150. löggjafarþing — 122. fundur,  22. júní 2020.

samgönguáætlun.

[11:19]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Við erum sem betur fer með núgildandi samgönguáætlun og þar af leiðandi eru þar verk sem við erum, í vinnunni við þá samgönguáætlun sem við erum með umræðu um hér í þinginu, að gera nokkrar breytingar á, eins og hv. þingmaður þekkir mætavel sem formaður umhverfis- og samgöngunefndar. Það er verið að flýta verkefnum, taka verkefni jafnvel af síðasta tímabili 15 ára áætlunar og koma þeim framar í röðina, inn á fyrstu áætlun. Það er verið að flýta verkum innan fyrstu fimm áranna til þess að menn geti forgangsraðað vinnu sinni við hönnun og framkvæmdir — því að hönnun er hluti af framkvæmdum. Það líta margir svo á að verk sé ekki hafið fyrr en grafan er mætt eða jarðýtan eða vörubíllinn. En það er ekki þannig. Það er langur tími sem líður áður en kemur að því. Þannig þýða til að mynda öll þau verkefni sem eru hér inni núna sennilega um 8.700 ársverk, ef við miðum við gamlar forsendur, skýrslu sem Háskólinn á Akureyri lét gera, og uppreiknum það í dag. Af þessum 8.700 verkum eru 2.000 ársverk í hönnun og undirbúning og eftirlit. Þetta eru ekki bara gröfur, jarðýtur og vörubílar, hv. þingmaður.

Ef öll þessi verk eru ekki komin í rétta tímaröð hjá Vegagerðinni þá seinkar þeim, þau frestast, fara aftar í forgangsröðun. Þá verða menn að velja þau verkefni sem núgildandi samgönguáætlun leggur áherslu á, til að undirbúa verkin svo að þau séu tilbúin tímanlega. Þannig að það má segja að allt það sem við erum að flýta innan samgönguáætlunar muni lenda í einhvers konar töfum vegna þess að skilaboðin frá þinginu eru ekki þau að verkið sé aðkallandi og þurfi að setja kraft í hér og nú.