söguna.) Ég er búinn að vera að segja söguna. Sagan er sú að búið er að innleiða breytingar sem fólk hefur trúað á, þó ekki meira en svo að ráðherranum, helsta talsmanni og forgöngumanni lagabreytinganna, (Gripið fram í.) fannst ótrúlegt að málið væri komið eins langt og raun ber vitni. En þeir hafa verið svo margir, viljugir verkamennirnir, að leggja hönd á plóg.

Ég verð að segja það, hæstv. forseti, að mér kom á óvart hve afdráttarlaus talsmaður Framsóknarflokksins var í þessum efnum og á hve afdráttarlausan hátt hann setti sig og sinn flokk á markaðshyggjuvænginn, á frjálshyggjuvænginn, á peningahyggjuvænginn (Gripið fram í.) í þeirri umræðu sem fram fer, ekki bara hér á landi heldur um allan heim. Við félagshyggjumenn höfum hins vegar viljað hafa allt aðrar áherslur í málinu og við höfum reynt að hafa vit fyrir ríkisstjórninni og forða því að farið verði út á þessa braut, en menn halda ótrauðir áfram. Ég velti því fyrir mér eftir að ég hlustaði á hv. þingmann hvar Framsóknarflokkurinn mun láta staðar numið. Verður það í raforkumálunum? Það er greinilegt að nú á að fara að skattleggja rafmagnið og heita vatnið, Framsóknarflokkurinn vill skattleggja heita vatnið líka. Hvað meira?

Nú er það að færast í vöxt að einkaaðilar hasli sér völl innan velferðarþjónustunnar, innan öldrunarþjónustunnar og í heilbrigðiskerfinu annars staðar. Fyrirtæki munu reka þá þjónustu og verða væntanlega skattlögð. Þýðir það ekki að skattleggja þarf Landspítalann? Þarf ekki að skattleggja Landakot? Á ekki að skattleggja öldrunardeildina á Landakoti svo að réttlæti Framsóknarflokksins verði fullnægt? Þurfum við ekki að gera það? Og skólana? Alls staðar þar sem einkaaðilar hasla sér völl og hefja rekstur hljótum við að þurfa að leita eftir slíku réttlæti.

Munurinn á því sem er að gerast núna og fyrr á tíð er að starfsemi utan opinbera geirans á velferðarsviðinu var og hefur verið rekinn af sjálfseignarstofnunum sem eru sprottnar upp úr samtökum sjúklinga og verkalýðshreyfingar, Hrafnista, SÍBS o.s.frv., og er í rauninni mjög áþekk opinberum rekstri og lýtur sömu lögmálum. Það er sama réttinda- og kjaraumhverfið og sömu skilmálar sem þessar stofnanir og þessi starfsemi býr við. Munurinn annars vegar á þessu og hins vegar því nýja fyrirkomulagi sem Tony Blair og Framsóknarflokkurinn hafa gerst forgöngumenn um, er að færa sífellt fleiri svið velferðarþjónustunnar út á markaðstorgið. Tony Blair er með einkaframkvæmdina eins og við þekkjum. Þá er hugmyndin sú að fjárfestar fjárfesti, leggi peninga sína í velferðarþjónustuverkefni til þess að hafa af þeim arð. Þetta er munurinn. Þetta er munurinn á einkaframkvæmdinni hjá Tony Blair annars vegar og Hrafnistu eða DAS. Þar er markmiðið ekki að hafa arð af starfseminni, heldur einvörðungu að setja peningana til að veita þjónustu og í frekari uppbyggingu. (Gripið fram í.) Samt einkaframkvæmd? Nei, þetta er ekki sambærilegt við einkaframkvæmd. Einkaframkvæmdin er fyrirtæki á vegum aðila sem ætla að hafa af henni arð. Hún er rekin á markaðsgrundvelli. Meira að segja er það orðið svo í Bretlandi að einkaframkvæmdarfyrirtækin, starfsemin, er komin á eftirmarkað. Menn eru farnir að selja skóla og fangelsi í stórum stíl á eftirmarkaði. Það er alveg makalaust. Þá kemur í ljós hve stífar skorður löggjafanum eru settar.

