149. löggjafarþing — 122. fundur,  13. júní 2019.

sameining Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins.

765. mál
[20:48]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Við ræðum frumvarp til laga um Seðlabanka Íslands og einnig á sama tíma frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna sameiningar Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins.

Ég ætla að lesa úr tveimur, þremur umsögnum sem bárust vegna frumvarpsins um lög um Seðlabankann en áður en að því kemur ætla ég að fara örlítið yfir markmiðin. Markmiðið með þessum breytingum er auðvitað að sameina í eina stofnun þessar tvær stofnanir, Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitið núverandi, en ekki verði breytingar á þeim verkefnum sem eru á ábyrgð þessara tveggja stofnana eftir núgildandi lögum.

Breytingarnar lúta einkum að sameiningu verkefna hjá einni stofnun og breyttri stjórnskipan og fyrirkomulagi í ákvarðanatöku, ekki síst í ljósi aukins vægis þjóðhagsvarúðar. Markmiðið er m.a. að auka skýrleika ábyrgðar og bæta stjórnsýslu, skilvirkni við ákvarðanatöku og notkun upplýsinga og auka þannig möguleika á auknum gæðum greiningar og yfirsýnar svo úr verði, sem er meginmarkmið breytinganna, öflug eftirlitsstofnun.

Það eru ýmsir varnaglar slegnir við þetta í umsögnum ýmissa aðila og ætla ég að byrja á að lesa örlítið upp úr umsögn Samtaka atvinnulífsins þar sem þeir leggja megináherslu á aukna hagræðingu sem fæst með þessari sameiningu. Þeir ræða fjármálaáfallið 2008 og vandamál við að tryggja efnahagslegan stöðugleika í framhaldi af því og segja síðan, með leyfi forseta:

„Frá þeim tíma hefur áhersla einnig beinst að fjármálastöðugleika og viðnámsþrótti fjármálakerfisins í heild, svokallaðri þjóðhagsvarúð. Innleiðing og markviss beiting tækja sem taka á útlánaþenslu, þensluaukandi þáttum almennt og kerfislægum veikleika fjármálakerfisins er vitnisburður um það. Vegna smæðar íslenska hagkerfisins er þjóðhagsvarúð sérstaklega mikilvæg þar sem beiting slíkra varúðartækja styrkir peningastefnuna og hefur áhrif á skuldsetningu heimila og fyrirtækja.“

Síðan segja þeir:

„Fyrirhuguð sameining Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins er því nauðsynlegt skref, að mati Samtaka atvinnulífsins (SA), og mikilvægur liður í því að festa fjármálastöðugleika í sessi sem eina af grunnstoðum efnahagslegs stöðugleika. SA vilja þó gera nokkrar athugasemdir.“

Og svo koma þær. Ég ætla nú ekki að lesa þær upp í heilu lagi en með leyfi forseta koma við á nokkrum stöðum. Samtök atvinnulífsins telja „mikilvægt að öll stjórntæki þjóðhags- og eindarvarúðar eigi að vera í höndum fjármálastöðugleikanefndar“ og ræða það töluvert. Þeir hvetja einnig stjórnvöld til að horfa til þeirra tækifæra sem skapast til hagræðingar við sameiningu stofnananna tveggja en ein af ástæðunum fyrir sameiningunni er það óhagræði sem skapast við núverandi fyrirkomulag. Síðan segja þeir og leggja áherslu á að ekki sé „vegið að getu Seðlabankans til að ná lögbundnum markmiðum sínum og að staðinn sé vörður um pólitískt sjálfstæði“ hinnar nýju stofnunar.

Þeir segja síðan, með leyfi forseta:

„SA hvetja til þess að fyrirhugaðar breytingar á lögum um fasteignalán til neytenda og lögum um gjaldeyrismál verði endurskoðaðar. Í frumvarpinu er kveðið á um að Seðlabankanum sé heimilt að ákveða reglur, að fengnu samþykki ráðherra, er varða hámark veðsetningarhlutfalls fasteignalána, hámark heildarfjárhæða fasteignalána eða greiðslubyrðar í hlutfalli við tekjur neytenda, og um útlán tengd erlendum gjaldmiðlum til aðila sem ekki eru varðir fyrir gjaldeyrisáhættu. Reglusetning af þessu tagi, sem meðal annars getur haft áhrif á aðgengi einstaklinga að lánsfé, kann að vera nauðsynleg við ákveðin skilyrði til að viðhalda fjármálastöðugleika en getur reynst óvinsæl meðal almennings og þannig sett ráðherra í afar erfiða stöðu sem lýðræðislega kjörnum embættismanni.“

Síðan segja þeir, með leyfi forseta:

