139. löggjafarþing — 122. fundur,  11. maí 2011.

stuðningur ríkisins til starfsendurhæfingar.

587. mál
[15:32]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka þessa umræðu. Það er ástæða til að halda því til haga að þær 319 milljónir sem eru á fjárlögum í ár eru í raun hærri upphæð en hefur verið á undanförnum árum, en vegna þess að vöxturinn hefur verið meiri en aukning fjárveitinga og við höfum dregið saman peninga af öðrum liðum til að halda úti starfsendurhæfingunni dugir það því miður ekki til að halda henni út árið öðruvísi en halda áfram að finna peninga frá öðrum aðilum. Við höfum horft til ákveðinna lausna í sambandi við það og erum í samstarfi við starfsendurhæfinguna á mismunandi landsvæðum, m.a. Austurlandi. Þeim er kunnugt um hver staðan er og vita að þetta er í skoðun. Það er mjög erfitt að búa til einhverja sérstaka starfsendurhæfingarstöð óháð því hver þörfin er og hversu mikið verið er að sækja slíkt. Við þurfum því einhvern veginn að skilgreina grunn sem tryggir það að þjónustan sé til staðar á öllum svæðum en síðan þurfum við að geta tekið á með einhverjum hætti þegar eftirspurnin eykst eða minnkar, því að auðvitað er ekki hugmyndin sú að við rekum stöðvarnar óháð því hver þörfin er.

Mjög mikilvægt er að við náum samstarfi við aðila vinnumarkaðarins og slíka aðila í sambandi við þá starfstengdu endurhæfingu sem hefur verið í gangi og um fjármögnun á þessu í heildinni og langtímasýn. Þar eru meginmarkmiðin þau að grípa fljótt inn í, koma fljótt til móts við þá sem detta út af vinnumarkaði vegna slysa eða einhverra áfalla og að þeim sé hjálpað þannig að þeir komist sem fyrst aftur út í atvinnulífið. Ég held að þar geti atvinnulífið hjálpað okkur mjög varðandi þetta atriði.

Þess verður líka að gæta að mikið af þessari þjónustu er komið út í ólíkar stöðvar sem eru reknar af ákveðnum aðilum og það er auðvitað ekki heldur markmiðið að þær lifi í sjálfum sér. Það verður að tryggja að þar séu ákveðin gæði, árangur og eftirlit og við þurfum að ná utan um þetta í heild. Unnið er frábært starf á mjög mörgum stöðum, bæði af félögum, einstaklingum og opinberum stofnunum. Reynt verður að ná utan um þetta með þeirri stefnumótun sem á sér stað í sumar og (Forseti hringir.) fram á haustið þannig að við getum nálgast þetta heildstætt.