149. löggjafarþing — 122. fundur,  13. júní 2019.

sameining Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins.

765. mál
[21:48]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Mig langar í þessari ræðu að drepa á nokkur atriði sem mér tókst ekki tímans vegna að fara yfir í fyrri ræðu minni um þetta mál. Ég orðaði það reyndar þannig þá að það hefðu verið mér vonbrigði að menn skyldu ekki vera djarfari í hugsun en svo að vilja halda hér áfram. Það kemur fram í greinargerðinni á bls. 17 að markmið með vinnu ráðherranefndarinnar hafi verið, með leyfi forseta, „að viðhalda verðbólgumarkmiði sem meginmarkmiði peningastefnunnar og sjálfstæði Seðlabankans og peningastefnunefndar hans til að beita stjórntækjum til að ná því en gera viðeigandi breytingar til að efla traust og auka gagnsæi“.

Bara það að viðhalda verðbólgumarkmiðinu sem nánast eina stjórntæki bankans er að mínu mati ekki það sem þurfti að gera akkúrat á þessum tíma. Það hefði miklu frekar átt að leggja megináherslu á önnur atriði sem hefðu getað gert Seðlabankanum kleift að ná markmiðum sínum, að ríghalda ekki bara í verðbólgumarkmið heldur horfa til annarra þátta líka.

Það hefur ekki verið þannig, a.m.k. ekki undanfarin ár, að Seðlabanki Íslands hafi beitt bindiskyldu eins og maður hefði haldið að hægt væri að gera. Bankarnir hafa í sjálfu sér leikið lausum hala, ef við getum orðað það þannig, og maður hefur ekki tekið eftir neinum áþreifanlegum vilja hjá Seðlabankanum til að reyna að hafa taumhald á þeim. Það vita allir sem vita vilja hvernig hagur bankanna hefur vænkast frá hruni á kostnað heimila og fyrirtækja þessa lands. Það vita líka allir sem vita vilja að peningastefna og vaxtastig á Íslandi eins og það er núna hefur fyrst og síðast komið í veg fyrir að ungt fólk sem hefur haslað sér völl erlendis og lært þar rati hingað aftur.

Það er skiljanlegt vegna þess að nú hafa menn talað um að vextir á Íslandi séu í lágmarki. Víst er að lífeyrissjóðir hafa lánað til íbúðakaupa með væntanlega í kringum 3% vöxtum, ef ég man rétt, jafnvel aðeins undir því, plús verðtryggingu, nota bene. Eins og málin horfa við núna losar verðbólga á Íslandi 3%. Í nágrannalöndunum kaupir þetta sama fólk hús og íbúðir með vöxtum sem eru að hámarki 2,5–3% en án verðtryggingar. Ef við bætum ofan á það að húsnæði sem byggt hefur verið undanfarið, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu, er ekki vænlegt húsnæði til t.d. fyrstu kaupa sjáum við að þessar samverkandi ástæður verða til þess að við fáum því miður ekki heim aftur vel menntað fólk sem hefur verið í framhaldsnámi erlendis. Þetta er bara einn hluti þeirra áhrifa sem sú gegndarlausa hávaxtastefna sem hér hefur verið rekin hefur á íslenskt þjóðlíf.

Hún pínir líka smáfyrirtæki. Þegar vextir eru með þeim hætti sem þeir eru hér eiga lítil fyrirtæki og meðalstór ekki annars kost en að hella áhrifunum af þessum háu vöxtum út í verðlagið á vörum sínum og þjónustu. Það veldur því að verðbólga eykst sem veldur því að lánin okkar hækka sem veldur því að verðbólgan eykst enn þá meira. Ríkisstjórnin er búin að lofa því að taka húsnæðishlutann út úr verðtryggingunni í sambandi við kjarasamninga sem voru undirritaðir í vor en það sér náttúrlega ekkert framan í að það eigi að fara að gera það. Þessi verðtrygging er það afl sem er fyrst og fremst að kyrkja almenning og fyrirtæki, sérstaklega smá og meðalstór, sem eru undirstaða vaxtar í þjóðfélaginu, í öllum þjóðfélögum. Undirstaða atvinnu í öllum þjóðfélögum er lítil og meðalstór fyrirtæki og hér er verið að kyrkja þau með hávaxtastefnu.

Afburðafólk sat í ráðherranefndinni til að undirbúa þetta mál, afburðafólk á sínu sviði, og þess vegna eru það svo mikil vonbrigði, eins og ég segi, að markmiðið er kolrangt. Það er alveg gríðarlega sorglegt að þetta skuli vera með þessum hætti og að við skulum ekki bera gæfu til og nota tækifærið þegar verið er að taka upp lögin um Seðlabanka Íslands í heilu lagi til að höggva að rótum meinsemdarinnar.

Það er ekkert útlit fyrir annað en að við sitjum áfram uppi með það að hér hafi hæstu stýrivextir í Evrópu verið lækkaðir um 0,5% um daginn, bara of lítið og of seint, allt of lítið og allt of seint. Ég segi aftur eins og ég sagði í fyrri ræðu minni: Þessir stýrivextir áttu að fara niður um 2% í einum rykk árið 2015. Eftir þessa lækkun eru vextirnir væntanlega á svipuðum stað og þeir voru áður en hækkunarhrinan hófst. Hún hófst árið 2015, sem aldrei skyldi verið hafa. Það voru algjör hagstjórnarmistök.

Á þetta hafa margir málsmetandi menn bent, dr. Ólafur Margeirsson, Marinó G. Njálsson og fleiri, afburðamenn, yfirburðamenn, en það er ekki hlustað á þá. Og að sjálfsögðu er ekki hlustað á einn alþingismann sem heldur sömu ræðuna fjórum sinnum á ári eða oftar um þetta mál, því miður.

Eins og ég segi eru þetta stóru vonbrigðin í þessum málum. Þetta plús það sem ég sagði áðan, að sameina Fjármálaeftirlitið Seðlabankanum í trássi við varnaðarorð frá manni eins og Gylfa Zoëga, eru ekki góð vinnubrögð.

Ég þori að fullyrða að ekki líður langur tími, verði þessi mál samþykkt í þessu fljótræði, þar til að við þurfum að taka þau upp að einhverju leyti, annaðhvort að litlu eða stóru leyti. Þessi peningastefna er búin að vera í gildi á Íslandi síðan 1995 og það vita allir sem vilja vita og það sjá allir sem vilja sjá að hún hefur ekki gengið upp, ekki fyrir neinn, og samt halda menn áfram.

Það er vont að hvorki ráðherra né formaður efnahags- og viðskiptanefndar skuli vera hér en ég verð eiginlega að spyrja: Var það að viðhalda verðbólgumarkmiði eftir forskrift frá ráðherra? Er það ráðherrann sem sagði að þetta væri markmiðið og að menn skyldu vinna eftir því? Eða er þetta eitthvað sem sérfræðinganefndin ákvað sjálf, að markmiðið skyldi vera óbreytt peningastefna, verðbólgumarkmið hvað sem á dynur?

Þetta er alveg svakalega dapurlegt.

Það er þess vegna sem ég og við fleiri teljum að það beri að fresta atkvæðagreiðslu um þetta mál, að það beri að taka þessi mál til skoðunar aftur til að sjá hvort ekki sé hægt að nýta tímann til að fá fram hagfelldari og djarfari niðurstöðu sem gæti orðið til þess að leysa þau vandamál sem núverandi peningastefna, hávaxtastefnan, hefur haft í för með sér fyrir fólk og fyrirtæki.