139. löggjafarþing — 122. fundur,  11. maí 2011.

uppbygging Vestfjarðavegar.

743. mál
[15:35]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Engum blöðum er um það að fletta að ástandið á Vestfjarðavegi 60 er gjörsamlega óþolandi. Hæstv. innanríkisráðherra hefur margoft lýst því yfir, m.a. úr ræðustóli Alþingis, að uppbygging vegar á þessu svæði verði að hafa algjöran forgang. Ég tek undir það og fagna þessum yfirlýsingum hæstv. ráðherra.

Núna er staðan svona: Vegagerð er lokið frá Vatnsfirði í Kjálkafjörð. Henni lauk síðastliðið haust. Fyrst núna hálfu ári síðar er hins vegar verið að hefjast handa við vegagerð um Skálanes. Síðan ríkir algjör óvissa um framhaldið. Vonast er til þess að það geti orðið síðla hausts að vegaframkvæmdir hefjist eða útboð geti átt sér stað á veginum frá Eiði við Vattarfjörð með þverunum yfir Mjóafjörð og Kjálkafjörð að Þverá í Kjálkafirði. Þetta er hins vegar enn þá í óvissu. Þegar óvissu hefur verið eytt um þennan þátt málsins er enn þá ósvarað þeirri stóru spurningu hvernig við ætlum að standa að vegagerð um Gufudalssveitina gömlu, þ.e. frá Þorskafirði að Skálanesi.

Það liggur fyrir frumvarp frá mér og hv. þingmönnum Ásbirni Óttarssyni og Gunnari Braga Sveinssyni um að fara þá leið sem hæstv. þáverandi umhverfisráðherra heimilaði með úrskurði sínum í ársbyrjun 2007. Hins vegar er ljóst að um þetta mál eru deildar meiningar, m.a. innan þingsins.

Nú stendur svo á að í haust verður lögð fram ný samgönguáætlun til fjögurra ára. Það er alveg ljóst a.m.k. þá og fyrir þann tíma verður að liggja fyrir mjög skýr stefnumörkun frá samgönguyfirvöldum um það hvernig standa eigi að málum varðandi uppbyggingu vegarins úr Þorskafirði í Skálanes. Þessi mál hafa verið í mikilli óvissu alveg frá því að kveðinn var upp hæstaréttardómur 22. október árið 2009 sem felldi úr gildi úrskurð umhverfisráðherra og setti málið þar með í fullkomið uppnám. Þessi mál hafa mjög mikið verið rædd á vettvangi heimamanna og það fer ekkert á milli mála að það er skoðun sveitarstjórnarmanna, hefur komið fram í áliti Fjórðungssambands Vestfirðinga, í samþykktum Ísafjarðarbæjar, Bolungarvíkurkaupstaðar, Vesturbyggðar og Tálknafjarðarhrepps, að vilji manna stendur til þess að leiðin þarna sé farin um láglendið og verði ekki farin yfir hálsana Ódrjúgsháls og Fjallaháls. Það liggur fyrir af hálfu heimamanna.

Hæstv. innanríkisráðherra hefur talað fyrir því að settur yrði á laggirnar sérstakur samráðsvettvangur heimamanna og samgönguyfirvalda til að fara yfir þessi mál. Væri fróðlegt að vita hvort sá samráðsvettvangur hefði verið skipaður, hvenær hann hefji störf eða hvenær hann byrji sína vinnu og hvenær henni verði lokið.

Kjarni málsins er þessi: Það þarf að liggja fyrir stefna. Ég hef mjög skýrar skoðanir í þessum efnum en það er ekki nóg. (Forseti hringir.) Af hálfu samgönguyfirvalda þarf að liggja fyrir mjög skýr stefnumótun í þessum efnum. Sú stefnumótun verður að koma fram í þeirri tillögu til þingsályktunar (Forseti hringir.) um nýja samgönguáætlun sem lögð verður fyrir þingið í haust.