131. löggjafarþing — 122. fundur,  4. maí 2005.

Stuðningur við börn á alþjóðavettvangi.

741. mál
[10:55]

utanríkisráðherra (Davíð Oddsson) (S):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur fyrir spurningu sem hún hefur lagt fram og hljóðar svo:

„Hver er afstaða ráðherra til þess að íslensk stjórnvöld móti stefnu um að sú aðstoð sem landið veitir á alþjóðavettvangi beinist að börnum?“

Í samræmi við stefnu stjórnvalda hefur Ísland látið sig sérstaklega varða málefni barna á alþjóðavettvangi. Þess má geta að Ísland á aðild að samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins og hefur Ísland fullgilt báðar viðbótarbókanirnar, annars vegar samninginn sem fjallar um þátttöku barna í vopnuðum átökum og hins vegar þann sem fjallar um sölu barna, barnavændi og barnaklám. Í samræmi við áherslur Íslands gagnvart réttindum barna hefur sú stefna mótast gegnum árin að fjárframlögum sem veitt eru til aðstoðar á alþjóðavettvangi hefur fyrir atbeina Íslands sérstaklega verið beint að börnum. Árið 2005 var framlag Íslands til Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna 15,3 millj. kr. en árið 2004 námu framlög Íslands 9,4 millj. kr. þannig að þetta framlag hefur hækkað verulega. Jafnframt samþykkti ríkisstjórnin hinn 7. janúar að veita Barnahjálpinni sérstakt framlag að upphæð 10 millj. kr. til neyðaraðstoðar og uppbyggingar í kjölfar náttúruhamfaranna í Suðaustur-Asíu af völdum flóðbylgjunnar miklu.

Stjórnvöld styðja jafnframt ýmis frjáls félagasamtök sem láta sig varða málefni og réttindi barna. Undanfarin ár hafa samtökin Barnaheill og ABC Barnahjálp hlotið stuðning, m.a. voru samtökunum Barnaheill veittar 4 millj. kr. árið 2005 til neyðaraðstoðar og uppbyggingar í kjölfar náttúruhamfaranna í Suðaustur-Asíu. Framlög Íslands til alþjóðastofnana eru enn fremur oft nýtt til aðstoðar börnum sérstaklega þótt starfssvið viðkomandi stofnunar sé ekki einskorðað við aðstoð til barna. Sem dæmi má nefna að nýlega styrkti Ísland verkefni á vegum matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna sem felst í því að dreifa skólamáltíðum til barna í Írak. Beinist stuðningur Íslands sérstaklega að stúlkubörnum. Voru veittar 9 millj. kr. til þessa verkefnis.

Þá beinast ýmis verkefni á vegum Þróunarsamvinnustofnunar Íslands einkanlega að stuðningi við börn. Árið 2005 veitir Þróunarsamvinnustofnun Íslands samtals um 950 þús. bandaríkjadali í verkefni sem beinlínis styðja börn. Umdæmisskrifstofur Þróunarsamvinnustofnunar Íslands vinna að uppbyggingu grunnskóla á ýmsum svæðum, stuðningskennslu fyrir börn og fleiri verkefnum þess efnis. Einnig má nefna stuðning Þróunarsamvinnustofnunar Íslands við ABC Barnahjálp árið 2005 sem nemur 80 þús. bandaríkjadölum og aðstoð við munaðarlaus börn í Tógó sem nemur 25 þús. bandaríkjadölum.

Starfsemi Íslands á vettvangi Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu, ÖSE, hefur einnig tekið mið af þessu en á undanförnum árum hafa íslensk stjórnvöld lagt sérstaka áherslu á baráttuna gegn mansali og kynlífsþrælkun kvenna og stúlkubarna. Hafa stjórnvöld, Bosníunefnd, styrkt baráttu ÖSE gegn mansali og kynlífsþrælkun í Bosníu-Hersegóvínu með sérstöku fjárframlagi sem nemur alls 4,5 millj. kr. Að mati Sameinuðu þjóðanna verða allt að 4 milljónir einstaklinga fórnarlömb mansals á hverju ári og er áætlað að allt að 30% þessara fórnarlamba mansals séu börn undir 18 ára aldri. Þessi verkefni eru mikil og fyrir utan það sem við erum að gera í þessum efnum er aðeins rétt að snerta yfirborðið á þessum miklu vandamálum, svo stór sem þau eru.

Ég lít þannig til varðandi seinni spurninguna sem hv. þingmaður nefndi að í raun sé í gildi stefna af hálfu íslenskra stjórnvalda. Við höfum hagað okkur í samræmi við þá stefnumörkun íslenskra stjórnvalda að láta málefni barna sérstaklega til okkar taka á alþjóðavettvangi og höfum beint fjármunum sem hefðu verið eyrnamarkaðir í annað sérstaklega til verkefna sem snúa að börnum. Ég tel að slík stefnumörkun eigi að vera fyrir hendi með þessum hætti. Miðað við spurninguna sem hv. þingmaður nefndi er út af fyrir sig ekkert athugavert við að marka það enn frekar en nú er gert í raun.