138. löggjafarþing — 122. fundur,  12. maí 2010.

samningsmarkmið varðandi landbúnað í viðræðum við Evrópusambandið.

565. mál
[15:51]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég get svarað því alveg klárt að ég er ekki reiðubúinn að falla frá þeim fyrirvörum sem settir eru, bæði af hálfu Bændasamtakanna og af hálfu Alþingis. Þeir hafa verið rauður þráður eins og málið var lagt upp.

Hitt er alveg rétt að það var Alþingi sem samþykkti að hefja þessar aðildarviðræður. Ég greiddi atkvæði gegn því. Það var samþykkt með meiri hluta atkvæða. Það er alveg ljóst að af hálfu Vinstri grænna liggur það fyrir að flokkurinn er ekki samþykkur því að vera aðili að Evrópusambandinu. (Gripið fram í.) Það liggur líka fyrir. Það liggur líka fyrir að eins og kemur fram í nefndarálitinu, og nú er ég að vísa orðrétt til þess, frú forseti:

„Nefndin hefur ítarlega fjallað um þá meginhagsmuni sem stjórnvöldum ber að hafa að leiðarljósi í aðildarviðræðum við ESB“ — sem ég var að telja upp að framan. „Mat meiri hlutans er að það sé fullnægjandi veganesti fyrir stjórnvöld og að tiltekin skilyrði í umboði ríkisstjórnarinnar muni ekki skila neinu umfram það. Á hinn bóginn leggur meiri hlutinn áherslu á að ríkisstjórnin fylgi þeim leiðbeiningum sem gefnar eru með áliti þessu um þá grundvallarhagsmuni sem um er að ræða. Að mati meiri hlutans verður ekki vikið frá þeim hagsmunum án undanfarandi umræðu á Alþingi.“

Ég starfa sem ráðherra samkvæmt meirihlutavilja Alþingis en það er mitt mat að verði vikið frá þeim grundvallarhagsmunum sem þarna eru tilgreindir þá eigi sú umræða að koma inn á Alþingi.

Það er alveg ljóst, úr því að hér var minnst á sameiningu ráðuneyta, að innan landbúnaðar og sjávarútvegs er mest andstaða við þessar aðildarviðræður og það hefur legið fyrir í fjölda ályktana og liggur alveg fast fyrir. Það liggur líka ljóst fyrir að ég greiddi atkvæði gegn því að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Afstaða þessara aðila liggur fullkomlega ljós fyrir. Ég vinn hins vegar sem ráðherra í ráðuneyti mínu samkvæmt (Forseti hringir.) vilja þingsins en skoðun mín á þessu máli er fullkomlega ljós. (Gripið fram í.)