140. löggjafarþing — 122. fundur,  15. júní 2012.

störf þingsins.

[10:31]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Forseti. Undir dagskrárliðnum störf þingsins fyrir tveimur dögum rifjaði ég upp að í vikubyrjun hefði nánast verið búið að ná samkomulagi um hvernig ljúka ætti þingstörfum. Það samkomulag byggði á því að allir gæfu eitthvað eftir og við ynnum þetta í hinum norræna samvinnustjórnmálaanda sem þingmenn eru að reyna að tileinka sér. Nú hefur soðið upp úr á nýjan leik. Mig langar því að hvetja hv. stjórnarliða og forustumenn ríkisstjórnarinnar — sem sumir hverjir hafa setið á þingi svo áratugum skiptir, 20–30 ár, og hafa jafnvel í gegnum tíðina tilteinkað sér þau vinnubrögð að fara fremur áfram á hnefanum en að vinna sameiginlega að málum í hinum norræna anda — til að vinna þetta á þennan samvinnuhátt eins og hin norrænu samvinnustjórnmál eru, koma út úr þeim aldagamla heimi sem hæstv. forsætisráðherra talaði um fyrir nokkrum vikum síðan, að væri fullkomlega eðlilegt að þingið afgreiddi mál á færibandi á síðustu dögum og vikum þingsins. Þetta eru stjórnmál sem við eigum að hverfa frá og ég vil enn og aftur hvetja forustumenn ríkisstjórnarinnar og hv. stjórnarliða til að koma inn í nýja Ísland sem á ekki að byggja á þessum gömlu vinnubrögðum.