132. löggjafarþing — 121. fundur,  3. júní 2006.

fiskrækt.

613. mál
[00:14]
Hlusta

Frsm. landbn. (Drífa Hjartardóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá landbúnaðarnefnd um frumvarp til laga um fiskrækt. Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund fjöldann allan af gestum og einnig barst nefndinni fjöldi umsagna.

Með frumvarpinu er lagt til að sett verði sérlög um fiskrækt, en ákvæði um fiskrækt eru nú í lögum um lax- og silungsveiði, nr. 76/1970. Ákvæði um Fiskræktarsjóð verða þó áfram í lögum um lax- og silungsveiði. Frumvarpið er flutt samhliða frumvarpi til laga um varnir gegn fisksjúkdómum, frumvarpi til laga um Veiðimálastofnun, frumvarpi til laga um eldi vatnafiska og frumvarpi til laga um lax- og silungsveiði.

Nefndin leggur til að orðin „þ.m.t. hafbeitar“ í 2. gr. falli brott þar sem orðalagið er villandi að því leyti að álykta má að hafbeit sé hluti af fiskrækt, en í athugasemdum í frumvarpinu kemur fram að slepping gönguseiða í veiðivötn teljist ekki til hafbeitar, heldur fiskræktar. Um er að ræða tvær skilgreiningar, þ.e. hafbeit og fiskrækt, og leggur nefndin því til að framangreind orð falli brott.

Nefndin leggur til tvær breytingar á 3. gr. Annars vegar breytingu á 11. tölulið er lýtur að skilgreiningunni á hafbeit. Misræmi er á milli skilgreiningarinnar og skýringar með henni og því er orðalagi breytt. Ekki er um að ræða efnislega breytingu. Hins vegar er lögð til breyting á 26. tölulið á þá leið að villtur fiskstofn verði skilgreindur sem fiskstofn þar sem meiri hluti fisks er klakinn í náttúrulegu umhverfi, elst þar upp og er kominn undan villtum foreldrum. Sú breyting er til samræmis við skilgreiningu á hugtakinu í frumvarpi um lax- og silungsveiði.

Einnig leggur nefndin til að gildistakan verði færð til 1. júlí 2006 í stað 1. júní og enn fremur að lagfærð verði tilvísun í lögum um verndun Þingvallavatns og vatnasviðs þess, nr. 85/2005.

Að lokum er lögð til breyting á ákvæði til bráðabirgða þannig að einum fulltrúa frá Félagi eigenda sjávarjarða verði bætt við samráðsnefndina og með því komi fleiri hagsmunaaðilar að henni

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali. Margrét Frímannsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Undir þetta nefndarálit rita auk mín hv. þm. Anna Kristín Gunnarsdóttir, Magnús Stefánsson, Gunnar Örlygsson, Guðmundur Hallvarðsson, Jón Bjarnason, Guðjón Ólafur Jónsson og Valdimar L. Friðriksson.

Þau fimm frumvörp sem verið hafa til umræðu í kvöld voru öll afgreidd í mikilli sátt í landbúnaðarnefnd. Ég vil nota þetta tækifæri og þakka þingmönnum í landbúnaðarnefnd fyrir gott samstarf í vetur og einnig ritara nefndarinnar. Það er mikilvægt að ná sátt í svo viðamiklum málaflokki þegar um lax- og silungsveiði er að ræða en endurskoðun löggjafarinnar hefur tekið mörg ár og hefur þurft að gæta fjölþættra hagsmuna og lagaskila. Það er til marks um hve mikilvægt var að þetta náðist fram núna að gerðar hafa verið tilraunir til heildarendurskoðunar þessara laga á síðustu áratugum án þess að það hafi borið árangur. En þetta mál er nú í höfn og er gott til þess að vita.