149. löggjafarþing — 121. fundur,  12. júní 2019.

fiskeldi.

647. mál
[14:12]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Kolbeinn Óttarsson Proppé) (Vg) (andsvar):

Forseti. Kannski hljóma þessi orðaskipti ankannalega í eyrum þeirra sem ekki alveg átta sig á því um hvað þetta snýst af því að ég dró breytingartillöguna til baka. En það er rétt hjá hv. þingmanni að það liggur ekki fyrir hvaða leið verður lögð til í þessum efnum. Þar höfum við fyrst og fremst horft til þess að það séu skýrar línur um hvaða reglur gildi eftir að þessar tillögur hafa verið lagðar fram.

Ég veit ekki hvort ég næ því á 22 sekúndum að útskýra um hvað málið snýst. Ég kom ekki inn á það í ræðu minni af því að við erum ekki komin það langt að ræða nákvæmlega og efnislega hvaða leið verði lögð til. Það verður gert í nefndinni og málið kemur svo hér í þingsal en ég ítreka að fyrir mér er það fyrst og fremst skýrleikinn sem skiptir máli í því.