„SA telja mikilvægt að ekki verði dregið úr getu Seðlabankans til að sinna hlutverki sínu varðandi verðstöðugleika í fyrirhugaðri sameiningu.“

Og síðar:

„Nægir að líta til þeirra atburða sem leitt hafa af gjaldeyriseftirliti Seðlabankans og þeirrar umfjöllunar sem hefur skapast. Slíkir orðsporshnekkir geta orðið til þess að grafa undan Seðlabankanum og þar með trúverðugleika og virkni peningastefnunnar. Þá hefur „tveggja turna“ fyrirkomulag fjármálaeftirlits t.a.m. reynst vel í Bretlandi en einnig hefur reynsla annarra ríkja sýnt að framkvæmd markaðs- og neytendaverndar fari illa saman við framkvæmd þjóðhagsvarúðar.“

Loks, með leyfi forseta:

„SA taka undir sjónarmið Kauphallarinnar um að það sé óeðlilegt að Seðlabankinn, sem virkur þátttakandi á verðbréfa- og gjaldeyrismarkaði, fari með eftirlit á sömu mörkuðum. Hver á að hafa eftirlit með eftirlitsaðilum?“ spyrja þeir loks.

Síðar, með leyfi forseta:

„SA telja að nauðsynlegt að bregðast við viðbótarvaldi og aukinni ábyrgð Seðlabankans við sameininguna. Nauðsynlegt er að styrkja og endurskoða bæði ábyrgðar- og stjórnunarferli innan bankans til að tryggja viðunandi dreifingu valds.“

Loks segja þeir, með leyfi forseta:

„Þá hefur sagan sýnt að útgjöld ríkisins hafa tilhneigingu til að aukast við sameiningu stofnana. Brýnt er að koma í veg fyrir það, en hagræðingu verður aðeins náð fram með fækkun starfsmanna.“

Ég vil í tilefni af þessum orðum ítreka það sem ég hef stundum sagt að mikilvægt sé í slíkum tilvikum að vinna með starfsmönnum og í sátt við þá til að finna lausnir á vandamálunum sem slíkum þegar verið er að sameina stofnanir og hugsanlega fækka starfsmönnum og bjóða starfsmönnum upp á, um leið, viðunandi tækifæri, eftir atvikum annars staðar, og reyna að vinna það í sátt.

Í umsögn Fjármálaeftirlitsins ætlaði ég að vitna örlítið, með leyfi forseta:

„Með hliðsjón af framangreindu er að vissu leyti óheppilegt að Lánamál ríkisins og sú eining sem hefur eftirlit með verðbréfamarkaði séu innan sömu stofnunar. Líkt og fram kemur í umsögn Fjármálaeftirlitsins við fram komin frumvörp um sameiningu stofnananna leggur Fjármálaeftirlitið því áherslu á að gerðar verði viðeigandi ráðstafanir í skipulagi og starfsreglum hinnar sameinuðu stofnunar til að takmarka áhættu og girða fyrir hagsmunaárekstra sem af þessu geta hlotist.“

Nefna þeir nokkur dæmi um það.

Í umsögn Kauphallarinnar — og tími minn er nú kominn svo langt að ég ætla að reyna að velja úr því sem ég var búinn að merkja sérstaklega við varðandi það sem þeir segja í viðbótarumsögn sinni. Með leyfi forseta:

„Rökin fyrir sameiningu þjóðhagsvarúðar og eindarvarúðar eru sérstaklega sterk hér á landi þar sem einungis þrír viðskiptabankar eru stór hluti bankakerfisins í heild. Þessi breyting er einnig í samræmi við meðmæli í ýmsum öðrum skýrslum sérfræðinga sem unnar hafa verið á undanförnum árum og fjallað er um í greinargerð með frumvarpinu.“

Þeir fara yfir þetta í mörgum liðum og segja hér t.d, með leyfi forseta.:

„Í öðru lagi er Seðlabankinn gríðarlega valdamikil stofnun og ekki er æskilegt að ganga lengra í samþjöppun valds ef ekki eru fyrir því ríkar ástæður. Ljóst er að hætturnar af slíkri samþjöppun valds eru miklar. Ef vel á að vera kallar sú hætta á alls kyns varnagla og ítarlega ferla til að halda aftur af valdinu og tryggja góða stjórnarhætti og verður þó aldrei jafn gott og ef valdinu er dreift.“

Vil ég taka undir þessi sjónarmið. En loks hér á mínum síðustu sekúndum vil ég ítreka það sem ég sagði í fyrri ræðu minni: Ég held að það sé skynsamlegast að fresta samþykkt þessara frumvarpa um sinn svo að ráðrúm gefist til að huga nánar ýmsum álitamálum sem enn er ósvarað vegna ábendinga úr mörgum áttum eins og t.d. hvað varðar viðskiptaháttaeftirlit.