138. löggjafarþing — 122. fundur,  12. maí 2010.

kynjuð hagstjórn.

418. mál
[15:12]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Það er full ástæða til að fagna því að nú verði farið í tilraunaverkefni í öllum ráðuneytum um kynjaða fjárlagagerð fyrir næsta ár. Ég held að við verðum að horfast í augu við það að innleiðing kynjaðrar fjárlagagerðar tekur tíma og ár, eins og hæstv. fjármálaráðherra tók fram. Það skiptir mjög miklu máli að fólk kunni til verka og það noti réttu vinnubrögðin við þetta eins og annað og misskilji ekki tilgang aðgerðarinnar.

Fyrst ég er komin hingað upp vil ég líka minnast þess að það eru líklega 25 ár, eða um aldarfjórðungur, frá því fyrst var farið að tala um kynjaða fjárlagagerð í þessum sal. Það voru að sjálfsögðu þingkonur Samtaka um kvennalista sem gerðu það. Það er auðvitað grundvöllur femínisma og kvenfrelsissamfélags að alltaf sé tekið tillit til ólíkrar stöðu kynjanna í samfélagi sem þó kennir sig við jafnrétti.