149. löggjafarþing — 121. fundur,  12. júní 2019.

beiðni um frestun umræðu.

[13:15]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Frú forseti. Það er alveg ljóst að okkar kæri vinur, forseti Þýskalands, Frank-Walter Steinmeier, kemur í þingið kl. 13.45 og skilaboðin eru alveg skýr um að við eigum að haga okkur skikkanlega meðan hann er. Ég held líka að það sé mikilvægt að svo verði, að við sýnum ákveðna virðingu þegar hann er hér. Þess vegna nota ég tækifærið núna áður en hann er kominn í hús til að beina því til forseta að frekar verði gert hlé núna á þingfundi, a.m.k. að fiskeldið verði ekki tekið til umræðu. Það er eitt af þeim málum sem við höfum verið að ræða um. Þetta mál verður afgreitt en það þarfnast umræðu. Það er ekki hægt að fara í umræðu um svo mikilvægt mál í svona miklu ósætti.

Ég verð því miður að segja að stjórn þingsins er frekar losaraleg þessa stundina og það er ekki hægt að bjóða upp á bútasaumsumræðu um jafn mikilvægt mál og fiskeldið er meðan við erum ekki búin að ná saman. Þess vegna hvet ég forseta til að gefa okkur frekar tíma til að ná samkomulagi um málefnalyktir hér á þingi en að demba inn í dagskrána máli sem ég mun taka þátt í og ræða ítarlega.