139. löggjafarþing — 121. fundur,  11. maí 2011.

störf þingsins.

[14:16]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Hryllilegar yfirlýsingar formanns LÍÚ í morgun um sjávarútvegsfrumvarp ríkisstjórnarinnar sýna svo ekki verður um villst að sægreifarnir eru ekki í neinum sáttahug í kvótamálinu. Frekja og yfirgangur LÍÚ er svo yfirgengilegur að ekki bara setja þeir kjarasamninga í uppnám heldur skirrast þeir ekki við að hrauna yfir stjórnarfrumvörp sem þeir hafa ekki einu sinni séð. (Gripið fram í.)

Þegar LÍÚ tekur með þessum hætti því hóflega sáttaboði sem ríkisstjórnin hefur unnið að kallar það auðvitað á að þjóðin verði fengin til að setja niður í eitt skipti fyrir öll þessar deilur. Aðeins þannig fáum við bundið endi á þær og ég er sannfærður um að þá muni LÍÚ uppgötva að hjá almenningi er ríkur vilji til róttækra breytinga í sjávarútvegsmálum.

Yfir hverju þykjast nú kvótagreifarnir hafa verið andvaka í nótt? Jú, það er af sögusögnum í fjölmiðlum um það að þeir eigi að borga 5–6 milljarða fyrir aðgang sinn að helstu auðlind Íslendinga. Hver er veruleikinn? Veruleikinn er sá að samkvæmt útreikningum Hagstofu Íslands er hreinn hagnaður í sjávarútvegi 45 milljarðar eftir árgreiðsluaðferð á árinu 2009, 45 milljarðar. Er það þá trúverðugt að jafnvel þó að þessar sögusagnir væru réttar mundi það ríða á slig atvinnugrein sem hefur slíkan stórgróða við núverandi aðstæður í hagkerfinu? Fjarri því. Þess vegna sýna yfirlýsingar formanns LÍÚ fyrst og fremst það að þeir eru enn eina ferðina lagðir af stað í ómerkilegan hræðsluáróður með upphrópunum (Forseti hringir.) um það að allt muni fara á hlið ef þeir þurfi að skila almenningi einhverri minnstu hlutdeild í þeim gríðarlega hagnaði sem sjávarútvegurinn nú nýtur.