Sagt var frá því í sjónvarpsþætti miklum í Bretlandi fyrir nokkrum dögum að skólamáltíðir í Bretlandi væru orðnar hættulega bágbornar og sjónvarpið — ég held að það hafi verið BBC — fór að rannsaka þetta og lagði svolítið í það. Það kom í ljós að skólaeldhúsin eru öll komin í einkahendur, í bisnessfarveginn, og það var farið að skoða matinn, t.d. kalkúnaréttina. Þeir hétu vissulega því nafni og voru bara nokkuð vinsælir, nema það var … (GAK: Ísafjarðarkaupstaður er að fara sömu leið) Að fara sömu leið, það er nefnilega það. Þeir gætu betur fengið að horfa á þennan ágæta sjónvarpsþátt frá Bretlandi sem sýndi að í kalkúnaréttinum, sem var óskaplega bragðgóður fannst krökkunum, var bara ekkert kalkúnakjöt. (Gripið fram í: En góður samt.) Hann var góður en hann var heilsuspillandi að því að talið er. Eins var í öðrum svokölluðum kjötréttum, þar var ekkert kjöt. Það varð mikið uppistand í kjölfarið, Verkamannaflokkurinn rankaði við sér og vildi gera eitthvað í málinu. En viti menn, það var búið að semja við þessi fyrirtæki 20–30 ár fram í tímann. Menn höfðu ekki sett þessa skilmála inn í samningana, höfðu tekið menn trúanlega, og það er hótað lögsóknum ef hreyft verður við þessum samningum.

Ég nefni þetta sem dæmi um hve þrengjandi ákvarðanir sem við erum að taka um lagaumhverfi almannaþjónustunnar geta verið þegar til framtíðar er horft. Við erum að þrengja að lýðræðislegu valdi, það er málið, með því að taka starfsemi sem verið hefur í opinberum rekstri og lotið almannavilja, lýðræðislegum vilja, og færa hana yfir á markaðstorg þar sem samkeppnislög gilda. Það er í því samhengi sem ég er að vísa í GATS-samningana, í þjónustutilskipun Evrópusambandsins, í skilgreiningar og reglur sem OECD hefur viljað setja o.s.frv. Þetta er nefnilega umræða sem skiptir okkur raunverulega máli. Það skiptir raunverulega máli hvernig við skilgreinum grunnþjónustuna í landinu.

Þá erum við komin að upphafspunkti ræðu minnar að það er alveg rétt sem hv. þm. Birkir Jón Jónsson sagði, að grunnurinn að þessum lögum eða grunnhugsunin að baki þessara laga er að færa þessa starfsemi inn í sambærilegt umhverfi og önnur „fyrirtæki“ í landinu búa við. Við erum sem sagt að taka almannaþjónustu, grunnþjónustu í landinu, og færa hana yfir í samkeppnisumhverfi. Þá þurfum við að hugsa það mál alveg til enda, vegna þess að hið sama mun gerast og gagnvart skólaeldhúsunum í Bretlandi að einkaaðilinn, sem kominn er með starfsemi í hendur eða hefur verið gert að búa við einhver tiltekin lög og ákvæði þeirra, lætur það ekki gerast átölulaust eða án þess að sækja rétt sinn ef löggjafinn ætlar að þrengja að honum á einhvern hátt á síðari stigum.

