131. löggjafarþing — 122. fundur,  4. maí 2005.

Hreinsun stranda og hafnarsvæða af skipsflökum.

752. mál
[12:55]

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Hallvarðsson) (S):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. umhverfisráðherra mjög greinargóð og skelegg svör hvað þetta áhrærir. Það er mikið verk að vinna og ég geri mér alveg grein fyrir því að margt þarf að samræma og skoða áður en hafist er handa. Allt ferlið fram undan og hvað hefur gerst áður en til þessa kom kallar hins vegar á ýmis svör.

Í fyrsta lagi hlýtur að vakna spurning um hvort ekki sé eðlilegt að úreldingargjald sé sett á skip eða að útgerðinni sé gert skylt að sjá svo um að skipið verði annaðhvort tekið í slipp og hoggið upp eða aðrar ráðstafanir gerðar.

Ég minnist þess að í umræðunni sem fór hér fram fyrir ári síðan var mikið um það rætt hvort eðlilegt væri að hreinsa skipin vel að innan með tilliti til mengunar og sökkva þeim á einhverjum ákveðnum tilteknum stað hér við ströndina því þau gætu jafnvel nýst sem uppeldisstöðvar fyrir fisk. Það er kannski mál sem mætti líka huga að.

Hins vegar hlýtur að vakna spurning líka um ábyrgð tryggingafélaga þá skip verður til í fjöru. Hvernig er ábyrgð tryggingafélaganna? Nú reikna ég með að þetta sem nú stendur til af hálfu ráðuneytanna sem vinna hér í samstarfi veki spurningu um á hverja þessi kostnaður eigi að leggjast og hvers vegna. Þetta er mikið umhugsunarefni og auðvitað á ábyrgð útgerðarmanna í sambandi við eyðingu skipa sem þeir eru hættir að nota.

Ég geri mér fulla grein fyrir því að hér er stórmál á ferðinni sem ekki er auðvelt viðureignar. Því verður að fara með gát og það er gott að heyra hjá hæstv. umhverfisráðherra að hér eru varlega sporin stigin.