149. löggjafarþing — 122. fundur,  13. júní 2019.

fiskeldi.

647. mál
[13:36]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni fyrir andsvarið. Ég hef ekki kynnt mér þessar mótvægisaðgerðir til hlítar en ég myndi styðja allar aðgerðir sem leiða til þess að hættan á því að eldisfiskur fari upp í ána verði lágmörkuð eins og hægt er. Mér skilst að Norðmenn séu með kafara til að fylgjast með þessu. Hugsanlega segir það okkur einhverja sögu um að mikill fiskur sé á leiðinni upp, það er einhver tilfinning ef kafara þarf til að aðstoða.

Svo er það í sambandi við villta laxa. Villtir fiskar eru þeir sem hafa alist upp í ánum og eru þar bara frá upphafi. En ég veit að notað hefur verið klak úr laxi úr nálægri á þannig að þá erum við eiginlega með villtan stofn. Það er tekið úr villtum stofni og hann settur yfir í aðra á. Það hlýtur að vera skásta leiðin; þá erum við með lax sem hefur alltaf verið í nærumhverfinu og ég myndi segja að það væri langbest. Svo veit ég líka að stórsleppingar hafa verið í ár og maður veit ekkert hvaða lax verið var að setja þar í. Ég er ekki sáttur við það vegna þess að maður veit ekki hvaða áhrif það hefur.