140. löggjafarþing — 122. fundur,  15. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[11:40]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég fagna því sem hv. þingmaður segir um afstöðu til innihalds þessa máls hvað varðar viðbrögðin við athugasemdum ESA.

Hv. þingmaður nefndi og ég tek undir með honum að það er mjög mikilvægt að Íbúðalánasjóður starfi áfram og hann starfi áfram á samkeppnismarkaði, ekki síst vegna þeirrar stöðu sem er á lánveitingum til húsnæðiskaupa úti um land með sparisjóðakerfið svo laskað eins og það því miður er. Það er mjög mikilvægt.

Frú forseti. Verði þetta mál ekki afgreitt hér og gert að lögum fyrir mánaðamótin óttast ég að við munum fá harðan áfellisdóm og kæru frá ESA og þá verðum við því miður í mjög vondum málum. Það er ekki víst að við næðum sömu stöðu og hér hefur náðst eftir að búið væri að dæma okkur fyrir samkeppnisbrot og markaðsbrot. Þetta þekkir hv. þingmaður.

Ég tel því mikilvægt að við nýtum nú tækifærið, ég tala nú ekki um þeir sem hér eru inni og styðja Íbúðalánasjóð og vilja hafa hann áfram í því hlutverki sem hér er lagt upp með, og tökum höndum saman og klárum málið núna, eyðum ekki öðrum sex og hálfum tíma í að ræða það.

Hvað varðar afstöðu Samfylkingarinnar er ég ein fulltrúi Vinstri grænna í meiri hluta í hv. velferðarnefnd. Ég er þar með fjórum þingmönnum Samfylkingarinnar í meiri hluta. Engar athugasemdir hafa verið á þeim bæ gagnvart hlutverki sjóðsins heldur þvert á móti fjallaði hv. framsögumaður þessa máls, hv. þm. Lúðvík Geirsson, ítarlega um það við 2. umr. og hefur fylgst hér með öllum umræðunum þangað til akkúrat núna í 3. umr. Ég hef ekki orðið vör við annað en að Samfylkingin standi heils hugar að baki þeim viðbrögðum og þeim nýja Íbúðalánasjóði sem hér er. Það er verið að (Forseti hringir.) taka á hæfisskilyrðum, upplýsingaskyldu, þagnarskyldu og öðru slíku sem er mjög mikilvægt (Forseti hringir.) til viðbótar við það sem brugðist er við að öðru leyti.