Mér finnst það óneitanlega skammsýni líka þegar menn benda á að vegna skuldsetningar og fjárfestinga sem fyrirtækin og orkustofnanirnar hafa ráðist í komi þær ekki til með að greiða skatta á allra næstu árum. Mér finnst þetta vera skammtímahugsun. Við erum að ráðast í kerfisbreytingar til langs tíma og þannig eigum við að hugsa. Við eigum ekki að hugsa í mánuðum eða árum, við eigum að hugsa til lengri tíma. Er kerfisbreytingin sem er hér á döfinni til góðs? Ég ætla ekki að fara nánar út í þá umræðu núna, ég mun gera það við umræðuna um skattlagningu orkufyrirtækja sem er á dagskrá þingsins síðar í kvöld en þar kemur fram að öll almannasamtök í landinu vara við þessu og biðja okkur um að staldra við og hugsa okkar gang.

Öll sveitarfélögin í landinu vara við þessu líka. Þau biðja okkur um að staldra við og hugsa okkar gang. Þau gera það á mismunandi forsendum. Samband íslenskra sveitarfélaga leggst t.d. ekki alfarið gegn því að skattlagningartæki sé beitt. Sambandið segir að það þurfi hins vegar fyrst að ganga frá ýmsu í samskiptum ríkis og sveitarfélaga varðandi fjármál því það sé sýnt að skattlagning orkufyrirtækjanna muni herða að sveitarfélögunum, skerða þeirra hlut. Það er ljóst að Orkuveita Reykjavíkur, svo dæmi sé tekið, hefur fært borgarsjóði mikla peninga í tímans rás sem hafa gengið til almennrar uppbyggingar og reksturs á velferðarþjónustunni í landinu. Þessir peningar munu skerðast. Síðan er hitt sem Framsóknarflokkurinn þarf náttúrlega að svara fyrir og það er þetta ótrúlega stóriðjudekur. Framsóknarflokkurinn er tilbúinn að leggja stóriðjurisana í bómull, hlúa að þeim eins og ungbarni, það má ekki hrófla við þeim, veita þeim skattafslátt, veita litla Impregilo skattafslátt, (Gripið fram í.) Alcan er það nú reyndar sem ég ætlaði að nefna, eða Alcoa á Austurlandi, og þessi fyrirtæki, stóriðjufyrirtæki, fá skattafslátt. En á kostnað hvers? Á kostnað almennings og á kostnað litlu fyrirtækjanna.

Reyndar verð ég að segja — ég get ekki svarið það, segir hv. þm. Birkir Jón Jónsson stundarhátt. Nei, menn hafa átt erfitt með að trúa þeirri hagfræði sem Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn hafa boðið okkur upp á í tengslum við stóriðjumálin. Ég vék að stóriðjunni hér fyrst og fremst til að minna okkur á að í umsögnum orkufyrirtækjanna og í umsögnum sveitarfélaganna er vísað sérstaklega í samninga sem hafa verið gerðir m.a. við stóriðjuna. Þar eru menn iðulega bundnir og geta sig hvergi hreyft varðandi þá, en við vitum náttúrlega á hverjum þetta kemur til með að bitna, þetta kemur til með að bitna á hinum almenna neytanda.

Ég er ekki í hópi þeirra sem eru mjög andvígir skattlagningu, alls ekki. Ég er skattasinni, ég vil hafa skatta. Ég vil hafa allháa skatta vegna þess að mér finnst betra að fjármagna velferðarþjónustuna í gegnum almenna skattlagningu í stað þess að láta notandann greiða fyrir hana beint, sjúklinginn eða skólanemann eða hver sem það er. Ég er fylgjandi því og yfirgnæfandi meiri hluti Íslendinga er á því máli líka. Íslendingar almennt vilja fjármagna velferðarþjónustuna með sköttum í stað notendagjalda. En þegar kemur að grunnþjónustu á borð við rafmagn, heilsugæslu, skóla og annað af því tagi finnst mér vera fráleitt að skattleggja þá þjónustu. Reyndar liggur það til grundvallar afstöðu minni að ég tel að þessi þjónusta eigi öll að vera á hendi hins opinbera, vegna þess að þegar hún er komin í einkahendur þá fara að gilda önnur lögmál.

