140. löggjafarþing — 122. fundur,  15. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[14:25]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef þetta verður að veruleika gætum við upplifað að horfið yrði til gamalla tíma, ef maður gerist nú dálítið grófur í samanburði. Það hefur líklega verið á milli 1980 og 1990 — sumir þingmenn hér inni sem hafa verið í sveitarstjórnum lengi kannast kannski við það — þegar eingöngu var boðið upp á teikningar frá Húsnæðismálastofnun ríkisins af einhvers konar pakkahúsum sem allir áttu að byggja hringinn í kringum landið, það voru bara gefnar upp ákveðnar stærðir.

Þetta ákvæði sem hv. þingmaður benti á er það sem ég hef verið að deila á í þessum umræðum. Ég sagði áðan og ítreka það að mér finnst frekar hóflega reynt að bregðast við athugasemdum Eftirlitsstofnunarinnar. En þarna finnst mér hins vegar vera heldur langt gengið, því að það er alveg rétt sem hv. þingmaður bendir á að það að byggja 150 fermetra hús kostar væntanlega í kringum 45–55 milljónir, það er bara þannig, byggingarkostnaðurinn er svo hár. Svo ég segi það nú bara, fyrir mína fjölskyldu dugar slíkt hús ekki. Ég yrði væntanlega annaðhvort að þröngva öllum í kojur eða flytja til Reykjavíkur til að fá húsnæðislán.

Þetta er að sjálfsögðu umhverfi sem gengur ekki upp og þarf að endurskoða eða að minnsta kosti, ef þetta verður lögfest óbreytt á þessu þingi, þarf að taka það mjög fljótt upp og leita leiða til að breyta því. Það er ekki hægt að láta stóran hluta landsins búa við það að vera settar þessar skorður. Það er vitanlega þannig að úti um allt land er fólk sem vel getur staðið í skilum og greitt af húsnæði sem er meira virði miðað við fasteignamat en nemur þessari tölu hér.

Ég er því ekki hrifinn af þessu og vildi sjá þessu breytt með einhverjum hætti, því að myndin sem hv. þingmaður dró upp er í rauninni afturhvarf til fortíðar sem er ekki góð hugmynd.