135. löggjafarþing — 122. fundur,  11. sept. 2008.

nálgunarbann.

294. mál
[17:51]
Hlusta

Frsm. meiri hluta allshn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég skil hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur svo að Vinstri grænir styðji í rauninni frumvarpið með þeim breytingum sem allsherjarnefnd leggur til en vilji ganga lengra. Þar liggi ágreiningurinn. Ágreiningurinn liggur sem sagt í spurningunni um austurrísku leiðina en ekki í öðrum atriðum að svo stöddu alla vega.

Það er mjög gott að það liggur fyrir. Það er gott að hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir hefur veitt athygli ákveðnu misræmi í orðalagi þeirrar breytingartillögu sem hér var dreift. En kannski endurspeglar það að við stöndum öll frammi fyrir þeirri hættu í sambandi við svona lagasetningu að við þurfum að gæta þess að innra samræmi sé í því sem við erum að samþykkja og gera. Við þurfum að passa okkur að stíga ekki skref sem geta verið í ósamræmi við einhverjar aðrar reglur eins og hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson benti á hér í sambandi við hugsanlegar afleiðingar þess að samþykkt yrði að færa ákvörðunarvaldið í nálgunarbannsmálum til lögreglu án þess að gera aðrar breytingar sem hugsanlega þurfa að koma til skoðunar í því samhengi.

En það er alla vega frá. Við erum þá í öllum meginatriðum sammála um það sem við erum að gera varðandi nálgunarbannið að svo stöddu. Við erum sammála um það líka að skoða að fara í frekari skoðun á því hvort úrskurðarheimildin eigi að vera hjá lögreglu eða dómstólum. En enn standa eftir þessar spurningar varðandi austurrísku leiðina. Hver sem afstaða okkar er til þess hvað gerðist í allsherjarnefnd á síðasta kjörtímabili þá held ég að það sé mjög mikilvægt að af hálfu þeirrar nefndar sem nú situr er komin fram brýning til dómsmálaráðuneytisins að láta fara fram skoðun á þessum málum. Ég tel að slík áminning af hálfu núverandi allsherjarnefndar sé mjög mikilvæg. Miðað við það sem (Forseti hringir.) fram kom á fundum nefndarinnar þá held ég að ekkert sé því til fyrirstöðu (Forseti hringir.) hjá dómsmálaráðuneytinu að ráðast (Forseti hringir.) í þá skoðun sem hér er um að ræða.