Menn deildu um það hér á sínum tíma hvort eðlilegt væri að heimila orkufyrirtækjum, raforkufyrirtækjum, veitufyrirtækjum, að færa arð inn í sveitarsjóðina, inn í almenna sjóði, hvort það yrði ekki að vera klippt og skorið þarna á milli að menn greiddu einvörðungu fyrir veitta þjónustu, fyrir þann tilkostnað sem hlytist af því að veita þessa þjónustu. Ég hef verið algerlega andvígur því sjónarmiði. Mér finnst sjálfsagður hlutur að færa peninga á milli ef svo ber undir eins og gert hefur verið í Reykjavík. Öðru máli gegndi hins vegar um fyrirtæki sem hafa verið einkavædd, þá eru hugmyndir mínar um arðtöku orðnar allt aðrar. Það var m.a. á þeim forsendum sem okkur tókst í stjórnarandstöðunni og fyrir atbeina verkalýðshreyfingarinnar, BSRB var mjög kröftugt í því efni, að koma í veg fyrir eða reisa ákveðnar skorður við því að vatnsveiturnar yrðu einkavæddar með því að setja hámark á arðinn sem út úr þeim fer þannig að þær verði ekki eins fýsilegur fjárfestingarkostur. Við hefðum reyndar viljað hafa lögin þannig að ekki væri heimilt að gera vatnsveitur að hlutafélögum en þetta varð þó ofan á og skárri niðurstaða.

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa þessi orð mikið fleiri. Ég er búinn að koma nokkuð víða við. Ég er búinn að vísa í alþjóðlega samninga, þjónustutilskipun Evrópusambandsins og GATS og fleira. Við fyrstu sýn kynni einhver að ætla að verið væri að fara út um víðan völl og hugsanlega einhverjir útúrsnúningar, en það er ekki. Hæstv. landbúnaðarráðherra er hér í hliðarsölum. Ég hef aldrei grunað hann um mikla hægri villu, alls ekki, og hefði viljað rækta þá þætti í hans pólitíska fari sem horfa til félagshyggjunnar og til vinstri, vegna þess að þar tel ég alltaf vera vaxtarmöguleikana á þeim bænum og hörmulegt til þess að vita í hvaða félagsskap hæstv. ráðherra hefur verið undanfarin 10 ár eins og haldið var upp á í frægum kvöldverði í ráðherrabústaðnum fyrir fáeinum dögum þar sem ríkisstjórnin splæsti í mat og drykk til að gera sér glaðan dag og fagna miklum sigrum.

Ég tel vera samhengi á milli þess sem við erum að gera hér og þess sem er að gerast í alþjóðaumhverfinu, þeim samningum sem við eigum hlut að og hvet til þess að við stígum mjög varlega til jarðar, vegna þess að það er ekki svo auðvelt að snúa til baka eftir að skrefin eru tekin. Alþjóðastofnanirnar hafa girt sig og varið sig með dómstólum, t.d. á vegum GATS, á vegum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar. Þar er sett niður sérstök úrskurðarnefnd sem vegur og metur hvað ríkjum er heimilt að gera og hvað ekki. Þegar við erum búin að ráðstafa einhverju valdi eða senda einhverjar ákvarðanir frá okkur er ekki svo auðveldlega aftur snúið. Menn geta átt yfir höfði sér skaðabótakröfur og það er ekki svo auðvelt við að glíma.

Ég veit að hv. þm. Birki J. Jónsson þyrstir í að heyra meira af þessum vangaveltum og þessum fróðleik, en því miður veit ég að margir hv. þingmenn vilja komast að í ræðustólnum. Ég hef einnig grun um að hv. þm. Birkir J. Jónsson hafi kannski eina athugasemd eða jafnvel tvær við það sem ég hef haft hér fram að færa.