149. löggjafarþing — 122. fundur,  13. júní 2019.

fiskveiðar utan lögsögu Íslands.

776. mál
[15:57]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Burt séð frá hugsanlegu meintu vanhæfi dómara í því máli sem hér er vísað í í þessu frumvarpi þá lagði sá dómur ekki efnislega upp í hendurnar á ráðherra eða löggjafanum hvernig ætti að fara með útdeilingu á makríl eða þessari uppsjávartegund. Það var ekki niðurstaða dómsins að vísað væri til þess, heldur að það ætti að byggja á lögum en ekki reglugerð. Í framhaldi af því var skipaður starfshópur sem benti á nokkrar leiðir sem hægt væri að fara. En á endanum er það löggjafinn hverju sinni sem ákveður hvernig fiskveiðiheimildum er úthlutað. Það er löggjafans. Ég vona að hv. þingmaður sé sammála mér um það.

Við getum deilt um það, ef við ætlum að breyta núverandi fiskveiðikerfi, hvað það tæki langan tíma til þess að sýna meðalhóf og horfa til þess hve lengi eitthvert kerfi hefur verið við lýði, en löggjafinn getur sem slíkur ákveðið með lögum hvernig hann ráðstafar auðlindum okkar í landinu. Svo að ég tel að við séum með fast land undir fótum. Við erum að setja lög sem hafa vissulega verið rýnd af hinum ýmsu lögfræðingum. Ég tel að ekkert sem kemur því máli við að viðkomandi sé hugsanlega vanhæfur varðandi þetta mál komi í veg fyrir það að löggjafinn, burt séð frá þessari niðurstöðu, ákveði að ráðstafa þessum aflaheimildum byggt á lögum en ekki reglugerðum eins og hingað til hefur verið. Með lögum skal land byggja.