138. löggjafarþing — 122. fundur,  12. maí 2010.

fundarstjórn.

[15:53]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég fann að því áðan að spurningum mínum var ekki svarað við fyrri umferð þessa máls. Ég hafði ekki möguleika á að bregðast við því sem fram kom síðar í máli hæstv. ráðherra sem skýrði þó málið nokkuð. Hæstv. ráðherra sagði nefnilega að hann væri ekki tilbúinn til að falla frá þeim fyrirvörum sem utanríkismálanefnd og Bændasamtökin hefðu gert varðandi landbúnaðarmálin. Þetta er ákaflega mikilvæg yfirlýsing og ástæða til að undirstrika hana. Hún kemur frá hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Fyrirvararnir, til að mynda þeir sem Bændasamtökin gerðu, eru mjög skýrir og afdráttarlausir. Þeir eru í samræmi við það sem ég var að fiska eftir með spurningunum sem ég lagði fram áðan.

Það var síðan mjög athyglisvert að hæstv. ráðherra kaus að vekja athygli á því að uppi væru áform um, að kröfu samstarfsflokks hans í ríkisstjórninni, að breyta uppbyggingu stjórnkerfisins, leggja sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið niður í núverandi mynd. Hann tengdi þetta líka Evrópusambandsaðildinni og umsókninni og það var mjög athyglisvert að það var gert.